Bankarnir þrír Glitnir, Landsbanki og Kaupþing geta sem fyrr ekki afgreitt erlendar greiðslur nema í undantekningartilfellum skv. tilmælum Seðlabankans um temprun útflæðis á gjaldeyri. Sparisjóðabanki Íslands (áður Icebank), sem fram til þessa hefur getað sinnt erlendri greiðslumiðlun í flestum myntum, getur heldur ekki afgreitt erlendar greiðslur í dag. Ástæðan er krafa Seðlabankans um hærri veðtryggingar frá Sparisjóðabankanum, sem og fleiri fyrirtækjum, sem skapar töluvert óvissuástand.
Ástand þetta er óviðunandi og ítrekar Viðskiptaráð að tafarlaust verði gripið til aðgerða til að vinna bug á gjaldeyrisvandanum. Forgangsmál er að utanríkisviðskipti komist aftur í eðlilegt horf.