Viðskiptaráð Íslands

Lokunardagar leikskóla margfalt fleiri hjá Reykjavíkurborg

Lokunardagar leikskóla vegna manneklu eru tífalt fleiri í leikskólum Reykjavíkurborgar samanborið við önnur fjölmenn sveitarfélög. Á haustönn 2024 voru 1,3 lokunardagar á hvert barn í borgarreknum leikskólum en 0,13 dagar að meðaltali í leikskólum annarra sveitarfélaga. Úttekt Viðskiptaráðs á lokunardögum bendir til þess að vandinn sé útbreiddur og hafi víðtæk áhrif.

Leikskólaþjónusta sveitarfélaga og misjöfn útfærsla þeirra á henni hefur víða verið til umfjöllunar að undanförnu. Um er að ræða grunnþjónustu sveitarfélaga og miklu máli skiptir að þar takist vel til enda geta hnökrar í þjónustunni haft víðtæk áhrif á samfélagið. Mikið hefur borið á umræðu um gjaldskrár en gæði þjónustunnar þarf einnig að meta heildstætt, með tilliti til kostnaðar, afkasta, vistunartíma, stöðugleika og ánægju með þjónustuna.

Að gefnu tilefni sendi Viðskiptaráð fyrirspurn um fjölda lokunardaga vegna manneklu og skipulagðra lokunardaga til sex stærstu sveitarfélög landsins. Niður­stöðurnar byggja á svörum sveitar­félaganna sjálfra, upplýsingum á vefsíðum sveitarfélaganna og könnunum um ánægju íbúa með þjónustuna.[1] Jafnframt ber að nefna að gögnin ná einvörðungu til leikskóla sem reknir eru af sveitar­félögunum og eru sjálfstætt starfandi leikskólar því undanskildir í úttektinni.

Leikskólabörn Reykjavíkurborgar tífalt líklegri til að vera heima

Lokunardagar vegna manneklu voru tífalt fleiri á barn í leikskólum Reykjavíkur­borgar samanborið við önnur fjölmenn sveitarfélög (mynd 1). Lokunar­dagar vegna manneklu voru 1,3 á hvert barn á borgarreknum leikskólum haustið 2024 en slíkir dagar voru að jafnaði 0,13 á barn í hinum sveitarfélögunum. Í leikskólum Garðabæjar voru lokunardagar vegna manneklu næst flestir, eða 0,36 á hvert barn, en það eru tæplega fjórfalt færri dagar á barn en hjá Reykja­víkurborg.

Á tímabilinu voru engir lokunardagar í leikskólum Kópavogsbæjar. Næst fæstir lokunardagar vegna manneklu voru í leikskólum Akureyrarbæjar þar sem þeir voru 0,01 á hvert barn. Í svari Akureyrarbæjar kemur fram að einungis var um tvær lokanir að ræða á tímabilinu, eina lokun deildar hluta úr degi og eina heilsdagslokun sem náði til þriggja leikskólabarna.

Lokunardagar vegna manneklu reiknast sem fjöldi barna sem þurfa að vera heima í hvert skipti sem deild lokar. Ef 10 barna deild lokar í 2 daga telst það til dæmis sem 20 lokunardagar. Lokunardagar eru reiknaðir í heilsdagsígildi en ef lokun er hluta úr degi telst það sem hálfur lokunardagur og telst þá aðeins sá fjöldi barna sem er heima að hverju sinni þegar deild lokar.

Fjórðungur leikskóla með einhverja lokunardaga

Hlutfallslega voru flestar lokanir vegna manneklu á leikskólum Reykjavíkurborgar haustið 2024, en þrír af hverjum fimm leikskólum lokuðu deild á tímabilinu (mynd 2). Um það bil einn af hverjum fjórum leikskólum í Reykjanesbæ lokuðu deild á tímabilinu, en hjá Akureyrarbæ, Hafnarfjarðarbæ og Garðabæ var hlutfallið einn af hverjum fimm leikskólum. Í Kópavogsbæ lokaði enginn leikskóli deild yfir tímabilið.

Til þess að meta hversu oft er gripið til lokunar vegna manneklu starfsfólks er gagnlegt að líta til fjölda skipta sem deild leikskóla lokar miðað við heildarfjölda leikskóla. Í Reykjanesbæ var að jafnaði 1,7 lokun á hvern leikskóla en einungis 0,2 á hvern leikskóla hjá Akureyrar­bæ.

Samanburðurinn á hlutfalli leikskóla með deild sem lokar og fjölda lokunardaga á hvern leikskóla gefur til kynna hvert umfang vandans er og hversu útbreiddur hann er. Hátt hlutfall leikskóla sem grípa til lokunar og margar lokanir á hvern leikskóla gefa til kynna að vandamálið sé útbreitt, líkt og í tilviki Reykjavíkurborgar, en þar sem að hlutfall leikskóla sem loka er lágt en lokanir á hvern leikskóla eru margar, líkt og í Reykjanesbæ, er vandinn bundinn við fáa leikskóla.

