Menntakerfið mótar einstaklinga á margvíslegan hátt; byggir upp hagnýta hæfileika, leggur grunn að samfélagslegum viðmiðum, eflir tilfinningaþroska og styður við félagslega tengslamyndun. Á sama tíma er menntun grunnstoð verðmætasköpunar í hagkerfinu og styrkir getu þess til að mæta alþjóðlegri samkeppni. Menntun er því eitt stærsta samfélags- og efnahagsmál dagsins í dag.
Með þetta í huga hafa Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands staðið fyrir nýrri útgáfu um stöðu og horfur í menntun á Íslandi. Útgáfan ber heitið „Stærsta efnahagsmálið - sóknarfæri í menntun“ og hana má nálgast á vefsíðum samtakanna. Þar kemur fram að menntakerfið hefur dalað á lykilmælikvörðum á undanförnum árum þrátt fyrir aukin fjárframlög. Á sama tíma eru umfangsmikil tækifæri til umbóta sem geta skilað miklum ávinningi til lengri tíma litið.
Sóknarfæri eru til staðar
Teikn eru á lofti um að menntakerfið virki ekki sem skyldi. Námsárangur nemenda við lok grunnskóla er lakur samkvæmt alþjóðlegum könnunum og við lok grunnskóla getur fimmti hver nemandi ekki lesið sér til gagns. Þá er brottfall á framhaldsskólastigi það mesta á Norðurlöndum. Menntakerfið er því að bregðast fjölmörgum nemendum sem finna ekki fjöl sína á fyrri skólastigum.
Orsökin verður ekki rakin til skorts á fjármagni. Útgjöld Íslendinga til menntamála sem hlutfall af landsframleiðslu eru þau hæstu á Norðurlöndum. Þá eru Íslendingar eina Norðurlandaþjóðin, og jafnframt eina þjóðin innan OECD, þar sem fjárframlög á hvern nemanda í grunnskólanámi eru hærri en á hvern nemenda í háskólanámi. Af þessu má ætla að hægt sé að bæta námsárangur í grunnskólum og draga úr brottfalli í framhaldsskólum án þess að til aukinna fjárframlaga komi.
Umgjörð kennslu ófullnægjandi
Þótt fjölmargir þættir skipti máli þegar kemur að námsárangri vegur kennslan líklega þyngst. Þannig ná nemendur sem hljóta góða kennslu almennt mun betri árangri en aðrir. Það er því áhyggjuefni að sífellt færri einstaklingar vilja leggja fyrir sig kennslu, en umsóknum í kennaranám hefur fækkað um 80% á undanförnum áratug. Það er mat skýrsluhöfunda að þennan samdrátt megi fyrst og fremst rekja til fábreytts starfsumhverfis og ósamkeppnishæfra launa í íslensku menntakerfi síðustu árin.
Hið fábreytta starfsumhverfi lýsir sér í skorti á endurgjöf á frammistöðu, starfsframvindu og fjölbreytni í skólum á fyrri stigum. Lægra hlutfall kennara fær endurgjöf hérlendis og fæstir telja slíka endurgjöf hafa áhrif á starfsframa sinn. Þannig veltur framvinda í starfi nær eingöngu á starfsaldri viðkomandi, en ekki gæðum kennslu eða öðrum faglegum þáttum í kennarastarfinu.
Árið 2006 voru laun kennara sambærileg við meðallaun á Íslandi en fóru lækkandi eftir það. Fram að síðustu kjarasamningum námu þau um 80% af meðallaunum. Er það hvorki í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til kennara né þess mikla álags sem kennarar upplifa í starfi en í dag þarf fimm ára háskólanám til að ljúka kennaranámi. Mikil fækkun umsókna um kennaranám kemur því lítið á óvart.
Hitt er síðan að við gerð síðustu kjarasamninga var tekið stórt skref til að breyta þessari þróun og rétta hlut kennara. Eru vonir bundnar við að verklag breytist í kjölfarið, ánægja aukist og framleiðni innan grunnskólans verði meiri. Tækifærið er a.m.k. til staðar fyrir sveitarfélög, stjórnendur og kennara.
