Viðskiptaráð Íslands

Kjarabætur á kostnað menntunarstigs?

Greint hefur verið frá hugmyndum stjórnvalda um breytingar á skattkerfinu til að liðka fyrir lausn kjaradeilna. Í þeim felst meðal annars veruleg hækkun persónuafsláttar og fækkun skattþrepa úr þremur í tvö.

Viðskiptaráð fagnar því að stjórnvöld líti til skattalækkana til að leysa núverandi kjaradeilur. Fækkun skattþrepa væri framfaraskref sem myndi draga úr neikvæðum áhrifum skattkerfisins á vinnuframlag og hvata til menntunar. Það er þó mat ráðsins að mikil hækkun persónuafsláttar sé ekki heppileg leið til lausnar á núverandi deilum. Slík breyting myndi fjölga þeim sem greiða enga skatta og færa tekjuskattkerfið lengra í átt til aukinnar stigvaxandi skattbyrðar.

Á undanförnum árum hefur stigvaxandi skattbyrði verið aukin umtalsvert með viðbótarskattlagningu á milli- og hátekjur og mikilli hækkun persónuafsláttar. Í dag greiða 18% Íslendinga enga skatta af tekjum sínum. Á sama tíma greiða þeir 20% tekjuhæstu um 65% af öllum tekjusköttum sem innheimtir eru. [1] Jöfnunaráhrif tekjuskatta á Íslandi hafa því aldrei verið meiri.

Fyrirliggjandi hugmyndir auka þessi áhrif enn frekar (sjá mynd 1). Skattbyrði einstaklinga með 250 þús. kr. í mánaðarlaun myndi falla niður og skattbyrði einstaklinga með 300 þús. kr. lækka um 50%. Á sama tíma myndi skattbyrði einstaklinga með 400 þús. lækka um 21% og 600 þús. kr. í mánaðarlaun lækka um 12%. Fyrirliggjandi hugmyndir myndu því deila skattbyrðinni með enn ójafnari hætti en nú þegar er gert.

Hvati til menntunar lítill hérlendis

Vísbendingar eru um að þegar hafi verið gengið of langt þegar kemur að tekjujöfnun skattkerfisins. Skattkerfi sem eru of stigvaxandi draga úr hvata einstaklinga til að fjárfesta í aukinni menntun, sérfræðiþekkingu og annarri reynslu sem er verðmæt fyrir samfélagið. Nú er svo komið að einstaklingur getur einungis vænst 16% launahækkunar fyrir að ljúka bæði framhalds- og háskólaprófi, á meðan sambærileg launahækkun er 25-40% á öðrum Norðurlöndum (mynd 2). Gangi framangreindar breytingar í gegn verður þessi hækkun enn minni.

Munurinn er orðinn svo lítill að Bandalag háskólamanna (BHM), sem telur um 11 þúsund félagsmenn, gerir þá kröfu að menntun verði metin til launa. Í því felst að að ráðstöfunartekjur háskólamenntaðra hækki umfram aðra. Erfitt er að sjá hvernig hugmyndir sem ganga í öfuga átt geta liðkað fyrir kjaradeilum þegar kemur að svo fjölmennum hópi einstaklinga.

Hagfelld skilyrði verðmætasköpunar bæta lífskjör

Við lausn núverandi kjaradeilna er brýnt að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðar missi ekki sjónar á því að hagfelld skilyrði fyrir aukinni verðmætasköpun eru best til þess fallin að bæta kjör launþega. Hluti af slíkum skilyrðum er að einstaklingar hafi hvata til að auka við þekkingu sína og skapa þannig aukin samfélagsleg verðmæti. Almenn lækkun tekjuskattshlutfalla og/eða fækkun skattþrepa væri heppilegri leið til að að ná slíku markmiði. Þannig mætti auka kaupmátt allra tekjuhópa og styrkja á sama tíma grundvöll bættra lífskjara til lengri tíma litið.

[1] Heimild: Tíund - tímarit Ríkisskattstjóra (apríl 2015)

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024