39 börn heima fjórar leikskólavikur hjá Reykjavíkurborg

Á leikskólum Reykjavíkurborgar voru tæplega 400 börn heima tvær leikskólavikur eða meira vegna lokunardaga sökum manneklu haustið 2024 (mynd 3). Í svörum Reykja­víkurborgar við fyrirspurn Viðskiptaráðs segir: „alls þurftu 2.364 af um 5.500 börnum að fara heim einhvern tímann á tímabilinu, hluta úr degi eða heilan dag.“ Um þriðjungur barna var heima hluta dags en tveir þriðju heilan dag. Þá þurftu 1.471 börn að vera heima oftar en einu sinni yfir tímabili. 39 börn voru heima 18 leikskóladaga á tímabilinu eða tæplega fjórar leikskólavikur.

Heildarfjöldi lokunardaga nam 10.769 hjá leikskólum Reykjavíkurborgar haustið 2024. Það þýðir að ófyrirséðar lokanir hafa raskað rúmlega 10.000 dögum fjölskyldna í Reykjavík með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á atvinnu- og fjölskyldulíf. Ef tíðni lokana er sambærileg á vorönn má gera ráð fyrir tvöföldum þeim dagafjölda yfir veturinn í heild.

Mest ánægja með leikskóla í Garðabæ

Ánægja með leikskólaþjónustu er mest í Garðabæ af fjölmennustu sveitarfélögunum árið 2024 skv. árlegri þjónustukönnun sem Gallup framkvæmir (mynd 4). Hafnarfjörður og Akureyrarbær fylgja þar á eftir og ánægja í Kópavogi er jöfn landsmeðaltali, en Reykjanesbær er 0,1 stigi undir meðaltali. Niðurstöður um ánægju íbúa með þjónustu leikskóla Reykjavíkur­borgar liggja ekki fyrir. Borgin ákvað árið 2016 að hætta þátttöku í þjónustukönnunum Gallup og hefur ekki birt samanburðarhæfar niðurstöður um ánægju íbúa með þjónustu sveitarfélagsins síðan þá.[2]

Að meðaltali 27 skipulagðir lokunardagar

Skipulagðir lokunardagar sveitarfélaga eru að jafnaði 26 en það eru sumarleyfisdagar ásamt skipulagsdögum (mynd 5). Slíkir dagar voru nokkuð jafnir milli sveitarfélaga en þeir eru fæstir 25 og flestir 29. Dagar með skipulagðar lokanir eru fæstir í Garðabæ að teknu tilliti til þess að þar loka leikskólar ekki yfir sumartímann en börn skulu taka 20 daga samfellt sumarfrí innan þess tímabils.

Flest sveitarfélög notast við svokallaða skráningardaga en það eru dagar þar sem þjónusta leikskóla er skert en hægt er að skrá börn á leikskóla gegn gjaldi. Slíkir dagar eru flestir hjá Akureyrarbæ en fæstir í Reykjavík. Skráningar­dagar koma í staðinn fyrir hefðbundna lokunardaga, t.d. milli jóla og nýárs eða í dymbilviku. Þá hafa sum sveitarfélög fleiri skráningardaga sem leikskólar raða sjálfir yfir árið, líkt og Akureyrarbær. Hafa ber í huga að skipulagðir lokunardagar miðast við ár en lokunardagar vegna manneklu við eina önn.

Gæði leikskólaþjónustu skiptir máli

Leikskólaþjónusta er ein af mikilvægustu þjónustum sem sveitarfélögin veita enda skiptir hún sköpum fyrir gang samfélagsins. Viðvarandi lokun leikskóla vegna manneklu hefur neikvæð áhrif á samfélagið, meðal annars í formi aukins álags á barnafjölskyldur, tapaðra vinnudaga, ófyrirsjáan­leika í daglegu lífi og hefur í för með sér erfiðleika við að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Úttekt Viðskiptaráðs bendir til þess að ýmsu sé ábótavant í leikskólaþjónustu sveitarfélaga þegar kemur að fáliðun og að vandinn sé mest aðkallandi hjá Reykjavíkurborg.

Einn liður í að bæta leikskólaþjónustu er að mæla afköst og árangur með skipulegum hætti. Slíkar mælingar gera stjórnendum sveitarfélaga kleift að nýta opinbera fjármuni á hagkvæman hátt og tryggja viðunandi gæði þjónustunnar, íbúum til hagsbóta.

Tilvísanir

1 Viðskiptaráð sendi fyrirspurn á sex fjölmennustu sveitarfélög landsins um fjölda lokunardaga á leikskólum vegna manneklu eða veikinda starfsfólks á haustönn 2024 og fjölda barna sem varð fyrir áhrifum lokunar í hvert sinn. Einnig var óskað eftir upplýsingum um skipulagða lokunardaga eða daga með skerta þjónustu.

2 Í skýrslu starfshóps borgarstjóra frá 2016 er þetta lagt til með eftirfarandi rökum: „Árlegar kannanir Capacent/Gallup endurspegla frekar viðhorf íbúa til sveitarfélagsins en að gefa mynd af gæðum þjónustu.“ Sjá skýrslu starfshópsins hér: https://reykjavik.is/sites/default/files/sbb_thjonustukonnun.pdf

Tengt efni

Grunnskólamál: hvað segja tölurnar?

Grunnskólakennurum hefur fjölgað hraðar en nemendum undanfarin ár. Þá er …
21. október 2024

Hvað er í fjárlagapakkanum?

Fjárlagafrumvarp ársins 2025 var lagt fram á dögunum. Samkvæmt því verða útgjöld …
27. september 2024

Meiriháttar munur á færni eftir grunnskóla

Meiriháttar munur var á færni barna eftir grunnskóla árið 2012. Þetta sýna …
13. ágúst 2024