Nú þegar þörfin er sem allra brýnust er vonandi að þingheimur átti sig á því mikilvæga hagsmunamáli að tryggja skilvirkara Samkeppniseftirlit.
Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á samkeppnislögum. Breytingarnar miða að því að einfalda framkvæmd og auka skilvirkni laganna. Viðskiptalífið hefur lengi kallað eftir úrbótum á þessum lögum og skal engan undra. Málsmeðferðartími Samkeppniseftirlitsins hefur verið gagnrýndur umtalsvert á síðustu árum, en staðreyndin er sú að algengt er að mál séu til meðferðar hjá samkeppnisyfirvöldum svo árum skipti. Þetta er meðal þess sem þarf nauðsynlega að breyta.
Skilvirkt samkeppniseftirlit skiptir höfuðmáli fyrir neytendur og öll fyrirtæki, bæði stór og smá. Þær breytingar sem nú liggja fyrir Alþingi miða einmitt að því að bæta úr þessu og ættu því allir að taka henni fagnandi, ekki síst stofnunin sjálf sem hefur þá tíma til að sinna þeim verkefnum sem henni eru falin með skilvirkari hætti. Það virðist þó ekki vera en því hefur ítrekað verið haldið fram að breytingarnar veiki eftirlitið og stefni jafnvel virki samkeppni í hættu.
Í grein í Kjarnanum þann 2. maí sl. lýsti Gylfi Magnússon yfir áhyggjum af fyrirhuguðum breytingum á samkeppnislögum og ber saman bandarískt samkeppniseftirlit við hið íslenska. Þar fjallar hann ítarlega um sitt sjónarhorn á bandarískt samkeppniseftirlit og gerir því skóna að frumvarpið sem liggur fyrir á Alþingi muni „taka það óheillaskref að færa okkur nær Bandaríkjum nútímans í samkeppniseftirliti á kostnað almennings“, og þannig fjær evrópsku samkeppniseftirliti, sem hann telur einkar öflugt, eða í öllu falli á betri braut en það bandaríska. Það vekur mikla undrun að Gylfi telji frumvarpið færa okkur fjær evrópsku samkeppniseftirliti þegar fyrirhugaðar breytingarnar ganga beinlínis út á það að færa reglur okkar nær því sem gengur og gerist í Evrópu með afnámi séríslenskra óþarflega íþyngjandi reglna.
Þegar málflutningi erindreka eftirlitsins er sleppt og staðreyndir málsins rýndar er kjarni málsins sá að frumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi felur ekki í sér grundvallarbreytingar á þeim ákvæðum sem snúa að samkeppnistálmunum, þeim grundvallarheimildum sem gera Samkeppniseftirlitinu kleift að hafa eftirlit og koma í veg fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu og ólögmætt samráð. Slíkt eftirlit á að sjálfsögðu að vera til staðar og breytingar á þessum meginákvæðum laganna fælu vissulega í sér þá veikingu sem sumir hafa vísað til.
Breytingarnar sem nú liggja fyrir snúa hins vegar að því að tryggja skilvirkari málsmeðferð og afnema íhlutunarheimild sem hvergi má finna á Norðurlöndunum svo eitthvað sé nefnt. Heimild þessi hefur aldrei verið notuð hérlendis og hafa óháðir sérfræðingar á sviði samkeppnisréttar dregið í efa að heimildin standist stjórnarskrá. Málið snýst öllu heldur um það að heimildir Samkeppniseftirlitsins hérlendis ganga lengra en víðast hvar í Evrópu og lengra en þörf krefur. Slíkt getur staðið í vegi fyrir eðlilegri hagræðingu og aukinni framleiðni sem á endanum bitnar á neytendum t.a.m. með hærra verði á vöru og þjónustu. Óþarflega íþyngjandi löggjöf er fyrirtækjum kostnaðarsöm. Hún hindrar þar af leiðandi svigrúm þeirra til m.a. að hækka laun og skapa ný störf. Nú þegar þörfin er sem allra brýnust er vonandi að þingheimur átti sig á því mikilvæga hagsmunamáli almennings að tryggja skilvirkara Samkeppniseftirlit.
Agla Eir Vilhjálmsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu, 6. maí 2020.