Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs Íslands, hélt erindi um opinberan rekstur á Keflavíkurflugvelli á fundi Sjálfstæðisfélagsins í Reykjanesbæ í gærkvöldi. Í erindi sínu vitnaði Hreggviður í stjórnarformann ISAVIA, Ingimund Sigurpálsson, sem ritaði í nýjustu ársskýrslu ISAVIA að félagið þurfi að ráðast í miklar og kostnaðarsamar framkvæmdir á komandi árum til þess að mæta auknum fjölda ferðamanna. Á sama tíma séu uppi væntingar um að félagið greiði háar arðgreiðslur. Eigi hvort tveggja að fara saman þurfi fleiri aðila til þess að standa undir fyrirhuguðum framkvæmdum.
Hreggviður minntist einnig á umsvifin á smásölumarkaði í gegnum rekstur Fríhafnarinnar og sagði tilvist hennar vera helstu tímaskekkjuna í rekstri ISAVIA. Fríhöfnin þurfi ekki að standa skil á virðisaukaskatti eða tollum og því sé samkeppnisstaðan skökk gagnvart öðrum.
Loks greindi Hreggviður frá tillögum Viðskiptaráðs: opna ætti fyrir aðkomu einkaaðila að fjármögnun framkvæmda á Keflavíkurflugvelli og leggja niður Fríhöfnina ehf.
Skoðun Viðskiptaráðs um málefni Fríhafnarinnar
Mynd er fengin úr frétt á vef Mbl.is, http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/10/01/rikid_a_ekki_ad_selja_naerbuxur/