Viðskiptaráð Íslands

Dómskerfið: Annar möguleiki í stöðunni

Haraldur I. Birgisson, lögfræðingur Viðskiptaráðs, ritaði eftirfarandi grein um gerðardóma í Fréttablaðið síðastliðinn laugardag:

Burðir dómstóla til að sinna eftirköstum efnahagshrunsins hafa verið í kastljósinu að undanförnu. Aukinn málafjöldi á nær öllum sviðum hefur valdið töluverðu álagi á dómskerfið og allar líkur á að framhald verði á þeirri þróun, líkt og kom fram í nýlegri ályktun Lögmannafélags Íslands. Þar hefur sérstaklega verið bent á stórfellda aukningu í munnlega fluttum einkamálum, ágreiningsmál vegna gjaldþrota, sakamál og tilkomu greiðsluaðlögunarmála.

Aukið álag, aukinn kostnaður
Að mati margra er afar brýnt að brugðist verði hið fyrsta við þessari stöðu, m.a. með auknum fjárhagslegum stuðningi hins opinbera við dómstóla landsins. Með því mætti a.m.k. tímabundið fjölga dómurum, aðstoðarmönnum og öðru starfsliði dómstólanna og þar með tryggja frekar faglega, skjóta og réttláta málsmeðferð í öllum málum. Full ástæða er til að taka þessi tilmæli alvarlega enda er mikilvægi skilvirkra og faglegra dómstóla engum vafa undirorpið. Að þessu leyti eru skjót viðbrögð stjórnvalda skiljanleg, en dómsmálaráðherra kynnti nýverið ríflega aukafjárveitingu til þessa málaflokks.

Leið til að létta álagið
Að því sögðu má hins vegar velta því upp hvort styrkja megi dómskerfið með öðrum og hagkvæmari úrræðum sem miða að því að létta álagi af dómskerfinu. Ein leið í þeim efnum væri frekari nýting gerðardóma í þeim mikla málafjölda sem liggur fyrir dómstólum landsins, en þar bera málsaðilar allan kostnað af rekstri mála. Lítið er því til fyrirstöðu að nær öll munnlega flutt einkamál, sem eru iðulega ríflega þriðjungur allra mála héraðsdómstóla, fari um farveg gerðarmeðferðar. Þannig mætti skapa dómstólum umtalsvert ráðrúm til athafna og ná um leið stórum hluta þeirra markmiða sem auknar opinberar fjárveitingar þyrfti annars til.

Jafnvel þó aðeins tiltekinn hluti einkamála færi fyrir gerðardóma mætti ná fram ríflegri viðbótarskilvirkni í dómskerfinu. Hér vísast einna helst til einkamála sem geta verið umtalsverð í umfangi, en hvert og eitt slíkt mál getur skipt miklu fyrir skjóta úrlausn fjölda annarra mála fyrir dómstólum. Eru þetta fyrst og fremst einkamál innan íslensks atvinnulífs sem leitt hafa af hruni bankanna, líkt og uppgjör á gjaldmiðlaskiptasamningum, ýmis skuldaúrvinnslumál og önnur mál þar sem ljóst er að dómarar þyrftu að kalla til sérfróða meðdómendur. Mál af þessum toga, sem mörg hver hafa virkað sem flöskuháls í endurreisnarstarfinu, mætti leysa á tiltölulega skömmum tíma fyrir gerðardómi skipuðum af sérfræðingum í viðkomandi málaflokkum.

Þörf á virkari gerðardómum
Með frekari nýtingu gerðardóma í dómskerfinu má bæði standa vörð um útgjöld ríkissjóðs og faglega meðferð mála fyrir dómstólum í veigamiklum opinberum málum, um leið og leyst yrði úr stórum sem smáum einkamálum í skipulegum og alþjóðlega viðurkenndum farvegi gerðarmeðferðar. Í ljósi þess að núverandi efnahagsástand, með fjölda munnlegra fluttra einkamála í sögulegu hámarki, eykur enn á vanda dómskerfisins og þess að opinbert fjármagn er af skornum skammti er full þörf fyrir dómskerfið, ríkissjóð og skattgreiðendur að gerðardómar verði nýttir með virkari hætti en verið hefur á undanförnum árum.

Ótvíræðir kostir
Það eru ekki einvörðungu hagrænar ástæður að baki fýsileika gerðardóma, né heldur ástæður er varða eingöngu skilvirkni dómskerfisins. Þannig ættu málsaðilar í einkamálum af ýmsum toga almennt að sjá hag sinn í því að bera ágreining sinn undir gerðardóma vegna þeirra kosta sem þeir hafa umfram dómstóla. Þessir kostir eru einna helst nær algert forræði málsaðila á málsmeðferðinni, t.a.m. með skipan sérfróðra gerðardómara, hóflegur málskostnaður, skjót málsmeðferð og trúnaður um málalyktir. Þá er óátalið að með virkari nýtingu gerðardóma væri verið að færa úrlausnarfyrirkomulag ágreiningsmála hjá einkaaðilum nær því horfi sem tíðkast hefur víðast hvar erlendis, þar sem stór hluti einkamála fer fyrir gerðardóma án tilkostnaðar af hálfu hins opinbera.

Umgjörðin til staðar
Þó gerðardómar hafi ekki verið fyrirferðarmiklir á undanförnum árum þá er Ísland fjarri því að vera eyland í þessum efnum. Gerðardómar hafa verið starfræktir í áratugi hérlendis, en elstur þeirra er gerðardómur Viðskiptaráðs sem stofnaður var árið 1920. Auk þess hefur fjöldi lögmanna reynslu af slíkum málarekstri og ört stækkandi hluti þeirra hefur einnig sótt sér viðbótarnám á þessu sviði. Háskólar landsins hafa jafnframt sýnt gerðardómum aukinn áhuga á undanförnum árum, en ekki er langt síðan lið Háskólans í Reykjavík hafnaði í 5-8. sæti í alþjóðlegri gerðardómskeppni. Þá eru löggjöfin til staðar, þó hún þarfnist ákveðinnar uppfærslu og þá einkum til að sinna stórum alþjóðlegum málum í samræmi við það sem best gerist erlendis.

Á þessum grunni reynslu og metnaðar er um að gera fyrir dómskerfið, ríkissjóð og íslenskt atvinnulíf að byggja meir á, bæði nú og til framtíðar.

Haraldur I. Birgisson
Lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024

Ólympíuleikar í loftslagmálum

"Ísland er ekki lítið land. Ísland er stórasta land í heimi," sagði Dorrit …
21. ágúst 2024