Viðskiptaráð Íslands

Loka ætti fjárlagagatinu og hætta skuldasöfnun

Í fjárlögum fyrir árið 2026 er áformað ríkissjóður verði rekinn með 15 ma.kr. halla og að hreinn lánsfjárjöfnuður verði neikvæður um 70 ma.kr. Viðskiptaráð telur brýnt að stjórnvöld loki fjárlagagatinu, hætti að safna skuldum og hagræði í rekstri. Í því samhengi leggur ráðið fram 46 hagræðingartillögur sem myndu skila ríkissjóði 109 ma.kr.

Viðskiptaráð þakkar fyrir tækifærið til að veita umsögn við frumvarp til fjárlaga 2026 og vill koma eftirfarandi á framfæri.

  • Hallalaus fjárlög og aukið aðhald myndi styðja við frekari lækkun verðbólgu og skapa forsendur fyrir því að vextir taki að lækka.
  • Skuldir ríkissjóðs hafa tæplega þrefaldast frá 2019 og vaxtagjöld eru orðinn stærsti liðurinn í útgjöldum ríkisins. Til að stöðva skuldasöfnun ríkisins er mikilvægt er að stjónvöld horfi til hreins lánsfjárjafnaðar sem verður áfram neikvæður.
  • Viðskiptaráð leggur fram tillögur að eignasölu, breytingum í starfsmannahaldi ríkisins, stofnanasameiningum ásamt endurskoðun og niðurlagningu verkefna, svo ná megi hallalausum fjárlögum og stöðva frekari skuldasöfnun.

Hallarekstur átta ár í röð

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir því að ríkissjóður verði rekinn með 15 ma. kr. halla. Árið 2026 verður að óbreyttu áttunda árið í röð þar sem ríkissjóður er rekinn með halla. Viðvarandi hallarekstur hefur neikvæð áhrif á verðbólgu og hamlar lækkun vaxta. Þrátt fyrir að það sé jákvætt að afkoma ríkissjóðs batni milli ára telur ráðið tímabært að stjórnvöld loki fjárlagagatinu. Það myndi draga úr verðbólgu og stuðla að frekari stýrivaxtalækkun hér á landi.

Skuldasöfnun í tólf ár óábyrg stefna

Skuldasöfnun undanfarinna ára er ekki aðeins afleiðing af viðvarandi hallarekstri, heldur einnig þeirri staðreynd að hreinn lánsfjárjöfnuður ríkissjóðs hefur verið neikvæður allt frá 2019.[1] Frá árinu 2019 hafa skuldir aukist um rúma 1.400 ma.kr., úr 890 ma.kr. í 2.320 ma.kr. Skuldir ríkissjóðs munu þannig tæplega þrefaldast á átta árum miðað við forsendur fjárlagafrumvarpsins (mynd 1).

Afleiðing skuldasöfnunar undanfarinna ára er sú að vaxtagjöld eru orðinn næst stærsti útgjaldaliðurinn í fjárlagafrumvarpi ársins 2026 (mynd 2). Frá árinu 2019 hafa vaxtagjöld hækkað úr 47 ma.kr. árið 2019 í 125 ma.kr. árið 2026. Þá eru vaxtagreiðslur af skuldum ríkissjóðs orðnar kostnaðarsamari en rekstur Lands­spítalans, Háskóla Íslands og Vegagerðarinnar.

Viðskiptaráð brýnir því fyrir stjórnvöldum að snúa þessari þróun við og tryggja að hreini lánsfjárjöfnuðurinn verði jákvæður svo unnt sé að hætta skuldasöfnun. Ekki nægir að stjórnvöld horfi aðeins til þess að loka fjárlagagatinu og leggi fram hallalaus fjárlög. Með jákvæðum lánsfjárjöfnuði má skapa forsendur fyrir sjálfbærari ríkisfjármál til lengri tíma litið og tryggja að vaxtagjöld ríkissjóðs fari lækkandi á komandi árum. Ef skuldasöfnun heldur aftur á móti áfram munu vaxtagjöld áfram vera meðal stærstu útgjaldaliða ríkissjóðs og minna svigrúm verður til þess að lækka skatta eða fjármagna aðra þjónustu ríkisins.

Tækifæri til að hagræða um 109 milljarða

Viðskiptaráð leggur fram 46 tillögur sem myndu skila 109 ma.kr. hagræði í rekstri ríkissjóðs árlega miðað við fjárlög næsta árs. Allar tillögurnar má finna í viðauka (sjá PDF skjal) en þær skiptast í fjóra flokka:

#1 Niðurlagning og endurskoðun verkefna: Viðskiptaráð leggur fram 13 tillögur um verkefni sem ríkið getur lagt af eða endurskoðað með það fyrir augum að hagræða verulega (mynd 3).

Tillögurnar snúa að því að leggja niður ýmsa styrki, endurskoða umfangsmikil jöfnunar- og endurgreiðslukerfi, auka atvinnufrelsi, draga úr samkeppnisrekstri ríkisins, endurskoða húsnæðis­stuðning og að stofnanir verði lagðar niður. Samanlagt myndu tillögurnar 13 skila 21 ma. kr. í hagræði árlega.

