Frá og með næsta hausti verða allar brautir Verzlunarskóla Íslands þriggja ára námsbrautir til stúdentsprófs. Rík áhersla er lögð á að halda sömu gæðum náms, þrátt fyrir styttingu námstíma til stúdentsprófs. Undirbúningur breytingarinnar hefur verið á forræði skólanefndar, skólastjórnenda og yfir 50 starfsmanna Verzlunarskólans. Afrakstur góðrar vinnu þeirra má sjá á vefsíðu skólans.
Viðskiptaráð fagnar þessari mikilvægu breytingu sem festir Verzlunarskólann enn frekar í sessi sem leiðandi framhaldsskóla á Íslandi. Umbætur í menntamálum eru eitt mikilvægasta efnahagsmál framtíðarinnar og stytting námstíma til stúdentsprófs er á meðal þeirra breytinga sem skila hvað mestum ávinningi fyrir nemendur, starfsfólk framhaldsskólanna og rekstur hins opinbera. Það er von ráðsins að breytingar á námsfyrirkomulagi Verzlunarskólans verði öðrum framhaldsskólum fyrirmynd á komandi árum.
Viðskiptaráð Íslands hefur verið bakhjarl Verzlunarskólans í yfir 90 ár. Á vormánuðum árið 2014 tók ný skipulagsskrá skólans gildi. Með henni var aðkoma atvinnulífsins að starfsemi Verzlunarskólans breikkuð auk þess sem tengsl við fyrrverandi nemendur voru efld í gegnum þátttöku þeirra í nýju fulltrúaráði skólans. Með fjölbreyttari aðkomu atvinnulífsins er skólinn enn betur í stakk búinn til að mæta þörfum viðskiptalífsins og þeim breytingum sem framundan eru í íslensku menntakerfi.