Í dag flutti minnihlutinn í borgarstjórn tillögu m.a. þess efnis að borgarstjórn hefji samningaviðræður við fulltrúa sjálfstæðra skóla á leik- og grunnskólastigi í Reykjavík til að finna framtíðarlausn fyrir rekstur þessara skóla. Verslunarráð hefur fjallað um mál sjálfstæðra skóla og bent á að þeir auki fjölbreytni og að fjölbreytt grunnskólamentun hafi jákvæð áhrif á allt skólakerfið. Staða einkarekinna skóla er ekki góð. Í dag er nemendum og foreldrum mismunað eftir því hvort þeir velji sjálfstæðan skóla eða opinberan skóla. Nemandi sem velur að fara að í sjálfstæðan skóla fær minni fjárframlög frá Reykjavíkurborg heldur en nemandi sem ákveður að fara í opinberan skóla. Ef opinberum skólum og sjálfstæðum skólum væri tryggður jafn starfsgrundvöllur, gætu nemendur auðveldlega valið á milli skólanna. Um leið væri samkeppni milli skólanna meiri sem myndi leiðir til aukins hvata á skólana til að gera betur. Sveitarfélög eiga að leggja kapp á að gera þjónustusamninga við sjálfstæða skóla og greiða sömu upphæð með hverju barni og í opinberum skólum. Jafnframt eiga sveitarfélög ekki að greiða lægri fjárhæðir þótt barn sæki skóla utan síns sveitarfélags. Aukin samkeppni milli skóla og sveitarfélaga er öllum fyrir bestu. Því miður var tillögu minnihlutans vísað frá en Verslunarráð vonast til þess að framtíðarlausn finnist á þessum málum.