Viðskiptaráð Íslands

Hagkerfi í viðjum örmyntar

Staðan í gjaldeyrismálum þjóðarinnar er óviðunandi. Eftir þrot bankanna á síðasta ári og inngrip stjórnvalda á gjaldeyrismarkaði með setningu víðtækra hafta er íslenska krónan rúin trausti á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þessi staðreynd takmarkar verulega umsvif íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegri starfsemi sem og almenna getu landsins til utanríkisviðskipta. Um þessar mundir stendur krónan einnig í vegi fyrir flæði erlends fjármagns inn í landið en við því má íslenska hagkerfið ekki til lengri tíma.

Haftakróna líkt og nú er við lýði getur vart verið hugsuð sem framtíðarlausn, enda sýnir nýleg endurskoðun á löggjöf um gjaldeyrisviðskipti hversu óskilvirkt stýritæki gjaldeyrishöft - og höft almennt - eru. Engu að síður er ekki ljóst hvernig krónan verður losuð úr viðjum hafta án þess að því fylgi veruleg veiking á gengi hennar með tilheyrandi áföllum fyrir hagkerfið. Þegar horft er til lengri tíma eykur óbreytt fyrirkomulag í gjaldeyris- og peningamálum þjóðarinnar líkur á stöðnun og efnahagslegri einangrun Íslands. Þess vegna er vart hægt að líta framhjá því að upptaka annarrar myntar hér á landi, í fullri sátt og samráði við alþjóðasamfélagið, gæti orðið verulega til bóta fyrir innlendan efnahag, jafnt til skemmri og lengri tíma. Í raun stendur valið ekki lengur á milli áframhaldandi sjálfstæðrar peningastefnu og upptöku annarrar myntar, heldur má færa gild rök fyrir því að valið standi einfaldlega á milli upptöku annarrar myntar eða framhaldi á núverandi stöðu.

Lausn á þessu vandamál er líklega mikilvægasta viðfangsefnið í dag, enda munu örlög heimila og atvinnulífs að miklu leyti ráðast af gengisþróun næstu missera. Þessir aðilar eiga heimtingu á því að stjórnmálaflokkar landsins skýri með markvissum og greinargóðum hætti hvernig þeir hyggjast taka á þessu stærsta hagsmunamáli samtímans. Það felst mikill skortur á framsýni í þeim málflutningi að um sé að ræða seinni tíma vandamál og því þurfi ekki að kynna lausnir þegar í stað. Að sama skapi felst í því virðingarleysi gagnvart þeim fjölmörgu heimilum og fyrirtækjum sem eiga allt sitt undir þróun á gengi krónunnar á komandi misserum.

Nánari umfjöllun í nýrri skoðun Viðskiptaráðs, Hagkerfi í viðjum örmyntar

Tengt efni

Veðjað á rangan hest: Umgjörð veðmálastarfsemi á Íslandi

Þótt veðmálastarfsemi sé sniðinn þröngur stakkur hérlendis veðja fáar þjóðir …
12. september 2024

Réttum kúrsinn: Umbætur í opinberu eftirliti

Opinbert eftirlit stendur samkeppnishæfni Íslands fyrir þrifum. Íþyngjandi …
27. ágúst 2024

Fæstum þykir sinn sjóður of þungur

Viðskiptaráð leggur fram 28 tillögur um hvernig megi hagræða í sjóðum ríkisins
1. mars 2024