Viðskiptaráð Íslands

Samningar um eignaskipti

Ríkisstjórnin hefur lýst vilja til semja um eignaskipti við erlenda aðila sem eiga eignir í íslenskum krónum, eins og kom fram í viðtali við fjármálaráðherra í Financial Times í síðustu viku. Þetta er jákvætt þar sem óvissa um krónubréf erlendra aðila er meðal þess sem staðið hefur í vegi fyrir afnámi gjaldeyrishafta og lækkun vaxta á innlendum markaði. Viðskiptaráð hefur lengi bent á mikilvægi þess að semja við erlenda eigendur innlendra eigna um að losa fjármagn þeirra út þannig að þrýstingur á gengi krónunnar verði sem minnstur. Var m.a. fjallað um þetta í skoðun ráðsins þann 6. febrúar síðastliðinn "Afnám hafta og lækkun vaxta" sem má nálgast hér . Í þessari viðleitni eru einkum tvær leiðir færar.

Ein leið eru hefðbundin eignaskipti á borð við þau sem fjármálaráðherra hefur nú lýst yfir áhuga á að kanna. Í ljósi umtalsverðra erlendra eigna íslenskra lífeyrissjóða gætu þeir komið að slíkum skiptum. Þannig gætu sjóðirnir skipt á erlendum eignum og fengið afhent íslensk verðbréf þess í stað, en eðlilegt væri að miða við gengi sem væri mun veikara en skráð gengi er í dag. Erlendir aðilar gætu séð hag sínum betur borgið með því að selja þannig íslenskar eignir á afslætti, í stað þess að þurfa að keppast um að koma fjármagni út úr hagkerfinu þegar opnar fyrir fjármagnsflutninga.

Lífeyrissjóðirnir eru eingöngu með skuldbindingar í íslenskum krónum, og samningur af þessu tagi gæti skilað þeim verulega hárri ávöxtun í íslenskum krónum. Að auki væru þessi skipti þjóðahagslega hagkvæm þar sem krónur þyrftu ekki að ganga kaupum og sölu á gjaldeyrismarkaði með tilheyrandi þrýstingi á gengið.

Hin leiðin fælist í því að semja við erlenda eigendur innlendra peningalegra eigna um að fé þeirra verði losað á nokkrum árum í samræmi við endurgreiðslugetu landsins. Hér kemur til greina að ríkið eða aðrir innlendir aðilar gefi út skuldabréf í erlendri mynt, sem erlendir aðilar fengju í skiptum fyrir innlendar eignir sínar. Skilmálar skuldabréfanna yrðu ákveðnir í samráði við erlendu aðilana, en heppilegast væri að þau yrðu til a.m.k. nokkurra ára. Með þessum hætti myndu erlendir aðilar losna út úr stöðum sínum og fá andvirðið greitt í erlendri mynt samkvæmt skilmálum skuldabréfsins. Þrýstingurinn á gengi krónunnar yrði mun minni með þessu móti þar sem greitt væri fyrir eignirnar í skrefum. Ef vilji erlendra aðila til að sleppa út úr íslensku hagkerfi er mikill, má gera ráð fyrir því að ávöxtunarkrafa í slíku útboði yrði mjög lág vegna umframeftirspurnar. Þannig gæti verið um mjög hagkvæma útgáfu að ræða af hálfu hins opinbera.

Að sjálfsögðu eru aðrar leiðir færar að sama marki. Grunnhugmyndin liggur þó í þeirri staðreynd að bæði ríkissjóður sem og lífeyrissjóðir eru í góðri aðstöðu til að losa út erlenda skammtímafjárfestingu úr íslensku hagkerfi á hagfelldum kjörum með beinum samningaviðræðum við eigendur þessarabréfa. Af yfirlýsingum stærstu umsjónaraðila útgáfu jöklabréfa að dæma ætti að vera tiltölulega auðvelt að nálgast eigendur þessara bréfa og ná að samningaborði. Þannig væri hægt að draga verulega úr skammtímaþrýstingi á gengi krónunnar við afnám hafta. Takist þetta skapast því fyrr aðstæður þar sem hægt verður að nema höft af fjármagnshreyfingum og lækka vexti.

Tengt efni

Einfalda megi skattkerfið

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, fullyrti að einfalda …
16. janúar 2026

Myndband: Er ríkið farið að þjónusta sig sjálft?

Lísbet Sigurðardóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, fjallar um opnunartíma …
15. janúar 2026

Aðalfundur Viðskiptaráðs 2026

Aðalfundur Viðskiptaráðs Íslands fer fram þriðjudaginn 10. febrúar kl. 11:30 í …
13. janúar 2026