Átján fyrirmyndarfyrirtækjum í stjórnarháttum veitt viðurkenning

Hópur fyrirtækja í fjölbreyttri starfsemi hlaut í dag verðlaun fyrir góða stjórnarhætti

Í dag hlutu 18 fyrirtæki viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðurkenningarnar voru veittar við hátíðlega athöfn á Nauthóli, að viðstöddum fulltrúum fyrirmyndarfyrirtækjanna en það eru Stjórnvísi, Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland sem veita viðurkenningarnar. Hér má sjá myndir frá viðburðinum.

Fyrirmyndarfyrirtæki í fjölbreyttri starfsemi

Fyrirmyndarfyrirtækin 18 eru í afar fjölbreyttri starfsemi en þar má nefna fjármála- og tryggingastarfsemi, fjarskipti, leigustarfsemi, eignaumsýslu og verkfræðiþjónustu. Fyrirtækin þykja öll vel að nafnbótinni komin enda eru starfshættir stjórna þeirra vel skipulagðir og framkvæmd stjórnarstarfa til fyrirmyndar.

Eftirtalin fyrirtæki voru að þessu sinni metin sem Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum:

  • Arion banki hf.
  • Eik fasteignafélag hf.
  • Fossar fjárfestingarbanki hf.
  • Icelandair Group hf.
  • Íslandssjóðir hf.
  • Kvika banki hf.
  • Lánasjóður sveitarfélaga ohf.
  • Mannvit hf.
  • Reginn hf.
  • Reiknistofa bankanna hf.
  • Reitir hf.
  • Sjóvá hf.
  • Stefnir hf.
  • Sýn hf.
  • TM hf.
  • Vátryggingafélag Íslands hf.
  • Vörður hf.
  • Ölgerðin Egill Skallagríms hf.

Á viðurkenningarathöfninni hélt Dr. Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Háskóla Íslands, stutt erindi þar sem hún spurði fundargesti hvort við sem heild værum til fyrirmyndar þegar kemur að tækifærum kynjanna til stjórnunarstarfa. Í máli hennar kom meðal annars fram að þó svo að Ísland leiði lista Alþjóðaefnahagsráðsins er snýr að kynjajafnrétti, 14 árið í röð og hafi fengið gullvottun frá Sameinuðu þjóðunum árið 2022 sem viðurkenningu á hlutverki Íslands sem leiðandi ríki í jafnréttisbaráttu, þá væri staðan óásættanleg þegar kemur að stöðu kvenna í framkvæmdastjórastöðum og stjórnum hér á landi. Almennt eru konur einungis 21% allra framkvæmdastjóra hér á landi en karlmenn 79% og hjá skráðum félögum væru konur 13% forstjóra.

Þegar litið væri til stjórna allra félaga væru konur fjórðungur stjórnarmanna en um 44% hjá skráðum félögum og þar er það kynjakvótinn sem hefur áhrif. Ásta Dís velti því upp hverjir það væru sem gætu breytt stöðunni hér á landi og nefndi fjölmörg dæmi í því samhengi. T.d væru það stjórnvöld sem m.a. gætu farið þá leið að setja á kynjakvóta á framkvæmdastjórnir félaga, fjárfestar gætu sett ákvæði í eigendastefnu sína. Atvinnulífið gæti einnig lagt sitt af mörkum til að breyta stöðunni og þar þyrftu leiðtogar stærstu félaganna og samtakanna að vera öflugir talsmenn jafnréttis. Síðast en ekki síst gætu stjórnir félaga komið á menningu jafnra tækifæra og innleitt arftakaáætlanir í félög. Ásta Dís lauk máli sínu á því að jafnrétti er ákvörðun og til þess þarf að hafa öflugar fyrirmyndir líkt og þau sem fengu viðurkenninguna á viðburðinum.

Jón Gunnar Borgþórsson frá JGB ráðgjöf fór því næst stuttlega yfir verkefnið Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum sem sett var á laggirnar fyrir rúmum áratug. Markmið verkefnisins er að stuðla að góðum stjórnarháttum með því að skýra hlutverk og ábyrgð stjórnenda fyrirtækja og auðvelda þeim þannig að rækja störf sín. Liður í því er meðal annars útgáfa, og regluleg uppfærsla, leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja sem sjá má á www.leidbeiningar.is.

Það voru svo Gunnlaugur B. Björnsson samskiptastjóri Viðskiptaráðs og Gunnhildur Arnardóttir framkvæmdastjóri Stjórnvísi, sem afhentu viðurkenningarnar en fundarstjóri var Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Tengt efni

Viðskiptaráð bakhjarl rannsóknar í því hvernig loka megi kynjabilinu í atvinnulífinu

„Tilgangur rannsóknanna og framlag til vísindasamfélagsins er að koma auga á og ...
25. okt 2023

Fyrirmyndarfyrirtækjum veitt viðurkenning

Sextán fyrirtæki þar sem starfshættir stjórna eru vel skipulagðir og framkvæmd ...
26. ágú 2022

Sjálfbærniskýrslur Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna og Play valdar skýrslur ársins

Viðurkenningar fyrir sjálfbærniskýrslur ársins voru veittar fyrr í dag við ...
7. jún 2022