Í kjölfar ákvörðunar forseta Íslands um að synja staðfestingu á lögum nr. 96/2009, svokölluðum Icesave-lögum, hefur átt sér stað talsverð umfjöllun um málið á erlendri grundu. Í ljósi þess að ekki eru allar upplýsingar sem þar birtast mjög skýrar auk þess að vera byggðar á röngum grunni í ýmsum tilfellum taldi Viðskiptaráð rétt að taka saman einblöðung um ferli og stöðu málsins á ensku.
Samantekt á ensku um þróunina
Þetta skjal geta félagar ráðsins nýtt til upplýsingamiðlunar gagnvart viðskiptavinum sínum og öðrum hagsmunaaðilum erlendis. Einnig er gert ráð fyrir að uppfæra upplýsingaskjal ráðsins, The Iceland Economic Situation: Status report, en í því má finna samantekt á ensku um þróun efnahags- og stjórnmála hérlendis frá hruni bankanna. Meðal þeirra upplýsinga sem verða uppfærðar í skjalinu er þróun endurreisnar bankakerfisins, framgangur efnahagsáætlunarinnar í ríkisfjármálum og loks þeir atburðir sem hafa átt sér stað varðandi Icesave-málið.
Félagar Viðskiptaráðs Íslands geta nálgast upplýsingaskjalið um stöðu Icesave málsins á ensku með því að hafa samband við skrifstofur ráðsins í síma 510-7100 eða sent tölvupóst á birna@vi.is.