Viðskiptaráð Íslands

Þrjár skattahækkanir á móti hverri lækkun

Frá árinu 2007 hafa skattahækkanir á hverju ári verið fleiri en skattalækkanir.

Sé litið aftur til ársins 2008 hefur aðeins um fjórðungur skattbreytinga verið til lækkunar á sköttum; 90 af 344. Þannig hafa 246 breytingar verið til hækkunar á sköttum og niðurstaðan er: Þrjár skattahækkanir fyrir hverja lækkun.

Við lok hins eftirminnilega árs 2020 tóku gildi 18 skattahækkanir og 13 skattalækkanir. Þrátt fyrir að skattahækkanir séu fleiri en skattalækkanir hafa lækkanir aðeins einu sinni verið fleiri, frá því Viðskiptaráð hóf að taka skattbreytingar saman, en þær voru 18 talsins árið 2014. Það ár var hlutfall skattahækkana- og lækkana þar að auki nánast jafnt, en skattahækkanir voru 19.

Ljóst er að heimsfaraldurinn hafði sitt að segja um sumar þeirra skattbreytinga sem gerðar voru á síðasta ári. Skattkerfið var þannig að hluta til nýtt sem viðbragðstól við efnahagslegum hremmingum hér á landi vegna veirunnar, til dæmis með auknum endurgreiðslum, tímabundinni niðurfellingu gjalda og seinkun skattgreiðslna sem þó falla ekki

Sem dæmi um breytingar sem heimsfaraldurinn hafði áhrif á má nefna gistináttagjaldið sem var fellt niður tímabundið í þágu gististaða í ferðaþjónustu. Þá voru endurgreiðslur vegna kostnaðar í tengslum við vinnu iðnaðarmanna hækkaðar í einum aðgerðapakka stjórnvalda auk þess sem frítekjumark fjármagnstekjuskatts var hækkað úr 150 þúsund krónum í 300 þúsund krónur. Einnig var flutningsjöfnunargjald á bensíni fellt niður. Þar að auki lækkar bankaskattur líkt og á síðasta ári, nú úr 0,318% í 0,145%, en ákveðið var að flýta lækkun hans miðað við það sem áður hafði verið ákveðið. Tryggingagjald lækkaði um 0,25% líkt og á síðasta ári, þ.e. úr 6,35% í 6,10% og er þar um að ræða síðustu lækkun gjaldsins í þriggja ára lækkunarfasa.

Árið 2019 voru þær breytingar gerðar á skattkerfinu að tekið var upp nýtt og lægra tekjuskattsþrep einstaklinga og urðu þau því þrjú í upphafi árs 2020. Þetta hafði í för með sér að skattbyrði minnkaði árið 2020. Nú lækkar skattprósenta þess hluta neðsta þrepsins sem rennur til ríkisins úr 20,6% í 17%, en skattar á tekjur í milliþrepi hækka lítillega, úr 22,75% í 23,5%. Tekjur í efsta þrepi eru áfram skattlagðar um 31,8%. Annað árið í röð lækkar persónuafsláttur og er nú 50.792 kr., samanborið við 54.628 kr. á síðasta ári, en sú lækkun vegur ekki upp á móti lækkun neðsta skattþreps. Útsvarsprósentur hér á landi eru allt frá 12,44% upp í 14,52%, en þar er um að ræða lögbundið hámark og lágmark samkvæmt lögum um tekjuskatt. Í flestum sveitarfélögum landsins er útsvarið í hámarki, 14,52%.

Líkt og fyrri ár voru flestar skattahækkanir vegna krónutölugjalda og hækkuðu þau flest sem nemur verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands (2,5%). Þar má sem dæmi nefna kolefnisgjald, útvarpsgjald auk gjalda á áfengi og tóbak.

Talsverðar hækkanir á öllu tímabilinu

Frá árinu 2007 hafa skattahækkanir á hverju ári verið fleiri en skattalækkanir. Hér til hliðar er yfirlit yfir breytingar á sköttum undanfarin ár. Hafa þarf í huga að krónutölugjöld hækka mismikið og árið 2020 hækka þau sem nemur verðbólgumarkmiði og kynnu því að rýrna að raunvirði. Þegar á heildina er litið, má meðal annars sjá eftirfarandi (krónutölugjöld eru á nafnvirði):

  • Fjármagnstekjuskattur hefur ríflega tvöfaldast
  • Erfðafjárskattur hefur tvöfaldast
  • Kolefnisgjöld á bensín, gas- og dísilolíu og brennsluolíu hafa um fjórfaldast
  • Útvarpsgjald hefur hækkað um rúmlega fjórðung

Tengt efni

Grunnskólamál: hvað segja tölurnar?

Grunnskólakennurum hefur fjölgað hraðar en nemendum undanfarin ár. Þá er …
21. október 2024

Hvað er í fjárlagapakkanum?

Fjárlagafrumvarp ársins 2025 var lagt fram á dögunum. Samkvæmt því verða útgjöld …
27. september 2024

Meiriháttar munur á færni eftir grunnskóla

Meiriháttar munur var á færni barna eftir grunnskóla árið 2012. Þetta sýna …
13. ágúst 2024