Davíð fæddist 4. janúar 1930 og lést 8. apríl 2022.
Davíð Scheving Thorsteinsson var alla tíð í orði og verki boðberi frelsis og íslenskt samfélag á honum margt að þakka. Hann var brautryðjandi í atvinnustarfsemi og snjall markaðsmaður sem kynnti margs konar nýjungar fyrir landsmönnum, en ekki síst var hann óþreytandi í baráttu sinni fyrir viðskiptafrelsi og betra rekstrarumhverfi.
Davíð var gerður að heiðursfélaga Viðskiptaráðs Íslands árið 2012, eftir áratuga starf í og fyrir íslenskt viðskiptalíf. Hann var einn af þessum mönnum sem virðast hafa fleiri tíma í sólarhringnum en annað fólk og þótti gott að leita til hans. Sumarið 2003 hóf Viðskiptaráð Íslands vinnu við leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja og tók Davíð að sér að leiða það verkefni. Um haustið fékk ráðið Kauphöll Íslands og Samtök atvinnulífsins að borðinu með það fyrir augum að skapa breiða samstöðu meðal fyrirtækja og komu leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja út í mars 2004. Sýn Davíðs og þeirra sem stóðu að þessari fyrstu útgáfu var skýr, eins og kemur fram í inngangsorðum leiðbeininganna. Viðskiptalífið ætti sjálft að taka frumkvæði að því að setja sér reglur og auka þannig innra eftirlit og aðhald innan fyrirtækja. Á árunum fram að útgáfunni hafði frelsi í viðskiptum farið vaxandi og – eins og sagði einnig í inngangsorðunum – fylgir frelsi ábyrgð. Höfundum leiðbeininganna var umhugað um að fyrirtækin öxluðu þá ábyrgð og var í þessari fyrstu útgáfu réttilega bent á að með því að auka traust hluthafa, starfsmanna, viðskiptavina og almennings mætti skapa fjölmörg tækifæri til lengri tíma litið. Þannig væri gagnkvæmt traust almennings og viðskiptalífs lykill að bættri samkeppnisstöðu Íslands og betri lífskjörum. Þótt leiðbeiningarnar hafi síðan verið endurskoðaðar og endurútgefnar með reglubundnum hætti var þarna lagður ákaflega mikilvægur grunnur að starfsreglum um betri stjórnarhætti.
Við hjá Viðskiptaráði Íslands minnumst Davíðs Scheving Thorsteinssonar með virðingu og þakklæti og votta ég fjölskyldu hans samúð fyrir hönd ráðsins.
Ari Fenger,
formaður Viðskiptaráðs Íslands.
Minningargrein þessi birtist í Morgunblaðinu, 25. apríl 2022.