Viðskiptaráð Íslands fagnar nýju samkeppnismati OECD og hvetur til þess að unnið verði að því að hrinda tillögunum í framkvæmd.
Viðskiptaráð Íslands fagnar nýju samkeppnismati OECD á íslenskri ferðaþjónustu og byggingariðnaði, sem framkvæmt var að frumkvæði stjórnvalda. Tilgangur samkeppnismatsins var að greina hvort að í regluverki atvinnulífsins fælust samkeppnishindranir eða óþörf reglubyrði sem ryðja mætti úr vegi. Nú hefur niðurstaða matsins litið dagsins ljós og sýnir hún 676 mögulegar samkeppnishindranir og 438 tillögur OECD um breytingar á gildandi lögum og reglugerðum er snúa að þessum tveimur ofangreindu geirum.
Staða Íslands er að mörgu leyti slæm þegar horft er til umfangs regluverks og áhrifa þess á athafnir einstaklinga og fyrirtækja hér á landi. Mikilvægt er að stíga varlega til jarðar í reglusetningu þannig að ávinningur af nauðsynlegu regluverki sé meiri en kostnaðurinn. Í nýlegri skýrslu Viðskiptaráðs, Hið opinbera: Meira fyrir minna, er meðal annars komið inn á þetta mikilvægi skilvirks regluverks til að auka framleiðni. Of íþyngjandi reglur leiða til mikils kostnaðar fyrirtækja og einstaklinga sem einkum hamlar samkeppni og skapar aðgangshindranir á markaði með hærri kostnaði en ella. Í mati OECD kemur glögglega í ljós að slíkar hindranir eru til staðar langt úr hófi fram í íslensku regluverki og mikilvægt er að þeim verði eytt.
Tillögur OECD eru heilt yfir fallnar til þess að auka sveigjanleika í rekstrarumhverfinu, lækka verð til neytenda, skapa fleiri störf og auka framleiðni í hagkerfinu. Meðal annars er lagt til að skipulagsferlar verði straumlínulagaðir og kerfi leyfisveitinga verði einfölduð. Þá er lagt til að breytingar verði gerðar á reglum um lögverndun starfsgreina, sem nær til mun fleiri atvinnugreina en í öðrum Evrópuríkjum og er mun umfangsmeiri en í samanburðarríkjum. Þessu þarf að breyta til að auka samkeppni og nýsköpun og tekur Viðskiptaráð því undir tillögur OECD. Einnig tekur Viðskiptaráð undir þær tillögur er varða breytingar á rekstrar- og eignarhaldi Keflavíkurflugvallar. Hann er í dag í eigu íslenska ríkisins og rekinn af opinbera hlutafélaginu ISAVIA. Víða í Evrópu er flugvallarrekstur í blönduðu rekstrarformi – og telur Viðskiptaráð til bóta að slíkt fyrirkomulag yrði skoðað hérlendis.
Viðskiptaráð hvetur til þess að unnið verði að því að hrinda tillögunum í framkvæmd, en OECD metur að það „geti skilað auknum efnahagslegum umsvifum sem nemi um 1% af vergri landsframleiðslu Íslands eða yfir 30 milljörðum króna árlega”. Það samsvarar meðallaunum um 3.600 Íslendinga*. Til mikils er að vinna.
*Miðað við regluleg heildarlaun fullvinnandi árið 2019: 695.000 krónur á mánuði.