10.04.2015 | Umsagnir

Breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Með frumvarpinu er stefnt að því að aðlaga íslenska löggjöf á sviði fjármálamarkaða að Basel III staðlinum og nýju regluverki Evrópusambandsins.

Í umsögninni kemur m.a. eftirfarandi fram:

  • Innleiðing reglna með meira íþyngjandi hætti en nauðsynlegt er hefur slæm áhrif á íslenskt efnahagslíf og er til þess fallin að skerða samkeppnishæfni íslenskra fjármálafyrirtækja og hækka fjármagnskostnað einstaklinga og fyrirtækja hér á landi.
  • Mikilvægt er að aðlögunarfrestur nýrra reglna verði nægjanlega rúmur, en fyrirtæki þurfa svigrúm til að aðlaga starfsemi sína til þess að neikvæð áhrif breytinga á rekstur þeirra verði takmörkuð.
  • Ráðið telur heimild Fjármálaeftirlitsins til að veita undanþágur til þess fallna að draga úr gagnsæi um framkvæmd laganna og hefur einnig í för með sér aukna óvissu og umsýslukostnað.
  • Hámark á hlutfall breytilegra starfskjara er of lágt að mati ráðsins og verði frumvarpið að lögum mun fastur kostnaður fjármálafyrirtækja hækka.

Umsögnina má í heild sinni nálgast hér

Viðfangsefni: Regluverk og eftirlit, Samkeppnishæfni