ATA Carnet

Á vegum Alþjóðatollasamvinnuráðsins í Brussel er í gildi tollsamþykkt um ATA Carnet skírteini sem heimilar tímabundinn útflutning á vörum og vörusýnishornum. Ætlast er til að viðkomandi vörur séu fluttar til baka innan eins árs eftir notkun í einu eða fleiri löndum. Í einstaka tilvikum kann fresturinn að vera styttri.

Sækja um ATA skírteini (einungis er tekið við rafrænum umsóknum)

Hvaða réttindi veitir ATA?

Handhafi ATA skírteinis greiðir hvorki tolla né önnur aðflutningsgjöld í þeim löndum og landsvæðum sem eru aðilar ATA samningsins, en þau eru 87 talsins. Á vef Alþjóðaviðskiptaráðsins (ICC) er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um ATA, en hér að neðan eru aðrir nytsamlegir hlekkir:

Helstu vörutegundir

Helstu vörutegundir sem fluttar hafa verið út á ATA skírteinum á undanförnum árum eru: Kvikmyndatæki, sjávarútvegsvörur vegna sýninga, tölvur og hugbúnaður, listaverk og leikmunir, hljómflutningstæki, mælitæki og rafeindatæki, fatnaður og fleira.

Hvar og hvernig fæst ATA skírteini?

ATA skírteini eru gefin út hjá Viðskiptaráði Íslands og þarf að sækja um útgáfu þeirra með að minnsta kosti tveggja daga fyrirvara. Til að tollyfirvöld geti staðfest ATA skírteinið ber að merkja vörurnar með nafni framleiðanda, með vörumerki/framleiðslumerki auk þess að tiltaka fjölda þeirra og verðmæti.

Kostnaður, tryggingar og félagskjör

Kostnaður vegna ATA skírteina fer eftir verðskrá Viðskiptaráðs hverju sinni og byggir á verðmæti varanna sem fluttar eru út samkvæmt skírteininu. Boðið er upp á flýtimeðferð gegn sérstöku gjaldi en einnig er tekið aukagjald fyrir umfangsmeiri skírteini.

Til viðbótar þarf að skila inn tryggingum samkvæmt ákvörðun Viðskiptaráðs hverju sinni, ýmist í formi geymslugreiðslu eða bankaábyrgðar. Auk þessara trygginga verður eftir atvikum krafist ábyrgðaryfirlýsingar forsvarsfólks fyrirtækisins, sérstaklega fyrir tvo hæstu verðflokkana. Almennt er miðað við að fjárhæð geymslugreiðslna og bankaábyrgða nemi um helmingi af verðmæti varanna. Gildistími trygginga þarf að vera tvö ár frá útgáfudegi skírteinis.

Félagar í Viðskiptaráði Íslands fá 50% afslátt af öllum gjöldum að skilagjaldi og flýtimeðferðargjaldi frátöldum. Auk þess þarf fjárhæð trygginga alla jafna aðeins að nema 25% af heildarverðmæti skírteinis, í stað 50%. Þá fá umsóknir félaga forgang í afgreiðslu. Afslættir eru aðeins veittir ef árgjöld og aðrar greiðslur til Viðskiptaráðs eru í skilum. Viðskiptaráð áskilur sér rétt til að hafna afsláttum, móttöku víxla og afgreiðslu ATA skírteina ef greiðslusaga viðkomandi gefur ástæðu til.

Tollmeðferð - stimplun

Þegar Viðskiptaráð hefur gefið út ATA skírteini þarf viðkomandi aðili að láta skírteinið fylgja vörunni í tollafgreiðslu. Tollurinn á Íslandi þarf bæði að stimpla skírteinið út úr landi og inn í landið þegar varan snýr aftur. Að sama skapi þarf Tollurinn í viðkomandi innflutningsríki að stimpla vöruna inn í landið og aftur út. Sé varan og þ.a.l. skírteinið flutt með þriðja aðila, t.d. flutningsmiðlara, er rétt að brýna þetta ferli fyrir þeim aðila.

Skil á skírteininu og endurgreiðsla skilagjalds

Handhöfum ATA skírteinis ber að skila því til Viðskiptaráðs áður en gildistími þess er útrunninn (þ.e. yfirleitt innan árs). Þá verður skilagjald endurgreitt.

Greiðsla á aðflutningsgjöldum

Ef hluti af þeim vörum sem tilgreindar eru á ATA skírteini er seldur eða hverfur erlendis ber að tilkynna það tollyfirvöldum í því landi vegna tollmeðferðar, þ.e. greiðslu tolla og tengdra gjalda af þeim vörum sem um ræðir. Framvísa þarf skírteininu og leiðrétta það í samræmi við breytta stöðu vegna þessa. Nánari upplýsingar veitir Hulda Sigurjónsdóttir, skrifstofustjóri Viðskiptaráðs.