Viðskiptaráð Íslands

Ekki sameina án þess að hagræða

Á Íslandi eru 2.300 íbúar á hverja ríkisstofnun en á Norðurlöndunum er þeir á milli 30 og 60 þúsund. Þannig leggst kostnaður við rekstur stofnanakerfisins þyngra á íslenska skattgreiðendur en í nágrannaríkjum. Í fyrsta lagi er það vegna kostnaðarins við að reka áþekkt stofnanakerfi og tíðkast í margfalt fjölmennari ríkjum. Í öðru lagi er það vegna þess að við rekum álíka margar eða jafnvel fleiri stofnanir og milljóna manna ríki. T.d. eru 131 ríkisstofnanir í Danmörku og 86 stofnanir í Finnlandi.

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs

Á vegum íslenska ríkisins eru yfir 160 stofnanir sem sinna ýmsum verkefnum. Þær eru margar smáar í sniðum, en fjórðungur þeirra hefur færri en 20 starfsmenn. Sú allra minnsta, Listasafn Einars Jónssonar, hefur einungis þrjá starfsmenn. Úrbætur á þessu sviði eru nauðsynlegar en þegar hafa þrír ráð­herrar ríkisstjórnarinnar lagt fram 10 sameiningartillögur sem munu fækka stofnunum um 19. Það er lofsvert framtak en útfærsla sameininganna ræður úrslitum um hvort markmið þeirra náist: Að spara skattfé og bæta þjónustu.

Á Íslandi eru 2.300 íbúar á hverja ríkisstofnun en á Norðurlöndunum er þeir á milli 30 og 60 þúsund. Þannig leggst kostnaður við rekstur stofnanakerfisins þyngra á íslenska skattgreiðendur en í nágrannaríkjum. Í fyrsta lagi er það vegna kostnaðarins við að reka áþekkt stofnanakerfi og tíðkast í margfalt fjölmennari ríkjum. Í öðru lagi er það vegna þess að við rekum álíka margar eða jafnvel fleiri stofnanir og milljóna manna ríki. T.d. eru 131 ríkisstofnanir í Danmörku og 86 stofnanir í Finnlandi.

Fámennari stofnanir verja hærra hlutfalli útgjalda í stoðþjónustu en þær fámennari. Það þýðir að stærri hluti fjárframlaga til minni stofnana fer í annað en kjarnaverkefni þeirra.[1] Með sameiningu í stærri rekstrareiningar fer stærra hlutfall framlaga í beina þjónustu stofnunarinnar og sá fasti kostnað sem fylgir rekstri, m.a. vegna mannauðsmála, fjármála­umsýslu, persónu­verndar og upplýsingatækni, minnkar.

Annar fylgifiskur svo margra stofnana er að verkefni þeirra geta skarast og skipting málefnasviða milli orðið óljós. Sem dæmi er umsjón og birting opinberra ganga í höndum fjölda stofnana, t.d. Þjóðskrá Íslands, Ferðamálastofu, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, Seðlabanka Íslands og Hagstofu Íslands. Þá er skörun verkefna Neytendastofu og Fjölmiðlanefndar svo mikil að stofnanirnar hafa gert samning sín á milli um verkaskiptingu við eftirlit með viðskiptaboðum.

Fyrri reynsla sýnir að sameiningar stofnana auka rekstrarhagræði, sérhæfingu og þjónustu. Til dæmis leiddi sameining tíu skattaembætta í eitt árið 2010 af sér 16% hagræði í starfsmannahaldi ásamt því að auka afköst og sérhæfingu milli starfsstöðva. Afgreiðslutími almennra erinda styttist um 50% og tíðni kæra lækkaði um 62%. Svipaða sögu er að segja af sameiningu lögregluembætta höfuðborgar­svæðisins í eitt árið 2008. Fjárveiting til sameinaðs embættis var 17% lægri samhliða því að hlutfall upplýstra mála jókst um 29% og ánægja með störf jókst um 5%.[1]

Í ljósi ávinningsins sem sameiningar geta haft í för með sér er skiljanlegt að ríkisstjórnin hafi frekari áform um að hagræða, sameina stofnanir og einfalda stjórnsýslu. Nýverið kynnti húsnæðis­mála­ráðherra áform um sameiningu Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar og Skipulags­stofnunar. Þar er áætlað að sameinuð stofnun hafi aukið bolmagn til að sinna verkefnum samtímis því að efla þjónustu. Þar kemur einnig fram að rekstrarhagræði vegna sameiningarinnar nemi 80 m. kr. árlega, eða 16% af framlagi til Skipulags­stofnunar árið 2025.

Því miður eru ekki allar sameiningar útfærðar með það að markmiði að bæði auka þjónustu og skila rekstrar­hagræði. Í áformum dómsmálaráðherra um sameiningu níu sýslumannsembætta er ráðgert að sparnaði vegna sameiningar verði ráðstafað í „[…] frekari uppbyggingu og framþróun sameinaðs embættis og eftir atvikum í ný verkefni og stöðugildi[…]“. Þá kemur einnig fram að sameiningin mun ekki leiða af sér hagræðingu í starfsmannahaldi. Þannig á frekar að veita sparnaðinum aftur til stofnunarinnar í stað þess að skila hluta hans aftur til skattgreiðenda.

Það er tímabært að stjórnvöld stígi stærri skref í stofnanasameiningum á Íslandi. Sameiningar stuðla að því að við fáum meira fyrir hverja krónu sem greitt er í skatta og gjöld. Þá þarf það að vera skýrt markmið að sameiningar skili sér bæði í formi rekstrarhagræðis og bættrar þjónustu. Annars er hætt við því að ávinningur sameininga skili sér ekki til samfélagsins heldur stuðli að frekari útþenslu ríkisins.

Greinin birtist í ViðskiptaMogganum þann 8. október 2025

[1] Stjórnarráðið (2013). “Tillögur verkefnastjórnar samráðsvettvangs um aukna hagsæld”.

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024