Rík uppsagnarvernd opinberra starfsmanna kemur í veg fyrir að stjórnendur geti brugðist við slakri frammistöðu eða brotum í starfi. „Svartir sauðir“ haldast því áfram í störfum sínum á kostnað skattgreiðenda og samstarfsfólks. Viðskiptaráð áætlar að þessi kostnaður nemi 30-50 ma. kr. á ári. Ráðið leggur til afnám umframverndar til að auka sveigjanleika og bæta gæði opinberrar þjónustu.
Opinberir starfsmenn njóta þrefaldrar uppsagnarverndar samanborið við starfsfólk í einkageiranum. Auk almennrar uppsagnarverndar njóta þeir einnig verndar bæði stjórnsýslu- og starfsmannalaga. Í viðbótarverndinni felst að ekki má segja upp starfsmanni án þess að hann hafi fyrst verið áminntur og fengið kost á að bæta ráð sitt. Til að uppsögn geti átt sér stað þarf starfsmaður síðan að brjóta af sér aftur með sambærilegum hætti innan tiltekins tíma. Strangar málsmeðferðarreglur gilda bæði um áminningar- og uppsagnarferlið. [1][2]
Erfitt að taka á málum vegna ófrávíkjanlegra skilyrða
Þreföld uppsagnarvernd vinnur gegn því að stjórnendur hjá hinu opinbera geti tekið á starfsmannamálum með fullnægjandi hætti. Skilyrði verndarinnar eru ófrávíkjanleg óháð því hvers konar mál um ræðir. Það þýðir að jafnvel þegar alvarlegt brot í starfi veldur forsendubresti í ráðningarsambandinu er nánast ómögulegt fyrir stjórnanda að segja upp viðkomandi starfsmanni með lögmætum hætti.
Mörg dæmi eru um að misbrestir starfsmanna séu staðfestir af dómstólum en strangar reglur um starfslok leiða engu að síður til skaðabótaskyldu hins opinbera eða koma í veg fyrir uppsögn yfir höfuð (mynd 1). Þessi dæmi skiptast í þrjá flokka: (1) Slaka frammistöðu, (2) einelti, ofbeldi eða áreitni, og (3) trúnaðarbrot í starfi. Hér má sjá eitt dæmi úr hverjum flokki samkvæmt dómstólum:
Í Viðauka I má finna þrjár frásagnir til viðbótar þar sem misbrestur opinbers starfsmanns var staðfestur af dómstólum en uppsögn eða áminning engu að síður ólögmæt vegna strangrar uppsagnaverndar.
Tvíþætt neikvæð áhrif uppsagnarverndarinnar
Framangreindar dæmisögur sýna að þau lög sem gilda um uppsagnir valda því að erfitt er að taka á málum starfsmanna sem annað hvort valda ekki starfi sínu eða hafa sýnt af sér háttsemi sem ekki telst samboðin þeirra starfi. Það spornar gegn því að „svartir sauðir“ séu leystir frá störfum og hæfasta fólkið skipað í þeirra stað.
Þetta hefur neikvæð áhrif á opinbera þjónustu með beinum og óbeinum hætti. Beinu áhrifin eru í formi lakari frammistöðu viðkomandi starfsmanna. Þeir komast upp með ófullnægjandi frammistöðu eða alvarlegri brot í starfi á sama tíma og hæfara starfsfólk er ekki ráðið í þeirra stað. Það hefur bein neikvæð áhrif á gæði opinberrar þjónustu þeirra stofnana þar sem þeir starfa.
Óbeinu áhrifin koma fram í því að umræddir „svartir sauðir“ hafa einnig neikvæð áhrif á frammistöðu annars starfsfólks. Ein birtingarmynd þeirra er brotthvarf starfsfólks sem verður fyrir barðinu á brotum sem eru látin viðgangast á vinnustaðnum. Þá hefur það neikvæð áhrif á vinnustaðamenningu og hvata alls starfsfólks til að standa sig vel í starfi að sjá að slök frammistaða eða brot leiði ekki til uppsagna.
30 - 50 milljarða árlegur kostnaður
Erlendar rannsóknir á ríkri uppsagnarvernd benda til þess að hún dragi úr framleiðni með því að vinna gegn skilvirkri nýtingu á vinnuafli og fjármagni. Ef vinnustaðir hafa ekki sveigjanleika til að haga starfsmannamálum með þeim hætti sem hentar starfseminni þá kemur það niður á henni. Erfitt getur reynst að tölusetja þennan kostnað þar sem tegund og eðli uppsagnarverndar getur verið misjöfn. [6]
Nýleg rannsókn á áhrifum afnáms svokallaðrar „last in, first out“ uppsagnarverndar hjá smærri fyrirtækjum í Svíþjóð benti til þess að afnám hennar hafi aukið framleiðni um 2-3% að meðaltali. Áhrifin voru 3-4% meiri hjá vinnustöðum sem sögðu upp að minnsta kosti einum starfsmanni á tímabilinu sem var undir. Önnur rannsókn benti til þess að fjórföldun uppsagnarfrests í Belgíu hafi dregið úr framleiðni um tæplega 6%. [7][8]
Viðskiptaráð áætlar að ríkari uppsagnarvernd opinberra starfsmanna kosti ríki og sveitarfélög 30 til 50 ma. kr. á ári (mynd 2). Með því að staðfæra framangreindar rannsóknir á Ísland er mat ráðsins að neikvæð áhrif „svartra sauða“ á framleiðni hjá hinu opinbera séu 5-7%. Kostnaðarmatið fæst með því að margfalda þau áhrif með launakostnaði hins opinbera, sem nemur 688 ma. kr. árið 2025. Þetta er hóflegt mat þar sem neikvæð áhrif á aðra útgjaldaliði en laun eru ekki meðtalin.