Auka má fjölbreytni á grunnskólastigi
Hluti vandans felst í þeirri staðreynd að á grunnskólastigi hafa kennarar lítið val um vinnuveitanda, en 97% grunnskólanema hérlendis eru í skólum á vegum hins opinbera. Þar eru laun kennara stöðluð á milli skóla og ótengd frammistöðu þeirra í starfi. Skólar þurfa því ekki að keppa sín á milli um að laða til sín kennara með því að bjóða þeim samkeppnishæfari launakjör og möguleika til aukins starfsframa. Afleiðing þessa skorts á samkeppni er einokunarstaða vinnuveitenda á grunnskólastigi gagnvart kennurum sem dregur úr hvata til nýsköpunar í skólastarfi.
Á öðrum skólastigum er skólastarf fjölbreyttara. Á leik-, framhalds- og háskólastigi eru sjálfstætt starfandi skólar sem semja við kennara á einstaklingsgrundvelli og keppa þannig sín á milli um besta starfsfólkið. Foreldrar virðast hafa jákvæða reynslu af þessum stofnunum en á leikskólastigi, þar sem vægi sjálfstætt starfandi skóla er hvað mest, er stuðningur almennings við aðkomu annarra en hins opinbera að skólastarfi einnig mestur. Þar er 62% stuðningur við slíkan rekstur, en einungis 18% eru á móti. Þá er meirihlutastuðningur á öllum skólastigum fyrir því að leyfa sjálfstætt starfandi skóla.
Rekstarumbætur skila ávinningi
Eins og rakið er hér að ofan eru fjárframlög há á fyrri skólastigum en kennarar bera á sama tíma skarðan hlut frá borði þegar kemur að launakjörum. Orsök þess má m.a. rekja til óhagkvæmni í rekstri á fyrri skólastigum. Annars vegar eru afköst kennara minni hér en annars staðar og hins vegar er rekstur skóla og stoðþjónustu á grunnskólastigi kostnaðarsamur hérlendis.
Minni afköst kennara má rekja til tveggja þátta. Annars vegar kenna íslenskir kennarar um 10% færri kennslustundir á ári en á öðrum löndum á Norðurlöndum, sem þýðir að fleiri kennara þarf hér en annars staðar til að kenna sama fjölda kennslustunda. Hins vegar eru margir grunnskólar á Íslandi fámennir. Af 157 grunnskólum á Íslandi eru 46 með innan við 100 nemendur. Í þessum skólum þurfa kennarar að kenna fámennari bekkjum, sem leiðir til þess að færri nemendur eru á hvern kennara en tíðkast í öðrum ríkjum.
Þá er hagkvæmni í almennum rekstri á grunnskólastigi ábótavant, en rekstrarkostnaður er um 16% hærri en á öðrum Norðurlöndum. Smæð skólanna spilar þar stórt hlutverk, en fámennari grunnskólar eru kostnaðarsamari í rekstri á hvern nemanda en þeir fjölmennari. Þá hefur kostnaður á hvern nemanda á grunnskólastigi aukist um 24% samanborið við 9% samdrátt á framhaldsskólastigi frá því að grunnskólar voru færðir á forræði sveitarfélaga. Það er vísbending um að þörf sé á auknu rekstraraðhaldi á sveitarstjórnarstiginu samhliða auknum sveigjanleika við stjórnun skóla.
Grípum til aðgerða
Nýjustu kannanir á námsárangri og brottfalli nemenda hérlendis ættu að vera okkur vitundarvakning. Norska skólakerfið stóð frammi fyrir sambærilegum vanda í byrjun aldarinnar. Þar var brugðist við með víðtækum umbótum í anda þeirra sem nefndar eru hér að ofan. Þar er samhljómur þvert á stjórnmálaflokka um að þær kerfisbreytingar séu mikilvægt skref fyrir norskt þjóðfélag sem muni skila verulegum ávinningi til lengri tíma litið. Núna er tími fyrir Íslendinga að gera slíkt hið sama.
Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu, föstudaginn 31. október, bls. 25.