Viðskiptaráð Íslands

Orkulaus eða orkulausnir?

Traustir innviðir eru forsenda þess að samfélag og atvinnulíf á Íslandi búi við orkuöryggi. Það er þess vegna miður að opinbert samþykktaferli og þar með framkvæmdatími verkefna, hafi lengst verulega en lögbundnir frestir í flutningsverkefnum eru ítrekað virtir að vettugi.

Elísa Arna Hilmarsdóttir & Gunnar Úlfarsson, hagfræðingar Viðskiptaráðs.

lest þekkjum við hið víðfræga og margnotaða orðatiltæki þetta reddast, en rekja má notkun þess allt aftur til aldamótanna 1900. Þótt hlutirnir hafi vitaskuld tilhneigingu til að reddast þá getur allt hæglega farið í skrúfuna sé ekkert aðhafst enda um orðatiltæki að ræða en ekki náttúrulögmál. Hér eru orkumál engin undantekning.

Lengi vel höfum við tekið orkunni sem sjálfsögðum hlut, enda búið við þau forréttindi að eiga nóg af henni. Óhætt er að segja að Íslendingar hafi verið í fararbroddi þegar kemur að notkun grænnar orku og eigum við þeim sem á undan okkur komu mikið að þakka fyrir framsýni þeirra við framkvæmd og fjárfestingu í virkjunum og öðrum orkuinnviðum. Árangurinn leynir sér ekki og eru helstu orkugjafar okkar bæði grænir og sjálfbærir en í dag er 85% af frumorkunotkun Íslendinga úr endurnýjanlegum orkugjöfum, samanborið við 22% í Evrópu og 11% á heimsvísu.

Þrátt fyrir mikið forskot blasa við töluverðar áskoranir. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í umhverfis- og loftslagsmálum. Stefnt er að 55% samdrætti í losun á beinni ábyrgð Íslands á árunum 1990-2030 og jarðefnaeldsneytislausu Íslandi árið 2040 auk þess sem markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 hefur verið lögfest. Markmiðin eru göfug og ávinningurinn er margvíslegur. Má þar nefna loftslags- og umhverfissjónarmið, orkusjálfstæði og gjaldeyrissparnað. Því skal ekki undra að samstaða almennings um markmiðin sé afgerandi en aðeins 14% eru ósammála því að mikilvægt sé að Ísland nái fullum orkuskiptum samkvæmt nýrri könnun sem Maskína gerði fyrir Viðskiptaráð. Eigi þjóðin að geta staðið við skuldbindingar sínar þarf að halda vel á spöðunum en til þess þarf m.a. að ráðast strax af fullum krafti í orkuskiptin og gera þannig kleift að hætta brennslu jarðefniseldsneytis. Þetta mun sem sagt ekki reddast án markvissra aðgerða, ekki frekar en halli ríkissjóðs eða aukakílóin eftir hátíðarnar.

Mikilvægi orkusjálfstæðis ótvírætt

Orkumálin teygja anga sína víða en skortur á orku, orkuverð, orkuöryggi, mismunandi orkugjafar og samspil þeirra við markmið þjóða heims um loftslagsvænni hegðun eru alþjóðleg viðfangsefni. Innrás Rússa í Úkraínu hefur jafnframt sett orkumálin í annað og stærra samhengi en í kjölfar innrásarinnar snarminnkaði sala á rússnesku jarðgasi inn á evrópskan markað sem olli hækkunum á orkuverði og síðan almennri verðbólgu. Á hinn bóginn var orkuverð hér á landi mjög stöðugt en hefði það fylgt evrópskri verðþróun síðastliðin tvö ár hefðu íslensk heimili greitt 20 ma.kr. meira en þau gerðu í raun. Umræðan um orkusjálfstæði er þannig orðin nokkuð fyrirferðarmikil en samkvæmt áðurnefndri könnun Maskínu telja 92% orkusjálfstæði þjóðarinnar skipta miklu máli.

Hvert liggur leiðin?

Það liggur fyrir að flest viljum við tryggja orkuskipti til að mæta skuldbindingum okkar í loftslags- og umhverfismálum og auka orkusjálfstæði. En hvernig förum við að því?

Í skýrslu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum er teflt fram ólíkum sviðsmyndum sem taka mið af loftslagsmarkmiðum Íslands. Sviðsmyndirnar spanna þar allt frá lítilli sem engri viðbót við raforkuframleiðslu Íslands (sviðsmynd Landverndar og Náttúruverndarsamtakanna) til ríflega tvöföldunar hennar (sviðsmynd Samorku). Það kann að koma mörgum spánskt fyrir sjónir hve mismikla viðbótarorku þarf eftir ólíkum sviðsmyndum. Skýringuna má finna í því að annars vegar er gert ráð fyrir að dregið verði úr vægi stóriðju, og þar með orkunotkun hennar, og að enginn hagvöxtur verði umfram mannfjöldaþróun. Hins vegar er gert ráð fyrir aukinni raforkuþörf til að standa undir orkuskiptum, þörfum almennings og atvinnulífs þar sem framleiðsla og útflutningur eykst samfara auknum hagvexti og bættum lífskjörum.

Eflaust má deila um ágæti þessara tveggja leiða. Í þessu samhengi er þó áhugavert að líta aftur til könnunarinnar sem Maskína gerði fyrir Viðskiptaráð en hún leiðir í ljós að af þeim sem þykir mikilvægt að Ísland nái fullum orkuskiptum, telja aðeins 9% að ekki þurfi að auka raforkuframleiðslu.

