Viðskiptaráð Íslands

Af hverju er dýrt að byggja?

Flókið regluverk eykur bæði tíma og kostnað sem fer í byggingu húsnæðis hér á landi. Þetta er niðurstaða kortlagningar byggingarferlisins sem unnin var af Samtökum iðnaðarins og Viðskiptaráði Íslands. Flækjustigið leiðir á endanum til hærra húsnæðisverðs.

Kortlagninguna má skoða á slóðinni vi.is/byggingarferli

Byggingarferlinu má skipta í tólf skref. Í hverju þeirra mætir húsbyggjandi vandamálum þegar kemur að íþyngjandi regluverki eða óskilvirkum vinnubrögðum hjá hinu opinbera. Oftar en ekki eru þessu vandamál séríslensk.

Nokkur dæmi um kvaðir í núverandi regluverki:

  • Byggingarfulltrúa ber að skoða allt að 904 atriði þegar hönnunargögn eru afgreidd. Skortur á samræmdum vinnubrögðum leiðir til þess að stór hluti fulltrúa fer yfir öll atriðin þótt um smærri framkvæmdir sé að ræða og slíkt sé óþarft.
  • Húsbyggjandi getur þurft að leita til 51 ólíkra byggingarfulltrúa eftir því hvar eignin er staðsett. Fulltrúarnir geta gefið misvísandi upplýsingar og sinna leiðbeiningarskyldu sinni oft með ófullnægjandi hætti.
  • 21 sjálfstæð áfangaúttekt auk öryggis- og lokaúttektar þurfa að fara fram áður en mannvirki er tekið í notkun.

Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð kalla eftir einfaldara regluverki og breyttri stofnanaumgjörð. Meðal annars ætti að veita Mannvirkjastofnun skýrt íhlutunarvald gagnvart byggingarfulltrúaembættum, samræma reglur um lóðaúthlutanir á landsvísu, fækka atriðum sem farið er yfir við afgreiðslu byggingarleyfis, heimila húsbyggjanda að sinna jafnframt hlutverki byggingarstjóra í sérbýli, þrepaskipta kvöðum um skil hönnunargagna, draga úr umframkröfum í byggingareglugerð, auka notagildi áfrýjunarréttar, einfalda gjaldheimtu sveitarfélaga og fækka sjálfstæðum úttektum.

Framangreindar breytingar myndu draga úr sóun á tíma og fjármunum vegna íþyngjandi regluverks og óskilvirks stofnanaumhverfis. Þannig myndu þær lækka byggingarkostnað án þess að slá í nokkru af kröfum um öryggi og gæði við byggingu húsnæðis.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024