Viðskiptaráð Íslands

Kófið kæfir sprotana nema í taumana sé tekið

„Fyrirliggjandi aðgerðir stjórnvalda munu að óbreyttu ekki nýtast sprotafyrirtækjum og annarri nýsköpunarstarfsemi þar sem uppsett skilyrði eru ekki sniðin að slíkum fyrirtækjum og mögulegum aðstæðum þeirra,“ segir Ásta S. Fjeldsted framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Ísak Einar Rúnarsson, sérfræðingur á hagfræðisviði og Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands fjalla um nýsköpun og aðgerðir stjórnvalda á COVID-19 tímum

Fyrirliggjandi aðgerðir stjórnvalda munu að óbreyttu ekki nýtast sprotafyrirtækjum og annarri nýsköpunarstarfsemi þar sem uppsett skilyrði eru ekki sniðin að slíkum fyrirtækjum og mögulegum aðstæðum þeirra. Ekki var óeðlilegt að fyrsti efnahagspakki stjórnvalda hafi fyrst og fremst beinst að þroskuðum fyrirtækjum sem nú berjast í bökkum en stjórnvöld verða þó einnig að horfa til framtíðar, og frekar fyrr en síðar. Takmörkuð framlög í rannsókna- og tækniþróunarsjóði duga ekki til. Ríkisstjórnin þarf að leggja fram aðgerðir í næsta pakka sem styðja fjármögnun sprotafyrirtækja, því það sem hangir á spýtunni er störf og hagsæld framtíðarinnar.

Smit milli atvinnugreina

Kórónuveiran sem nú ríður yfir smitast ekki eingöngu á milli manna heldur má með sanni segja að áhrif veirunnar smitist frá einni atvinnugrein til annarrar. Ferðaþjónustufyrirtæki og fyrirtækjum sem er beinlínis bannað að starfa eru fyrstu viðkomustaðir sýkingarinnar, en svo breiðir smitið úr sér. Fyrirtæki sem selja aðföng til ferðaþjónustu, til dæmis fisk til veitingastaða, lenda í vandræðum því markaðurinn þurrkast að miklu leyti upp og þegar fólk er ekki á ferli kaupir það lítið annað en nauðsynjavörur og stafræna afþreyingu. Ótti, óvissa og höft bera smitið frá einni atvinnugrein til annarrar og nýsköpunar- og sprotastarfsemi er þar ekki undanskilin. Og jafnvel enn viðkvæmari, þar sem verkefni á nýsköpunarstigi hafa ekki enn sannað gildi sitt og því meiri hætta á að þau ýtist út á jaðarinn.

Fórnum ekki störfum og verðmætum framtíðarinnar

Vegna Covid-19 eru að minnsta kosti tvenns konar aðstæður sem geta komið upp og valdið því að lífvænlegir sprotar visna upp og deyja drottni sínum.

Í fyrsta lagi geta ný sprotafyrirtæki sem enn eru að hanna eða þróa hugmynd að nýrri vöru eða þjónustu lent í því að öll fjármögnun þurrkast upp þar sem fjárfestar halda að sér höndum vegna þróunar efnahagsmála í ljósi COVID faraldursins. Undir slíkum kringumstæðum getur hugmynd sem hefði orðið arðbær til lengri tíma og notið stuðnings fjárfesta runnið út í sandinn.

Sprotastarfsemi stendur eðli máls samkvæmt ekki undir eins mörgum störfum í dag og rótgróin fyrirtæki. Aftur á móti standa vonir til þess að sum þeirra geti skapað mörg störf og mikil verðmæti þegar fram líða stundir og orðið undirstaðan í hagsæld til framtíðar. Á undanförnum árum hefur okkur á þessu landi borið gæfa til þess að byggja upp og þroska nýsköpunarumhverfið en það yrði afskaplega sorglegt ef veirufaraldur myndi valda miklu bakslagi á þeirri vegferð og jafnvel varanlegum skaða. Því er mikilvægt að grípa til afdráttarlausra aðgerða til þess að verja nýsköpun og sprotastarfsemi á Íslandi.

Fjórar aðgerðir stjórnvalda til að styðja við sprotafyrirtæki

Slíkar aðgerðir gætu haft ýmsar birtingarmyndir, mestu skiptir að þær tryggi nauðsynlegt súrefni til þess að komast í gegnum núverandi ástand. Við hjá Viðskiptaráði höfum horft til fjögurra aðgerða sem við teljum að geti samanlagt brúað bilið. Í fyrsta lagi að rýmka fyrir á endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar og flýta endurgreiðslum fyrir árið 2019. Í öðru lagi að aðlaga núverandi úrræði þannig að fyrirtæki í sprotafasa geti haft aðgang að hlutabótum og skattfrestunum. Í þriðja lagi að auðvelda fjármögnun sprotafyrirtækja í sameiginlegu átaki vísissjóða og stjórnvalda og í fjórða lagi að gera það raunhæft fyrir fyrirtæki að greiða laun með valréttum og/eða hlutabréfum í samkomulagi við starfsfólk sitt.

Verði ráðist í slíkar aðgerðir teljum við að stjórnvöld geti komið í veg fyrir að nýsköpun verði eitt fórnarlamba kórónuveirunnar. Og það yrði svo sannarlega aðdáunarverður árangur.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Ísak Einar Rúnarsson, sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs

Viðtalsgreinin birtist fyrst á Vísi 18. apríl 2020

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024