Það er rétt að undirstrika að Viðskiptaráð telur fækkun opinberra starfa ekki markmið útaf fyrir sig. Að sjálfsögðu er mikilvægt að standa vörð um störf í sem ríkustum mæli. Það sem má aftur á móti ekki gleyma er að grundvöllur blómlegs atvinnulífs felst í verðmætasköpun fremur en fjölgun opinberra starfa. Skattahækkanir, sem er ætlað að afla tekna til að verja opinber störf, geta dregið úr vaxtarmöguleikum fyrirtækja og jafnvel kippt undan þeim starfsgrundvelli. Með því eru opinber störf látin hafa forgang á almennan vinnumarkað. Þessi stefna stjórnvalda endurspeglast ágætlega í þróun á atvinnumarkaði undanfarin misseri. Til lengdar er ósennilegt að hún geti verið sjálfbær.