Í gær var undirritaður stofnsamningur frumkvöðlasjóðs Dr. Guðfinnu S. Bjarnadóttur, fyrrverandi rektors Háskólans í Reykjavík. Sjóðnum er ætlað að stuðla að því frumkvöðlastarfi sem grunnur var lagður að innan HR í starfstíð Guðfinnu. Stofnupphæð sjóðsins er fimm milljónir króna og leggur Bakkavör til alla upphæðina.
Árlega verður veittur styrkur úr sjóðnum uppá 350 þúsund krónur fyrir bestu viðskiptaáætlunina í áfanganum stofnun og rekstur fyrirtækja. Í dómnefnd um bestu viðskiptaáætlunina munu sitja fulltrúar HR, Viðskiptaráðs Íslands og Bakkavarar. Samninginn undirrituðu Svafa Grönfeldt rektor HR, Halla Tómasdóttir framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Hildur Árnadóttir fjármálastjóri Bakkavarar og Guðfinna S. Bjarnadóttir.