Í dag fór fram fyrsti fundur ráðgjafahóps Viðskiptaráðs Íslands vegna rekstrarumhverfis lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Flest íslensk fyrirtæki falla í þenna flokk og eru mikilvægir drifkraftur, til að mynda hvað varðar atvinnu- og nýsköpun. Því er samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs að stórum hluta háð því að sem best verði hlúð að slíkum rekstri.
Markmiðið með vinnu hópsins er að draga fram og ræða helstu ögranir sem stjórnendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja standa frammi fyrir í sínum rekstri. Í þeim efnum mun Viðskiptaráð leggja áherslu á málaflokka sem lúta að fjármögnun, mönnun og vinnumarkaður, umhverfi reglugerða, samskiptum við hið opinbera, hagrænu umhverfi og innviðum til stuðnings atvinnulífi. Í ráðgjafahópnum er breiður hópur félaga Viðskiptaráðs og mun vinna hans verða ráðinu til leiðsagnar um áherslur í málefnastarfi, auk þess sem hún mun nýtast þátttakendum við að kljást við dagleg viðfangsefni í eigin rekstri.