#2 Stofnanasameiningar: Viðskiptaráð leggur til 19 tillögur um sameiningu og hagræðingu í rekstri ríkisstofnana (mynd 4). Með tillögunum fækkar stofnunum úr 160 í 68, eða um 92 stofnanir alls. Samtals skila tillögurnar árlegri hagræðingu sem nemur 12 ma. kr.

Í ljósi smæðar Íslands mun hlutfallslegur kostnaður af rekstri stofnana­kerfis vera hærri en í fjölmennari ríkjum. Þó eru víða tækifæri til að gera betur og fækka stofnunum með sameiningum, þannig að eftir standi færri stærri stofnanir, sem verja hærra hlutfalli útgjalda í sína kjarnastarfsemi. Sameiningarnar myndu þannig lækka hlutfallslegan kostnað við rekstur stofnanakerfisins, en á sama tíma tryggja betri nýtingu skattfjár og auka gæði opinberrar þjónustu.

Hagræðingarkrafan sem lögð er fram miðast við að spara megi í stoðþjónustu við sameiningar og tekur hún mið af stærð, fjölda og umfangi stofnana sem undir eru í hverri tillögu. Einnig er lagt til að verkefni sumra stofnana verði stokkuð upp eða lögð niður. Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að hafa hagræðingu og bætta þjónustu að leiðarljósi við sameiningar stofnana. Sé ekki sett krafa um rekstrar­hagræði við sameiningu er hætt við því að hún leiði til útþenslu framkvæmdavalds stofnana án hagræðis.

#3 Eignasala: Viðskiptaráð leggur til að hlutur ríkisins í 10 félögum að andvirði 602 ma. kr. verði seldur (mynd 5). Þá telur Viðskiptaráð það mikil vonbrigði að aðeins sé áætluð eignasala á komandi ári upp á 800 m.kr. á virði eignarhluta ríkisins í ýmsum fyrirtækjum er virði mörg hundruð milljarða króna.

Ávinningi af eignasölutillögum ráðsins má skipta í tvennt. Annars vegar mætti greiða niður verulegan hluta af skuldum ríkissjóðs með aðgerðunum. Hins vegar myndi salan auka skilvirkni þessara félaga sem myndi skila sér í auknum afköstum, hærri arðgreiðslum, hærri launum starfsfólks, fjárfestingum og meiri arðsemi. Tillögurnar skila sér í 42,1 ma. kr. hagræði árlega í formi lægri vaxtakostnaðar, að því gefnu að allur ágóði sölunnar fari í uppgreiðslu skulda.

Hagræðing tillagnanna var áætluð með því að meta áhrif söluvirði félaganna að markaðsvirði á vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Markaðsvirði félaganna var áætlað með V/I hlutföllum (e. price-to-book ratio) sambærilegra félaga í Evrópu.[3] Sparnaðurinn er svo metinn út frá áhrifum skuldauppgreiðslunnar á vaxtagreiðslur komandi árs. Rétt er að geta þess að með sölunni verður ríkið af arðgreiðslum þessara félaga. Aftur á móti vega hærri skatttekjur af afkastameiri og verðmætari félögum upp á móti fórnuðum arðgreiðslum.

#4 Starfsmannahald: Viðskiptaráð leggur til að vinnutími, veikindaréttur, upp­sagnar­vernd og orlofsréttur opinberra starfsmanna verði færður til jafns við einka­geirann. Tillögurnar skila 34 ma. kr. hagræðingu árlega.

Starfsmenn hjá hinu opinbera njóta ríkari starfstengdra réttinda en þeir sem starfa í einkageiranum. Þessi sérréttindi eru styttri vinnutími, ríkari veikindaréttur, aukið starfsöryggi og lengra orlof, en alls jafngilda þessi sérréttindi 19% kauphækkun.[4] Sérréttindin eru fjármögnuð með skattlagningu á launþega í einkageiranum, sem búa við lakari starfstengd réttindi. Viðskiptaráð telur að þetta samrýmist illa sjónarmiðum um jafnræði á vinnumarkaði.

Í þeim tilfellum þar sem afnám sérréttinda kallar á skerðingu áunninna réttinda áætlar ráðið hagræðingaráhrif aðeins af nýráðningum. Ráðið minnir þó á að hafa hagsmuni skattgreiðenda að leiðarljósi við innleiðingu á breytingum sem þessum og að eftirláta dómstólum að skera úr um vafamál.

[1] Hreinn lánsfjárjöfnuður segir til um hversu mikið fé þarf að taka að láni til að fjármagna hallarekstur ríkissjóðs, að teknu tilliti til fjárfestingarhreyfinga

[2] Í tilfelli sameiningu Stjórnarráðsins leggjum við jafnframt til að hagrætt verði í starfsmannahaldi um 20%, vegna mikillar fjölgunar starfsfólks á undanförnum árum. Sjá umfjöllun Viðskiptablaðsins um starfsmannafjölda í Stjórnarráðinu. Slóð: https://vb.is/frettir/stodugildum-fjolgad-um-156-a-sjo-arum/

[3] Fyrir utan Landsbankann, þar sem notað var meðaltal V/I hlutfalla innlendu bankanna

[4] Viðskiptaráð (2024). „Dulbúinn kaupauki: Sérréttindi opinberra starfsmanna“. Slóð: https://vi.is/skodanir/dulbuinn-kaupauki

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024