Viðurkenning fyrir samfélagsskýrslu ársins var veitt við hátíðlega athöfn í Húsi atvinnulífsins í gær. Tvö fyrirtæki voru talin hafa kynnt eftirtektarverðustu skýrslurnar.
Viðurkenning fyrir samfélagsskýrslu ársins var veitt í fjórða sinn í gær við hátíðlega athöfn, en að þessu sinni hlutu viðurkenninguna tvö fyrirtæki, BYKO og Landsvirkjun. Skýrslurnar tvær voru valdar úr hópi 24 tilnefndra skýrslna, en þær má allar lesa á vef Festu.
Að viðurkenningunni standa Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð, Stjórnvísi og Viðskiptaráð Íslands, en í dómnefnd þetta árið sátu Tómas N. Möller, yfirlögfræðingur Lífeyrissjóðs Verslunarmanna, Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisstjóri Landspítala og Kjartan Sigurðsson, lektor við Háskólann í Twente í Hollandi.
Með því að velja tvær skýrslur sem eftirtektarverðustu samfélagsskýrslur ársins taldi dómnefnd tækifæri gefast til að varpa breiðara ljósi á það mikilvæga verkefni sem gerð samfélags- og sjálfbærniskýrslna er orðin. Annars vegar væri um að ræða fyrirtæki í smásölu sem væri að stíga sín fyrstu skref í við gerð samfélagsskýrslu, en skýrsla BYKO var önnur skýrsla fyrirtækisins.
„Það hefur mikið gildi fyrir okkar hagaðila að BYKO birti upplýsingar um sjálfbærnivegferð fyrirtækisins. Það hefur hvetjandi áhrif bæði innan fyrirtækisins sem og utan. Með því að segja frá sem er verið að gera, taka þátt í sjálfbærniverkefnum, fræða starfsfólk og viðskiptavini, bjóða upp á vistvæna valkosti í byggingarefnum, þá hefur það hvetjandi áhrif á alla. Við erum að taka ábyrgð í virðiskeðjunni, með tölum, orðum og myndum. Við erum að sýna jákvætt fordæmi og viljum vera fyrirmynd og hvatning fyrir aðra,“ sagði Berglind Ósk Ólafsdóttir, sérfræðingur í sjálfbærni hjá BYKO.
Landsvirkjun á sér langa sögu í uppbyggingu þekkingar og stefnumótunar tengdri samfélagsábyrð og í máli formanns dómnefndar kom fram að fyrirtækið grundvallaði starfsemi sína á nýtingu náttúruauðlinda sem hefði víðtæk bein og óbein áhrif innanlands. „Við hjá Landsvirkjun höfum allt frá stofnun fyrirtækisins horft til þess að hafa jákvæð áhrif á samfélag og umhverfi og leitum sífellt nýrra leiða til að auka sjálfbærni í starfsemi okkar,“ sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. „Það er þess vegna einkar ánægjulegt að hljóta viðurkenningu sem þessa, og staðfesting á því að starf okkar er að skila sér, bæði sem okkar framlag til sjálfbærari veraldar og einnig – vonandi – sem innblástur fyrir önnur fyrirtæki sem vilja gera vel í þessum mikilvæga málaflokki.“
Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, var fundarstjóri og Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, flutti erindi undir yfirskriftinni „Af hverju erum við að þessu?“ Eftir að fulltrúar fyrirtækjanna höfðu tekið við viðurkenningum sínum stjórnaði Íris Ösp Björnsdóttir, forstöðumaður viðskiptaþróunar og rekstrar hjá Nasdaq Iceland pallborðsumræðum. Í pallborði voru þeir Tómas og Kjartan úr dómnefnd auk Kristínar Lindu Árnadóttur, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar og Sigurði Pálssyni, forstjóra BYKO.
Upptöku frá viðburðinum er að finna hér og fleiri myndir frá viðburðinum er að finna hér.