Uppsagnarvernd er fyrir almannahagsmuni en ekki starfsfólk
Reglur um áminningar og uppsagnir eru í meginatriðum frá árinu 1954 þegar fyrst voru sett lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ríkari réttarvernd á sér þá sögulegu skýringu að áður tengdust ríkisstarfsmenn valdi þess með órjúfanlegum hætti enda væri þeim falið að halda uppi lögum og reglum og framfylgja ákvörðunum og stefnu stjórnvalda. Upphaflegt markmið lagasetningarinnar var að gæta að hagsmunum almennings með því að sporna gegn því að ríkisstarfsmenn yrðu leiksoppar stundarhagsmuna eða geðþóttaákvarðana. [9]
Frá því áminningarskyldan tók fyrst gildi árið 1954 hefur hlutfall starfandi hjá hinu opinbera af vinnumarkaðnum þrefaldast (mynd 3). Árið 1965 starfaði einn af hverjum tíu hjá hinu opinbera. Í dag er hlutfallið einn af hverjum þremur. Munurinn skýrist af vaxandi umfangi hins opinbera í íslensku samfélagi, sérstaklega í heilbrigðis- og menntakerfinu.
Ríkisendurskoðun hefur áður bent á eðlisbreytingu hlutverks hins opinbera á vinnumarkaði:
„Full ástæða [er] til að endurmeta út frá almannahagsmunum sem og reynslunni af áminningarreglunum og stjórnsýslulögunum hvort ekki sé tímabært að breyta þeim. Þau rök sem færð hafa verið fyrir réttarverndinni eiga ekki við um ýmis störf innan ríkisgeirans. Þessi störf, t.d. störf innan heilbrigðis- og menntakerfanna, eru þess eðlis að ekki verður talin hætta á að viðkomandi starfsmenn verði beittir pólitískum þrýstingi í starfi.“ [10]
Til viðbótar við störfin sem Ríkisendurskoðun telur upp má einnig nefna fleiri tegundir starfa þar sem þær sérstöku hollustu- og trúnaðarskyldur sem áður lagðar voru á embættismenn eiga síður við. Það eru störf eins og forritarar, starfsmenn listasafna, ræstitæknar, almennt skrifstofufólk og matráðsmenn svo dæmi séu nefnd.
Aðeins 17 af 18.000 áminntir á fimm árum
Uppsagnarvernd opinberra starfsmanna er svo rík, og dómar þar sem hið opinbera var úrskurðað skaðabótaskylt orðnir svo margir, að uppsögnum er næstum aldrei beitt. Á árunum 2004 til 2009 var aðeins 17 af 18.000 starfsmönnum hjá ríkinu veitt áminning. Þar sem lögmæt uppsögn getur einungis farið fram í kjölfar áminningar og endurtekins brots í starfi er fjöldi slíkra tilfella lægri. Tíðni uppsagna er því lægra en 0,02% á ári. [11]
Ríflega tveir af þremur stjórnendum hjá hinu opinbera telja framkvæmd áminninga og uppsagna flókna og því sé erfitt að beita því (mynd 4). Þá telur meirihluti þeirra lögin vinna gegn því að stofnanir starfi innan fjárheimilda og rúmlega helmingur að starfsmannalögin vinni gegn skilvirkni í rekstri ríkisins. [12]
Almenningur telur einnig að færa eigi uppsagnarvernd opinberra starfsmanna nær almennum vinnumarkaði (mynd 5). Niðurstöður þátttakenda í kosningaprófi sem Viðskiptaráð lagði fyrir almenning í aðdraganda Alþingiskosninga 2024 sýndu að 70% almennings eru fylgjandi því að færa réttindi opinberra starfsmanna nær því sem tíðkast á almennum vinnumarkaði. Aðeins 12% lýstu sig andvíg tillögunni og því ljóst að mikill stuðningur er við að jafna stöðu milli markaða meðal almennings. [13]
Sveigjanleiki í starfsmannahaldi forsenda skilvirkni
Ríkari uppsagnarvernd opinberra starfsmanna er úrelt þar sem hún tekur ekki mið af breyttu hlutverki hins opinbera frá því hún var leidd í lög. Í þokkabót veigra stjórnendur hins opinbera sér frá því að beita úrræðunum þar sem ferlið í tengslum við þau er svo þungt í vöfum.
