Þrátt fyrir að gjaldeyrishöftin trufli daglegt líf landsmanna ekki mikið þá eru áhrif haftanna á framþróun atvinnulífs og viðgang hagkerfisins veruleg og almennt neikvæð. Í skýrslu sem Viðskiptaráð gaf út í desember í fyrra var fjallað um ýmsar skaðlegar birtingamyndir haftanna. Ein þeirra snýr að lífeyrissjóðum landsins, sem reglulega eru í kastljósi fjölmiðla m.a. vegna framkvæmda á vegum hins opinbera sem gjarnan er gert ráð fyrir að þeir fjármagni. Slíkar fjárfestingar geta hinsvegar verið varasamar fyrir lífeyrissjóðina, en höftin gera illt verra með því að takmarka verulega aðra fjárfestingakosti.
Veruleg umsvif lífeyrissjóða
Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða voru 2.217 ma.kr. í lok mars samkvæmt hagtölum Seðlabankans eða um þriðjungi meiri en verg landsframleiðsla síðasta árs. Eignirnar eru því orðnar um 24% meiri að nafnvirði en þær voru í hámarki eignaverðs fyrir fjármálakreppuna 2008. Sé leiðrétt fyrir verðlagsþróun er hrein eign lífeyrissjóðanna nánast á pari við það sem hún var miðað sama tímabil. Þessar eignir hafa safnast upp vegna áherslu íslenska lífeyrissjóðakerfisins á sjóðasöfnun, sem hefur verið talið einn af kostum íslenska kerfisins.
Til að setja þetta í samhengi þá námu eignir sjóðanna í lok mars 86 mö.kr. meira en heildarverðmæti útistandandi markaðsskuldabréfa og nærri 90% allra skuldabréfa, víxla og hlutabréfa sem skráð eru á íslenskum verðbréfamarkaði. Alls áttu lífeyrissjóðirnir í lok febrúar 54% allra skráðra skuldabréfa og víxla og 43% skráðra hlutabréfa.
Stærð lífeyrissjóðanna og áframhaldandi vöxtur leiðir til þess að þeir geta ekki náð fram ásættanlegri áhættudreifingu með því að fjárfesta aðeins innanlands. Þeir verða fljótt svo stórir eigendur í einstökum eignaflokkum og jafnvel einstökum eignum að þeir geta hvorki selt né keypt án þess að hafa veruleg áhrif á eignaverð.
Fjárfestingaþörf uppspretta eignabólu
Frá upptöku gjaldeyrishafta hafa lífeyrissjóðirnir hins vegar ekki átt þess kost að fjárfesta erlendis. Þar með er dregið verulega úr möguleikum lífeyrisjóðanna til að dreifa áhættu og stuðla að sem bestri og öruggastri ávöxtun lífeyris landsmanna. Á meðan streyma greiðslur inn í sjóðina og þeim er ráðstafað til kaupa á eignum innanlands innan takmarkaðra heimilda sjóðanna. Sífellt fleiri krónur eltast því við þær eignir sem til eru og þær hækka í verði. Það kemur síðan fram sem viðbótar vöxtur sjóðanna vegna verðhækkunar eigna en sú hækkun mun ganga til baka þegar greiða þarf úr sjóðunum og selja eignirnar á ný.
Ekki er nóg með að lífeyrissjóðum sé óheimilt að dreifa áhættu með því að fjárfesta erlendis heldur hafa þeir á síðustu árum selt hluta af erlendum eignum sínum og keypt íslenskar eignir í staðinn, m.a. með þátttöku í viðleitni Seðlabankans við að losa um krónueignir erlendra aðila. Fleiri egg eru því sett í sömu körfuna, sem ekki telst góð latína þegar lágmarka á áhættu.
Höftin veita ríkissjóði fjárhagslegt skjól
Bann við fjárfestingu erlendis ásamt heimflutningi fjármagns sjóðanna hefur þær afleiðingar að áhætta lífeyrissjóðanna eykst. Það þýðir að líklega verða eignir þeirra minna virði en ella (þ.e. en ef þeir fá að fjárfesta erlendis til lengri tíma) þegar kemur að útgreiðslum og lífskjör landsmanna því lakari en ella til frambúðar.
Að auki hefur vaxandi fjárfesting lífeyrissjóðanna innanlands, einkum í ríkistryggðum skuldabréfum, þær afleiðingar að vextir á ríkisskuldabréfum verða lægri en ella (og ávöxtun lífeyrissjóðanna því lakari) og þörf hins opinbera til þess að draga úr útgjöldum og ná jafnvægi í fjármálum verður ekki eins aðkallandi en ef meira jafnvægi væri á skuldabréfamarkaði.
Einsleit fjárfestingartækifæri auka áhættu
Enn fremur leiðir aukin fjárfesting lífeyrissjóðanna innanlands samfara lækkandi vöxtum ríkisbréfa til þess að sjóðirnir leita frekar í áhættusamari fjárfestingar. Veruleg hætta hefur meira að segja skapast á því að lífeyrissjóðir freistist eða að þeim sé ýtt til þess að fjármagna óarðsamar fjárfestingar hins opinbera, svo sem í umferðarmannvirkjum á fáförnum leiðum eða öðrum staðbundnum gæluverkefnum. Fjármögnun slíkra framkvæmda með sérstökum skuldabréfaútgáfum, sem lífeyrissjóðir kaupa, leiðir til þess að í reynd eru lífeyrissjóðir að nota iðgjöld frá launþegum til að fjármagna ríkisframkvæmdir líkt og um viðbótar skattlangingu sé að ræða.
Þegar kemur að endurgreiðslum þessara skuldabréfa verða greiðslurnar fjármagnaðar með skatttekjum ríkisins. Lífeyrissjóðakerfið hefur þá í raun og veru flust frá því að vera fyrirfram fjármagnað með sjóðasöfnun í það að vera gengumstreymiskerfi sem er dulbúið sem sjóðasöfnun. Þannig verður áhætta hins opinbera einnig aukin og þau vandamál sem eru samfara gegnumstreymiskerfum sem nú sliga margar vestrænar þjóðir innleidd hér. Við þessari þróun þarf að sporna af krafti og verður það best gert með því að aflétta gjaldeyrisshöftum sem fyrst og styðja við sjóðasöfnun lífeyriskerfisins erlendis.
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs