Árlegur peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í gær og var streymt frá Vox Club á Hilton Nordica. Yfirskrift fundarins var hvort og hvenær Seðlabankinn ætti að grípa inn í markaði með beinum hætti en jafnframt var fjallað um peningastefnuna og hagstjórnina um þessar mundir. Af augljósum ástæðum voru engir gestir í salnum en þrátt fyrir það var áhugi á fundinum gríðarlegur og yfir 300 gestir skráðu sig og horfðu á streymið.
Erindi fluttu Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri. Einnig voru spiluð innslög frá aðildarfélögum Viðskiptaráðs Íslands, hægt er að sjá þau hér að neðan. Að þeim loknum leiddi Konráð S. Guðjónsson aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs umræður með þeim Ernu Björg Sverrisdóttur, aðalhagfræðingi Arion banka, og Gunnari Jakobssyni, varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika.
Ari Fenger hrósaði Seðlabankanum fyrir kröftug viðbrögð við faraldrinum á fyrri hluta ársins en ítrekaði mikilvægi þess að Seðlabankinn beitti sér með gagnsæjum og fyrirsjáanlegum hætti til að stuðla að trúverðugleika. Þá hvatti hann til þess að Seðlabankinn leiti leiða til að auka hvata til fjárfestinga, sem væru grundvallarforsenda þess að komist yrði út úr efnahagshremmingunum. Þá notaði Ari tækifærið og minnti á mikilvægi þess að Ísland stundi öflug viðskipti við önnur ríki: „Fyrir þjóð eins og okkar skiptir öllu að ryðja úr vegi hindrunum í innflutnings- og útflutningsmálum, en það er ákveðin freisting fyrir suma pólitíkusa í ástandi sem þessu, til að taka upp einangrunarstefnu og hafna sjónarmiðum um opið og frjálst hagkerfi og öflug alþjóðaviðskipti. Ég leyfi mér að treysta því að við Íslendingar föllum ekki í þá gryfju.“
Í erindi sínu fjallaði seðlabankastjóri um aðgerðir Seðlabankans vegna heimsfaraldursins og efnahagsþróun síðustu mánaða. Þá útskýrði hann nánar þær aðgerðir sem Seðlabankinn hefur beitt og hyggst mögulega beita í framtíðinni. Sem dæmi virðist hafa gætt misskilnings milli bankans og markaðsaðila um inngrip á skuldabréfamarkaði og því var áhugavert að heyra seðlabankastjóra útskýra betur þau áform. Í máli hans kom fram að „næsta ár verður ár peningaprentunar“. Spurður hvernig örva mætti fjárfestingu nú, þegar þörf þess hefur sjaldan verið meiri, á þessum erfiðu tímum sagði hann einn tilgang vaxtalækkana vera að ýta fjárfestum yfir í fjárfestingu í hlutafé fremur en í skuldum. Það væri það sem til þyrfti til að auka framleiðslugetuna.
Í umræðum í lok fundarins var meðal annars talað um gjaldeyrisinngrip Seðlabankans. Gunnar Jakobsson sagði að skoða þyrfti með hvaða hætti væri hægt að leyfa frekari afleiðuviðskipti með gjaldeyri í þeim tilgangi að bæta virkni markaðarins. Einnig barst talið að því hvort aðrir aðilar gætu komið með virkari hætti inn í aukna fjárfestingu í innviðum og atvinnulífinu. Erna Björg Sverrisdóttir sagði að í því sambandi hefðu lífeyrissjóðir verið „passífir" og velti því upp hvort lífeyriskerfið væri mögulega of stórt.