Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, Magnús Scheving, Birna Ósk Einarsdóttir, Heiðar Guðjónsson og Friðrik Sophusson eru á meðal þátttakenda í dagskrá Viðskiptaþings 2026 sem fer fram 12. febrúar í Borgarleikhúsinu. Viðskiptaþing er einn stærsti viðburður ársins í íslensku viðskiptalífi.

Nú eru þrjár vikur í Viðskiptaþing 2026 sem fram fer í Borgarleikhúsinu þann 12. febrúar næstkomandi. Í dag kynnum við til leiks helstu þátttakendur í dagskrá þingsins.
Yfirskriftin í ár er Áttaviti fyrir Ísland. Sjónum verður beint að því hvernig við ræktum menningu, viðhorf og gildi sem leggja grunninn að langtímaárangri. Rætt verður hvernig sameiginlegur „áttaviti“ getur vísað veginn að skýrri framtíðarsýn og farsæld sem byggir á styrkleikum þjóðarinnar.

Halla Tómasdóttir er sjöundi forseti Íslands. Hún er menntuð í viðskipta- og leiðtogafræðum og hefur meðal annars starfað sem forstjóri alþjóðasamtakanna The B Team, stofnandi Auðar Capital og framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Halla hefur búið og starfað í Bandaríkjunum og var einnig á meðal skipuleggjenda Þjóðfundarins árið 2009.

Magnús Scheving er athafnamaður, rithöfundur og fyrrverandi afreksmaður í íþróttum. Hann er höfundur Latabæjar og byggði þar upp þekkt alþjóðlegt vörumerki. Sjónvarpsþættirnir um Latabæ hafa nú verið sýndir í yfir 170 löndum og voru að stórum hluta framleiddir á Íslandi. Auk þess hefur Magnús verið eftirsóttur fyrirlesari á alþjóðavettvangi.

Birna Ósk Einarsdóttir er forstjóri Húsasmiðjunnar. Hún býr að víðtækri alþjóðlegri reynslu, síðast sem rekstrarstjóri (COO) APM Terminals í Hollandi. Fyrirtækið er hluti af A.P. Moller - Maersk og stýrir 74 gámahöfnum í 38 löndum með yfir 22.000 starfsmenn. Birna hefur jafnframt gegnt stjórnunarstörfum hjá Icelandair, Landsvirkjun og Símanum.

Heiðar Guðjónsson er hagfræðingur, fjárfestir og stjórnarformaður Íslandsbanka. Hann býr yfir víðtækri alþjóðlegri reynslu, en hann starfaði m.a. í New York, London og Zürich. Heiðar var forstjóri Sýnar á árunum 2019–2022, hefur stýrt eigin fjárfestingum og setið í stjórnum fyrirtækja. Hann hefur verið virkur þátttakandi í opinberri umræðu.

Friðrik Sophusson er fyrrverandi ráðherra og forstjóri Landsvirkjunar. Hann var fjármálaráðherra frá 1991–1998 og leiddi víðtækar efnahagsumbætur, meðal annars í ríkisfjármálum og við sölu ríkisfyrirtækja. Að loknum stjórnmálaferli stýrði hann Landsvirkjun í rúman áratug í gegnum mikið uppbyggingarskeið, m.a. byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Friðrik hefur setið í fjölda stjórna og var stjórnarformaður Íslandsbanka.
Andri Þór Guðmundsson, formaður Viðskiptaráðs, Ásta Fjeldsted, varaformaður, og Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri, taka einnig þátt í dagskrá þingsins. Fundarstjóri verður Ólöf Skaftadóttir.
Miðasala er í fullum gangi á tix.is. Uppselt hefur verið á þingið síðustu ár og því hvetjum við þig til að tryggja þér miða fyrr en síðar.