Lítið hefur farið fyrir brúarlánunum sem stjórnvöld kynntu síðastliðið vor. Aðeins hefur verið veitt eitt lán og rúmlega 1% verið lánað út af þeim 80 milljörðum króna sem áætlaðir voru í úrræðið. Ekki er hægt að segja annað en að úrræðið sé agnarsmátt í öllu samhengi hlutanna.
Mögulega er staðan einfaldlega sú að fleiri fyrirtæki ná að koma sér yfir erfiðasta hjallann með öðrum leiðum. Engu að síður eru dæmi um fyrirtæki sem hefðu getað nýtt sér lánin en gátu það ekki, m.a. vegna þröngra skilyrða. Sú skýring er áhugaverð í ljósi þess að stuðningslán, sem eru ekki háð eins ströngum skilyrðum og bera meiri ríkisábyrgð, hafa verið greidd út í mun meira mæli.
Það er viðbúið að sumar aðgerðir stjórnvalda hafi ekki virkað sem skyldi þegar rennt var blint í sjóinn, en það er jafn eðlilegt að lagfæra þær aðgerðir um leið og agnúar blasa við. Klukkan tifar hratt þegar atvinnuleysi vex og fjárfesting fer dvínandi.
Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 16.september 2020.