Ný lög sem framlengja frest fyrirtækja til að sækja um heimild til uppgjörs í erlendri mynt fyrir árið 2008 voru samþykkt fyrir helgi. Lögin gera fyrirtækjum jafnframt kleift að sækja um heimild til uppgjörs í erlendri mynt fyrir næsta ár, en almennt rann sá umsóknarfrestur út fyrir tæpum tveimur mánuðum. Fyrirtæki þurfa eftir sem áður að uppfylla skilyrði 8. gr. ársreikningslaga og reglugerðar nr. 101/2007 til að hljóta þá heimild.
Viðskiptaráð fagnar fumvarpinu en ráðið hefur lengi talað fyrir því að svigrúm íslenskra fyrirtækja til að fá að gera upp í erlendri mynt verði rýmkað. Því miður er það svo að núverandi skilyrði ársreikningalaga hafa reynst fyrirtækjum fjötur um fót þar sem ársreikningaskrá hefur túlkað þau afar þröngt. Vegna þessa lagði Viðskiptaráð til í umsögn sinni við frumvarpið að skilyrðin yrðu rýmkuð töluvert. Að auki lagði Viðskiptaráð til að lögfestur yrði hámarksfrestur fyrir ársreikningaskrá til að afgreiða umsóknir af þessu tagi. Undir fyrri tillöguna tók efnahags- og skattanefnd í nefndaráliti sínu við frumvarpið og ítrekaði að ekki ætti að túlka umrædd skilyrði þrengra en alþjóðlegir reikningsskilastaðlar gefa tilefni til. Hvað það varðar er rétt að benda á nýlegt frumvarp fjármálaráðherra til breytingar á þessum skilyrðum, frumvarpið má nálgast hér.
Viðskiptaráð minnir á skoðun sína Uppgjör í erlendum gjaldmiðlum eðlileg afleiðing alþjóðavæðingar frá því í mars á þessu ári, en þar er fjallað nánar um þetta mál. Skoðunina má nálgast hér, og umsögn Viðskiptaráð um frumvarpið má nálgast hér.