Viðskiptaráð Íslands

Hvað á að gera við allar þessar háskólagráður?

Fjölgun háskólamenntaðra er stór áskorun en í raun forréttindapésa-lúxusvandamál. Eigi að síður blasir við að hvernig tekist verður á við hana mun hafa langvarandi áhrif á lífskjör þúsunda Íslendinga.

Mikil og ánægjuleg fjölgun háskólamenntaðra síðustu ár hefur væntanlega farið fram hjá fáum. Ein magnaðasta birtingarmynd þessarar fjölgunar sást þann 19. júní sl. þegar tæplega 1% þjóðarinnar náði þeim merka áfanga að útskrifast úr háskóla.

Þetta kann að virðast óvenju mikið en staðreyndin er sú að síðustu ár hafa um 4.500 manns árlega lokið háskólagráðu. Þar af voru um og yfir 2.500 sem ljúka fyrstu háskólagráðu. Til samanburðar luku um 400 manns stúdentsprófi árlega fyrir rúmum 50 árum. Staðan í dag er sú að um 38% fólks á vinnumarkaði er háskólamenntað samanborið við 11% árið 1990. Með þessu áframhaldi má ætla að fljótlega hafi um helmingur fólks á vinnumarkaði lokið háskólamenntun.

Fleiri gráður – minni tekjuaukning

Hver er svo árangur alls erfiðisins? Hann er margvíslegur og að mörgu leyti ómælanlegur. Martin Luther King sagði t.d. að hlutverk menntunar væri að kenna okkur að hugsa ákaft og gagnrýnið. Hvað sem því líður er menntun kostnaðarsöm, meðal annars fyrir aðra en þá sem mennta sig – skattgreiðendur, og auknir tekjumöguleikar sem fylgja menntun skipta líka máli. Þess vegna er áhyggjuefni að síðustu áratugi hefur fjárhagslegur ávinningur háskólamenntunar, sem endurspeglar virði hennar, farið minnkandi. Staðan er nokkurn veginn sú að á sama tíma og hlutfall háskólamenntaðra hefur þrefaldast hefur fjárhagslegi ávinningurinn minnkað um þriðjung. Varlega má álykta að hér séu kraftar aukins framboðs háskólamenntunar umfram eftirspurn að þrýsta niður verði (tekjum).

Með áframhaldandi fjölgun háskólamenntaðra má því, að öðru óbreyttu, reikna með að fjárhagslegur ávinningur muni áfram fara minnkandi. Hafa má raunverulegar áhyggjur af því að verulegt offramboð háskólamenntaðra myndist í ákveðnum greinum svo að sífellt fleiri verji miklum tíma og fjármunum í menntun sem svo nýtist lítið sem ekkert á vinnumarkaði. Þau sem útskrifuðust á dögunum þurfa þó alls ekki að örvænta, – hægt er að hafa áhrif á þessa þróun.

Menntun sem mætir þörfum

Nálgast þarf þessa áskorun frá tveimur hliðum. Í aðra röndina þarf menntunin, hvort sem hún er í háskóla eða annars staðar, að mæta þeim þörfum sem atvinnulíf og samfélag framtíðarinnar kallar á. Vísbendingar eru um að það gangi illa því hlutfall háskólamenntaðra sem starfar ekki í hefðbundnum störfum sem krefjast háskólamenntunar hefur hækkað úr 15% í 29% frá árinu 1990.

Lausnin er ekki augljós en þó þarf að vinna markvisst að henni, sem virðist ekki gert í nægjanlegu mæli. Til dæmis er hægt að gera tækni- og iðngreinum hærra undir höfði í skólakerfinu en skýr merki eru um mikla þörf á slíkri kunnáttu.

Sterkur alþjóðageiri

Einnig verður að líta á hina hlið jöfnunnar – hvaða störf verða til? Í skýrslu Viðskiptaþings, Hugsum stærra: Ísland í alþjóðasamkeppni, var enn og aftur bent á að stærstu tækifærin til þess séu í hugvitsdrifinni starfsemi í alþjóðageiranum. Til að sá geiri dafni þarf margt að ganga upp – rekstrarumhverfið þarf að vera samkeppnishæft og er þar af mörgu að taka enda er Ísland síst samkeppnishæfa ríki Norðurlandanna samkvæmt úttekt IMD.

Fjölgun háskólamenntaðra er stór áskorun en í raun forréttindapésa-lúxusvandamál. Eigi að síður blasir við að hvernig tekist verður á við hana mun hafa langvarandi áhrif á lífskjör þúsunda Íslendinga. Það er stórmál.

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 1. júlí 2021.

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024