Viðskiptaráð Íslands

Verðmætasköpun almenna vinnumarkaðarins er forsenda opinberra starfa

Viðskiptaráð Íslands hefur undanfarnar vikur bent á óhagfellda þróun í útgjöldum ríkissjóðs og mikla fjölgun starfsmanna hins opinbera. Nýverið benti aðstoðarframkvæmdastjóri ráðsins, Frosti Ólafsson, á þá staðreynd að meginþorri þeirra sem misst hafa vinnuna frá hruni bankanna koma úr röðum hins almenna vinnumarkaðar á sama tíma og lítil aðlögun hefur átt sér stað hjá hinu opinbera. Til stuðnings þessu benti Frosti á svör fjármálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi nú í vetur þar sem kom fram að opinberum starfsmönnum fjölgaði um 300 á milli áranna 2008 og 2009.

Á sama tíma fækkaði störfum á almennum vinnumarkaði um ríflega 10.000.
Í kjölfar umfjöllunarinnar birti formaður Bandalags háskólamanna, Guðlaug Kristjánsdóttir, fréttatilkynningu þar sem lýst var afstöðu samtakanna til málefnisins. Það er rík ástæða til að fagna málefnalegri umræðu um þetta mikilvæga viðfangsefni og ekki síst frá þeim sem málið varða með beinum hætti. Engu að síður telur Viðskiptaráð ástæðu til að gera nokkrar athugasemdir varðandi málflutning formanns BHM.
  • Í málflutningi sínum leggur formaðurinn áherslu á að ástæða þess að opinberum störfum hafi fjölgað á sama tíma og atvinnuleysi hefur stóraukist megi rekja til verkefnastöðu hins opinbera. Það skýtur skökku við að tala um verkefnastöðu hins opinbera sem óhreyfanlega stærð. Þegar allt kemur til alls eru verkefni hins opinbera fjármögnuð af almenna vinnumarkaðnum og algjört grundvallaratriði að almennur vinnumarkaður hafi burði til að standa undir þeim.

  • Ástæður uppsagna hjá ýmsum fyrirtækjum má rekja til óhagstæðra rekstrarskilyrða í mun víðari skilningi en formaður BHM lýsir. Þar vega þungt skattahækkanir sem m.a. er ætlað að standa undir launakostnaði hins opinbera. Í nýlegri könnun sem Capacent framkvæmdi fyrir Viðskiptaráð kemur fram að 45% íslenskra fyrirtækja telja sig knúin til að fækka starfsfólki vegna skattabreytinga stjórnvalda.

  • Formaður BHM telur ekki rými til að fækka starfsfólki innan opinbera geirans öðruvísi en með skerðingu á þjónustu. Þrátt fyrir þetta hefur opinberum starfsmönnum fjölgað um tæp 30% frá árinu 2000 og starfsmönnum í opinberri stjórnsýslu um 55%. Hvort þjónusta hafi aukist í sama hlutfall er erfiðara að meta. Á sama tíma hefur störfum á almennum vinnumarkaði einungis fjölgað um 3%. Það er því ljóst að svipaður fjöldi almenns starfsfólks þarf að standa undir launakostnaði mun fleiri opinberra starfsmanna.

  • Formaður BHM heldur því fram að síðustu 18 mánuði hafi laun lækkað meira hjá opinberum starfsmönnum en á almennum vinnumarkaði. Einu heildrænu samanburðargögnin sem til eru um þróun launa umræddra hópa er vísitala launa helstu launþegahópa sem finna má hjá Hagstofu Íslands. Samkvæmt henni hafa laun opinberra starfsmanna hækkað um 10% frá öðrum ársfjórðungi 2008 á sama tíma og laun hafa einungis hækkað um 2% á almennum vinnumarkaði.

  • Að lokum er ástæða til að undirstrika að ekkert er því til fyrirstöðu að opinberir starfsmenn safni sér viðbótarlífeyrissparnaði með sama hætti og starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Að hækka laun opinberra starfsmanna í gegnum lífeyrisgreiðslur er ógagnsætt og óhagkvæmt. Lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs fara sífellt vaxandi og gjaldfærslur vegna þeirra skipta tugum milljarða króna á ári hverju. Þennan kostnað ber almennur vinnumarkaður.


Það er rétt að undirstrika að Viðskiptaráð telur fækkun opinberra starfa ekki markmið útaf fyrir sig. Að sjálfsögðu er mikilvægt að standa vörð um störf í sem ríkustum mæli. Það sem má aftur á móti ekki gleyma er að grundvöllur blómlegs atvinnulífs felst í verðmætasköpun fremur en fjölgun opinberra starfa. Skattahækkanir, sem er ætlað að afla tekna til að verja opinber störf, geta dregið úr vaxtarmöguleikum fyrirtækja og jafnvel kippt undan þeim starfsgrundvelli. Með því eru opinber störf látin hafa forgang á almennan vinnumarkað. Þessi stefna stjórnvalda endurspeglast ágætlega í þróun á atvinnumarkaði undanfarin misseri. Til lengdar er ósennilegt að hún geti verið sjálfbær.

Tengt efni

Einfalda megi skattkerfið

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, fullyrti að einfalda …
16. janúar 2026

Myndband: Er ríkið farið að þjónusta sig sjálft?

Lísbet Sigurðardóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, fjallar um opnunartíma …
15. janúar 2026

Aðalfundur Viðskiptaráðs 2026

Aðalfundur Viðskiptaráðs Íslands fer fram þriðjudaginn 10. febrúar kl. 11:30 í …
13. janúar 2026