Viðskiptaráð Íslands

Þessi koma fram á Viðskiptaþingi 2025

Johan Norberg, Ásdís Kristjánsdóttir, Róbert Wessman, Kristrún Frostadóttir og Andri Þór Guðmundsson eru á meðal fyrirlesara á Viðskiptaþingi 2025 sem fer fram 13. febrúar í Borgarleikhúsinu. Viðskiptaþing er einn stærsti viðburður ársins í íslensku viðskiptalífi.

Yfirskrift þingsins í ár er „Forskot til framtíðar.“ Þar verður sjónum beint að því hvernig Ísland getur byggt á þeim framförum sem Ísland hefur skapað sér þrátt fyrir áföll síðastliðinna ára. Horft verður til framtíðar og teiknuð upp metnaðarfull framtíðarsýn um hvernig Ísland geti skapað sér ný forskot og undirbyggt þannig stórfellda lífskjarasókn á komandi árum.

Við kynnum til leiks fyrirlesara þingsins sem koma af sviðum fræðimennsku, opinbera geirans og einkageirans. Þeir munu í erindum sínum meðal annars fjalla um efnahagslegt frelsi, hagkvæmni í opinberum rekstri og verðmætasköpun.

Johan Norberg er sænskur rithöfundur og fræðimaður (e. senior fellow) hjá Cato Institute. Johan er þekktur fyrir skrif sín um framfarir og efnahagslegt frelsi og hefur verið áhrifamikill í umræðu um efnahagsmál á heimsvísu undanfarið. Nú síðast stýrði hann ráðstefnu í Buenos Aires með Javier Milei og Elon Musk um efnahagsstefnu Argentínu og Bandaríkjanna.

Johan er höfundur 7 bóka sem hafa verið þýddar á 30 tungumál. Ein þekktast bókin hans ber heitið Framfarir (2016), en þar fjallar hann um þær hröðu framfarir sem jarðarbúar hafa upplifað undanfarna áratugi. Bókin hefur meðal annars verið þýdd á íslensku og er fáanleg í öllum helstu bókabúðum.

Ásdís Kristjánsdóttir tók við embætti bæjarstjóra Kópavogs í júní 2022 eftir að hafa starfað í einkageiranum í nær 20 ár. Hún var áður aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og forstöðumaður efnahagssviðs samtakanna. Þar áður var hún forstöðumaður greiningardeildar Arion banka og sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu.

Róbert Wessman er stofnandi, forstjóri og stjórnarformaður Alvotech auk þess að gegna stjórnarformennsku í Aztiq, Alvogen og Lotus Pharma. Frá stofnun Alvotech árið 2013 hefur félagið vaxið hratt og er í dag eitt verðmætasta fyrirtækið í íslensku kauphöllinni, með um 1.000 starfsmenn, þar af yfir 800 á Íslandi. Róbert er viðskiptafræðingur að mennt og útskrifaðist frá Háskóla Íslands árið 1993.

Kristrún Frostadóttir er yngsti forsætisráðherra í sögu Íslands og tók við því embætti þann 21. desember síðastliðinn. Kristrún hefur verið formaður Samfylkingarinnar frá því í október 2022, sem var stærsti stjórnmálaflokkurinn í síðustu Alþingiskosningum.

Kristrún er með MA í hagfræði frá Boston University og MSc í alþjóðafræðum frá Yale. Hún hefur starfað hjá Morgan Stanley auk þess að hafa verið hagfræðingur hjá Viðskiptaráði og Kviku banka. Hefð er fyrir því að forsætisráðherra flytji ávarp á Viðskiptaþingi.

Andri Þór Guðmundsson er formaður Viðskiptaráðs og forstjóri Ölgerðarinnar. Undir hans stjórn frá árinu 2008 hefur fyrirtækið vaxið ört og er í dag stærsti drykkjarvöruframleiðandi landsins. Andri tók við formennsku í Viðskiptaráði árið 2024 og sat áður í stjórn ráðsins frá 2014 til 2022.

Þátttakendur í pallborði og nánari dagskrá verður kynnt þegar nær dregur.

Miðasala er hafin á tix.is

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024