Viðskiptaráð fagnar því að verið sé að skoða breytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs í núverandi mynd. Í áfangaáliti stýrihóps, sem félagsmálaráðherra skipaði til að fjalla um íbúðalánamarkaðinn, kemur fram að bankar og sparisjóðir ættu í framtíðinni alfarið að fara með afgreiðslu lána íbúðabankans og þjónustu við einstaklinga. Í áliti hópsins er talið rétt að breyta hlutverki Íbúðalánasjóð í íbúðabanka sem yrði bakhjarl fyrir lánveitingar til almennings. Markmið íbúðabankans væri að styðja við samkeppni á íbúðalánamarkaði, tryggja jafnræði landsmanna að húsnæðislánum og draga úr notkun ríkisábyrgða í húsnæðislánakerfinu.
Í desember 2004 fjallaði Viðskiptaráð um hlutverk ríkisins á íbúðalánamarkaði. Ítrekað var mikilvægi þess að bankarnir kæmu að fasteignalánum og að breyta þyrfti starfsemi Íbúðarlánasjóðs. Fjallað var um áhættu ríkissjóðs af starfsemi sjóðsins og áhrif hans á lánshæfismat ríkissjóðs. Bent var á að hlutfall Íbúðalánasjóðs í ábyrgðum ríkissjóðs hefði áhrif á lánshæfismat Íslands og að þetta hlutfall hefði aukist jafnt og þétt á síðustu árum. Jafnframt kom fram að kostnaður ríkissjóðs af rekstri Íbúðalánasjóðs væri umtalsverður. Sagt var frá því að sú sérstaða Íbúðalánasjóðs að veita félagslega aðstoð hafi með lögum verið færð frá sjóðnum yfir í skattkerfið og að sú aðstoð væri nú veitt með vaxtabótum og húsaleigubótum sveitarfélaga. Viðskiptráð benti á að ef vilji væri fyrir sérstökum fyrirgreiðslum af hálfu ríkisins í einhverjum tilvikum, gætu slíkar ábyrgðir og ívilnanir farið í gegnum aðila á fjármálamarkaði. Ráðið taldi það vera undir stjórnvöldum komið hvort tækist að þróa hér heilbrigða samkeppni í íbúðarmálum. Sérskipaður stýrihópur og fyrstu tillögur hans benda til þess að vilji sé hjá stjórnvöldum til að breyta hlutverki Íbúðalánasjóðs eins og Viðskiptaráð hefur bent á.