Í núverandi mynd stendur lagaraminn um uppsagnir opinberra starfsmanna gegn eðlilegum sveigjanleika í rekstri ríkisins og vinnur gegn því að stjórnendur þess geti nýtt skattfé með sem árangurs-ríkustum hætti. Afnám umframverndar myndi veita nauðsynlegt svigrúm til að bregðast við ef starfsmaður bregst starfsskyldum sínum eða brýtur af sér í starfi.
Að mati Viðskiptaráðs hníga engin rök að því að opinberir starfsmenn njóti ríkari uppsagnarverndar en starfsfólk í einkageiranum. Breytingin er í samræmi við þá þróun sem hefur verið á starfsumhverfi opinberra starfsmanna þar sem laun þeirra eru orðin áþekk störfum í einka-geiranum og mörkin þar á milli sífellt óljósari. Með fyrrgreint fyrir augum leggur Viðskiptaráð tvær tillögur:
Framangreindar tillögur tryggja ríkinu nauðsynlegan sveigjanleika í rekstri ríkisins og starfsmannahaldi, bæta nýtingu á skattfé, auka gæði þeirra þjónustu sem ríkið veitir og færa réttindi opinberra starfsmanna nær því sem tíðkast á almennum vinnumarkaði.
„Svartir sauðir, glatað fé“ eru upphafsorð lagsins Jón pönkari eftir Utangarðsmenn frá árinu 1980. Textahöfundur lagsins er Gunnar Ægisson.
1 Aukin uppsagnarvernd er ein af sérréttindum opinberra starfsmanna. Nánar má lesa um öll réttindin í útgáfu Viðskiptaráðs (2024): „Dulbúinn kaupauki: Sérréttindi opinberra starfsmanna“. Slóð: https://vi.is/skodanir/dulbuinn-kaupauki
2 Stjórnsýslulög (nr. 37/1993) og Lög um réttindi og skyldur
starfsmanna ríkisins (nr. 70/1996)
3 Landsréttur (2020). Mál nr. 14/2020. Slóð: https://landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?Id=c0008d14-f02f-4b7b-8b48-85dac1303c82
4 Héraðsdómur Reykjavíkur (2013). Mál nr. E-2266/2013. Slóð: https://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=8c2ba493-2050-4e24-b8d1-0b7b08a50de5
5 Hæstiréttur Íslands (2017). Mál nr. 278/2016. Slóð: https://www.haestirettur.is/default.aspx?pageid=0f2f6428-7b6a-11eb-947c-005056bc0bdb&id=86f7ab94-5e5c-480e-8210-04de1b6ca49a
6 Sjá t.d. Hopenhayn, H. &og Rogerson, R. (1993). „Job Turnover and Policy Evaluation: A General Equilibrium Analysis“. Slóð: https://econpapers.repec.org/article/ucpjpolec/v_3a101_3ay_3a1993_3ai_3a5_3ap_3a915-38.htm og Bentolila &og Bertola (1990). „Firing Costs and Labour Demand: How Bad is Eurosclerosis?“. Slóð: https://www.jstor.org/stable/2298020
7 Bjuggren (2018). „The Effect of Employment Protection Rules on Firm Productivity - A Natural Experiment“. Slóð: https://www.diva-portal.org/smash/record.jsf?dswid=8091&pid=diva2%3A613941
8 Caggese, Güler, Marithasa og Mulier (2022). „Firing Costs and Productivity: Evidence from a Natural Experiment“. Slóð: https://papers.ssrn.com/sol3/papers.cfm?abstract_id=4283782
9 Ríkisendurskoðun (2011). „Mannauðsmál ríkisins:-1 Starfslok ríkisstarfsmanna-2011“. Slóð: https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2011-mannaudur-starfslok.pdf
10 Ríkisendurskoðun (2011). „Mannauðsmál ríkisins 1:. Starfslok ríkisstarfsmanna“. Slóð: https://www.rikisend.is/reskjol/files/Skyrslur/2011-mannaudur-starfslok.pdf
11 Alþingi (2009). Fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um veittar ofl. Slóð: https://www.althingi.is/altext/138/s/0335.html
12 Ríkisendurskoðun (2014). Könnun meðal stjórnenda ríkisstofnana. Slóð: https://rafhladan.is/bitstream/handle/10802/11041/Mannaudsmal_rikisins_1_eftirfylgni.pdf?sequence=1
13 Viðskiptaráð (2024). „Afnám stimpilgjalds, virkjanir, bensínbílar og samræmt námsmat efst á óskalista kjósenda“. Slóð: https://vi.is/frettir/kosningaprof-nidurstodur-2024
14 Áætlaður fjöldi stöðugilda embættismanna, forstöðumanna stofanna ríkisins og æðstu stjórnendur sveitarfélaga af alls starfandi fyrir hið opinbera.
Segja slúbberta hjá hinu opinbera kosta ríkið 30 til 50 milljarða árlega - Vísir.is, 22. maí 2025
Rík uppsagnarvernd kosti hið opinbera 30-50 milljarða á ári - vb.is, 22. maí 2025
Slúbbertar - Morgunútvarpið á Rás 2, 22. maí 2025 (Umfjöllun hefst á 15. mínútu)