Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur lagt fram drög að frumvarpi til breytinga á ýmsum lögum vegna einföldunar og samræmingar leyfisferla á sviði umhverfis- og orkumála. Viðskiptaráð fagnar frumvarpsdrögunum en hvetur stjórnvöld til að ganga enn lengra og eyða núverandi réttaróvissu.
Frumvarpið er framlag inn í vinnu stjórnvalda við að koma á skilvirkari leyfisveitingaferli í umhverfis- og orkumálum. Viðskiptaráð fagnar vinnunni og hvetur stjórnvöld til að ganga lengra og stíga stærri skref í þá átt að einfalda regluverk, auka skilvirkni, samþætta aðkomu stofnana og draga úr íþyngjandi kröfum. Ráðið vísar til umsagna á fyrri stigum þar sem það lagði þar fram sex tillögur um einn ábyrgðaraðila, eina rafræna gagnagátt, einfalt regluverk, einn leyfisveitanda, vel skilgreinda tímafresti og færri kæruleiðir.
Ráðið gerir þó athugasemdir við einstök ákvæði frumvarpsins. Fyrirhugaðar breytingar á raforkulögum eru viðbragð við dómi Hæstaréttar í máli nr. 2/2024 um að Landsnet hafi skort lagaheimild til að leggja á svokallað innmötunargjald. Ráðið telur ákvæðið þó enn óljóst, m.a. kveði þá bæði á um að gjaldskrá skuli gilda annars vegar fyrir flutning raforku til dreifiveitna og hins vegar fyrir flutning raforku til stórnotenda en síðar í ákvæðinu kveðið á um sama gjaldskrá skuli vera fyrir innmötun virkjana á flutningskerfið.
Þá er jafnframt vísað til þess að gjaldskrá skuli haga í samræmi við kostnað við þá þjónustu sem er veitt eins og um þjónustugjald sé að ræða. En á sama tíma kveðið á um að horfa til þess hvaða áhrif fjárfestingar sem nýttar eru í þágu tiltekinna hópa viðskiptavina hafa á fjárhæð tekjumarka og gjaldskrá skuli vera í samræmi þau áhrif. Ráðið geldur varhug við því að lögfesta óljósa heimild til að mismuna viðskiptavinum eða þjónustuþegum innbyrðis. Ekki síst í ljósi þess að breytingum er ætlað að eyða réttaróvissu.
Varðandi breytingar á lögum um stjórn vatnamála hvetur ráðið stjórnvöld til að meta áhrif nýfallins dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í mál nr. E – 2457/2024 og þá hvaða breytingar og/eða viðbætur þurfi til að bregðast við umræddum dómi. Nauðsynlegt er að frumvarpið og í framhaldinu löggjafinn taki af öll tvímæli um að 1. mgr. 18. gr. veiti Umhverfis- og orkustofnun viðhlítandi lagastoð til að heimila breytingar á vatnshloti vegna vatnsaflsvirkjana.
Um flýtimeðferð framkvæmda í þágu orkuskipta og kolefnishlutleysis telur ráðið telur almenna tilvísun til orkuskipta og kolefnishlutleysis ekki nægilega skýra til að víkja reglum um jafnræði auk þess sem nánast undantekningalaust er um endurnýjanlega orku að ræða sem í eðli sínu stuðlar að orkuskiptum. Hætt sé við því að ákvæðinu verði því fremur beitt að kaupendum orkunnar fremur en framleiðendum.
Frumvarpið er aðeins fyrsti áfangi nauðsynlegra lagabreytinga til einföldunar- og samræmingar á leyfisveitingaferlum en ráðið hvetur stjórnvöld til að ganga enn lengra.
Umsögnina í heild er hægt að nálgast hér.