Ljóst er að íslenska ríkið þarf utanaðkomandi aðstoð til að greiða úr þeim vanda sem upp er kominn, ekki síst vegna þess ófremdarástands sem nú ríkir á gjaldeyrismarkaði. Viðskiptaráð telur í þessu sambandi brýnt að komast tafarlaust að samkomulagi um aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Samstarf við IMF mun auka trúverðugleika Íslands út á við og veita landinu aðgang að lánalínum frá fleiri aðilum. Líta má á aðkomu IMF sem einskonar heilbrigðisvottorð fyrir Ísland.
Í dag hafa borist fréttir erlendis frá þess efnis að íslenska ríkið eigi nú í lokaviðræðum við IMF. Endanleg upphæð lánsins, auk þeirra skilmála sem því munu fylgja, virðast aftur á móti ekki liggja fyrir. Engu að síður fagnar Viðskiptaráð þessum fréttum.