Samfélagsskýrsla Krónunnar stóð upp úr í hópi nítján tilnefndra skýrslna
Viðurkenning fyrir samfélagsskýrslu ársins var veitt í þriðja sinn í gær við hátíðlega athöfn, en samfélagsskýrsla Krónunnar var talin eftirtektarverðust 19 skýrslna sem tilnefndar voru.
Að viðurkenningunni standa Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð, Stjórnvísi og Viðskiptaráð Íslands, en í dómnefnd sátu Tómas N. Möller, yfirlögfræðingur Lífeyrissjóðs Verslunarmanna og formaður Festu, Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisstjóri Landspítala og Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkefnastjóri hjá Landsvirkjun, en hún var formaður nefndarinnar.
Skýrsla Krónunnar er fyrsta samfélagsskýrsla fyrirtækisins, en hún var unnin með hliðsjón af UFS leiðbeiningum Nasdaq og markmið fyrirtækisins hafa verið samþætt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þá hefur Krónan stutt við sprotafyrirtæki í matvöruvinnslu. Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar, tók við viðurkenningunni fyrir hönd fyrirtækisins, en Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdastjóri Stjórnvísi og Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu afhentu viðurkenninguna.
Í rökstuðningi dómnefndar kom meðal annars fram að Krónan liti á sig sem mikilvægan þátttakanda í samfélaginu sem gerði sér grein fyrir því að í krafti stærðar sinnar gæti haft áhrif til góðs. Í því samhengi hefðu umhverfisvernd, lýðheilsa og upplýst val verið skilgreind sem mikilvægustu málefnin. Auk kerfisbundinnar nálgunar á framsetningu um markmið, ásetning og árangur fyrirtækisins í þáttum sem lytu að samfélagslegri ábyrgð væru í skýrslunni nefnd ýmis dæmi um framgöngu í verki.
Í upphafi athafnarinnar flutti Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq, erindi um tilgang samfélagsskýrslna og hvernig þær horfa við fjárfestum og stjórnvöldum.
Myndir: hag