Svo taka megi upplýstar ákvarðanir í orku- og umhverfismálum er nauðsynlegt að meta áhrif þeirra leiða sem standa okkur til boða. Samanburður þeirra tveggja sviðsmynda sem raktar voru hér að ofan leiðir í ljós að efnahagsleg áhrif þeirra eru gríðarlega ólík. Yrði raforkuframleiðsla tvöfölduð myndu skatttekjur hins opinbera líklega aukast um 400 milljarða króna allt til ársins 2040 á sama tíma og hin sviðsmyndin, sviðsmynd Landverndar og Náttúruverndarsamtakanna, hefði í för með sér uppsafnaðan samdrátt í landsframleiðslu sem nemur um 9.000 milljörðum króna. Það jafngildir rúmum 3.000 milljörðum króna í skatttekjur hins opinbera en það dugir til að greiða öll laun og launatengd gjöld opinberra starfsmanna í um sex ár. Þá er frátalin sú staðreynd að ekki liggur ljóst fyrir hvað koma skal í staðinn fyrir orkufrekan iðnað m.t.t. starfa, verðmætasköpunar og gjaldeyristekna en iðnaðarvörur stóðu undir um 57% af verðmæti alls útflutnings í fyrra. Það liggur fyrir að orkuskipti án aukinnar orkuframleiðslu myndu hafa veruleg neikvæð efnahagsleg áhrif og eru því ótæk að mati Viðskiptaráðs.

Er okkur þá nokkuð að vanbúnaði?

Það er ekkert launungarmál að flutningstakmarkanir, hægagangur í leyfisveitingum og óstöðugleiki í orkuafhendingu er stórkostlegt vandamál sem brýnt er að leysa. Nærtækasta dæmið er rafmagnsleysi víða um land að undanförnu en könnun Maskínu leiðir m.a. í ljós að um 68% þeirra sem búa á Austurlandi hafa upplifað endurtekið rafmagnsleysi á síðustu tveimur árum.

Í dag er staðan sú að flutningsgetu raforku hafa verið settar skorður með takmörkuðu svigrúmi sökum mikils álags. Takmarkanir þessar hafa gríðarlega neikvæð áhrif á atvinnulíf og uppbyggingu víðsvegar um landið og hefur t.a.m. fjölda fyrirtækja verið synjað um tengingu raforku. Til að setja stöðuna í samhengi þurfti Landsnet að hafna yfir 100 formlegum fyrirspurnum um tengingu frá fjölda fyrirtækja, á árunum 2018-2021. Það er ekki hlaupið að því að leggja mat á kostnaðinn við þessi glötuðu tækifæri en fórnarkostnaður raforkusölunnar einnar og sér hleypur á tugum milljarða króna.

Traustir innviðir eru forsenda þess að samfélag og atvinnulíf á Íslandi búi við orkuöryggi. Það er þess vegna miður að opinbert samþykktaferli og þar með framkvæmdatími verkefna, hafi lengst verulega en lögbundnir frestir í flutningsverkefnum eru ítrekað virtir að vettugi. Í því samhengi má nefna Kröflulínu III en undirbúningur hennar tók tæplega sjö ár í stað þriggja ára ef lögbundnir frestir hefðu verið virtir.

Í ofanálag liggur fyrir að ekki verður ráðist í orkuskipti án stórtækra fjárfestinga í orkuinnviðum landsins. Samkvæmt áætlun Landsnets nemur fjárfestingakostnaður á árunum 2020 til 2023 rúmlega 90 milljörðum króna en undanfarin tíu ár hefur kostnaðurinn verið um þriðjungur af þeirri upphæð.

Vandinn er þó ekki einskorðaður við raforkuna því hið sama er uppi á teningnum hjá hitaveitum landsins sem eiga fullt í fangi með að anna núverandi heitavatnsnotkun. Því hefur komið til skerðinga í kuldaköstum, líkt og í vetur. Gangi spár Orkustofnunar eftir er hætt við að heitavatnsnotkun muni aukast langt umfram afkastagetu þeirra vinnslusvæða sem nú eru til rannsóknar. Veiturnar hafa unnið að því að auka heitavatnsöflunina en regluverk um háhitasvæði hefur tafið mjög fyrir nauðsynlegum rannsóknum á nýjum svæðum.

Já, pottur er víða brotinn þegar kemur að orkumálum. Eftirspurn eftir raforku er mun meiri en framboðið, skerðingar á heitu vatni verða tíðari og metnaðarfull markmið stjórnvalda í loftslagsmálum eru í hættu. En það er algjör óþarfi að verða orkulaus. Þess vegna setur Viðskiptaráð orkumál á oddinn á Viðskiptaþingi í dag þar sem leitast verður við að varpa ljósi á tækifæri til orkunýtingar og leiðir til að yfirstíga hindranir svo skapa megi nauðsynleg verðmæti fyrir samfélagið allt. Samhliða Viðskiptaþingi hefur Viðskiptaráð gefið út skýrslu um orkumál og þá valkosti sem við stöndum frammi fyrir. Skýrslan, sem er aðgengileg á www.vi.is, hjálpar vonandi til við að svara því hvort við veljum orkuleysi eða orkulausnir, því valið er jú okkar.

Elísa Arna Hilmarsdóttir og Gunnar Úlfarsson, hagfræðingar Viðskiptaráðs.

Greinin birtist fyrst í sérblaði Viðskiptaþings með Viðskiptablaðinu þann 9. febrúar 2023.

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024