Viðskiptaráð Íslands

Afnám jafnlaunavottunar tímabær breyting

Viðskiptaráð hefur skilað umsögn um frumvarp til breytinga á jafnréttislögum. Ráðið fagnar því að afnumin verði skylda til jafnlaunavottunar, þar sem fyrirkomulagið hefur reynst bæði kostnaðarsamt og árangurslítið. Ráðið hvetur til einföldunar regluverks og endurskoðunar stofnanaumgjörðar á sviði jafnréttismála.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar ofangreind frumvarpsdrög. Ráðið fagnar því að afnema eigi skyldu til jafnlaunavottunar, en hvetur ráðherra til að hverfa frá áformum um lögbundna skýrslugjöf fyrirtækja til Jafnréttisstofu.

Tímabundin aflétting á þungu regluverki

Tímabært er að afnema kvöð um jafnlaunavottun, þar sem að rannsóknir hafa sýnt að fyrirkomulagið skilar litlum árangri en er afar kostnaðarsamt. Í rannsókn Hagstofunnar frá árinu 2021 kemur fram að ekki er marktækur munur á launamun kynjanna hjá fyrirtækjum sem hlotið hafa jafnlaunavottun og þeim sem ekki hafa hlotið hana.[1] Þrátt fyrir það hefur skylda til jafnlaunavottunar kostað atvinnulífið fleiri milljarða í framkvæmd.[2]

Afnám jafnlaunavottunar er jafnframt vinsælt mál meðal kjósenda. Viðskiptaráð kannaði í aðdraganda nýafstaðinna kosninga til Alþingis afstöðu kjósenda til fullyrðingarinnar „Afnema ætti lagakvöð um jafnlaunavottun“ í kosningaprófi Viðskiptaráðs en yfir 14.000 manns tóku þátt í prófinu. 47% svarenda reyndust frekar eða mjög fylgjandi því að afnema ætti vottunina, á meðan að 30% einstaklinga voru andvíg fullyrðingunni.

Krafa um skýrslugjöf óþörf

Á sama tíma og ráðið tekur undir markmið um að ekki verði kvikað frá launajafnrétti kynjanna efast ráðið um að krafa um skýrsluskil á þriggja ára fresti séu til þess fallin að ná markmiðinu og á því erfitt með að sjá þörfina á slíku ákvæði. Jafnlauna­ákvæði hefur verið til staðar í íslenskum lögum frá 1976, þar sem kveðið var á um að konum og körlum skyldu greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf og að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki sínu eftir kynferði.[3] 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrár og 6. gr. jafnréttislaga tryggja ennfremur sama rétt karla og kvenna til launa og jafns réttar í hvívetna.

Jafnframt vill ráðið benda á að ef hið opinbera dregur til baka kvaðir um vottanir og skýrsluskil getur skapast vettvangur fyrir einkaaðila til að veita slíkar vottanir. Þá gætu fyrirtæki á eigin forsendum sótt vottun sem staðfestir að launajafnrétti ríki innan fyrirtækisins og neytendur beint viðskiptum sínum að þeim fyrirtækjum, kjósi þeir að gera það. Ríkið getur þannig haft ruðningsáhrif á markað með gæðavottanir, haldi það áfram að setja lagakvaðir á fyrirtæki um skýrsluskil.

Vert að endurskoða stofnanaumgjörðina samhliða breyttum verkefnum

Viðskiptaráð hvetur til þess að samhliða innleiðingu þessarar breytingar verði núverandi stofnanaumgjörð Jafnréttisstofu tekin til endurskoðunar. Ljóst er að breytingarnar munu hafa töluverð áhrif á magn og umfang verkefna hjá stofnuninni og þ.a.l. eðlilegt að starfsmannafjöldi verði endurskoðaður í samhengi við það. Ráðið hvetur ennfremur til þess að skoðað verði hvort sameina megi stofnanir á sviði réttindamála og setja á fót eina stofnun borgaralegra réttinda.[4] Þannig mætti draga úr stjórnsýslukostnaði og trygga betur heildstæða nálgun í réttindamálum borgaranna. Þessi sameining væri jafnframt í samræmi við tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar.

Viðskiptaráð hvetur til þess að tekið verði mið af ofangreindum sjónarmiðum við vinnslu málsins.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tilvísanir

1 Hagstofan (2021). Launamunur karla og kvenna dregst saman. Slóð: https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/laun-og-tekjur/launamunur-karla-og-kvenna-dregst-saman/

2 Samtök atvinnulífsins (2024). Jafnlaunavottun – mikill kostnaður, lítill ávinningur. Slóð: https://www.sa.is/frettatengt/frettir/jafnlaunavottun-mikill-kostnadur-litill-avinningur

3 Lög um jafnrétti kvenna og karla (1976). Slóð: https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/97/192/?ltg=97&mnr=192

4 Stofnanir á sviði réttindamála eru Umboðsmaður barna, Persónuvernd, Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, Barna- og fjölskyldustofa og Mannréttindastofnun, auk Jafnréttisstofu

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024