Viðskiptaráð hefur tekið til skoðunar skýrslu starfshóps forsætisráðherra um embættismannakerfið. Þar koma fram ýmsar tillögur sem valda ráðinu áhyggjum og sem eru til þess fallnar að rýra vald ráðherra, draga úr sveigjanleika stjórnvalda og auka enn frekar við ríka vernd embættismanna í starfi.

Viðskiptaráð hefur tekið umsagnar skýrslu starfshóps forsætisráðherra um hlutverk og starfsskilyrði embættismanna. Í skýrslunni gerir starfshópurinn tillögur að breytingum sem ætlað er að stuðla að auknu sjálfstæði, hreyfanleika og hæfni ákveðins hóps embættismanna og efla þar með traust til stjórnsýslunnar.
Í skýrslunni, sem ber heitið „Kjölfesta í hringiðu lýðræðisins,“ eru settar fram tillögur um embættismenn í svokölluðum P-flokki, þ.e. þá embættismenn sem starfa í mestri nálægð við pólitíska valdhafa. Þar er um að ræða ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra ráðuneyta og forstöðumenn stofnana ríkisins. Lagt er til breytt valferli embættismanna, lengdur skipunartími þeirra, miðlæg stjórnsýslueining um málefni embættismanna í P-flokki, takmarkanir á starfstíma aðstoðarmanna ráðherra o.fl.
Viðskiptaráð telur mikilvægt að íslenskt embættismannakerfi sé skilvirkt, faglegt og einfalt, og að það styðji við trausta og gagnsæja stjórnsýslu og lýðræðislega ábyrgð ráðherra. Í því sambandi eru ýmsar hugmyndir starfshópsins áhugaverðar. Aðrar valda hins vegar ráðinu áhyggjum þar sem þær miða að því að rýra vald ráðherra, draga úr sveigjanleika stjórnvalda og auka enn frekar við ríka vernd embættismanna í starfi.
Viðskiptaráð bendir einnig á að kostnaður við gerð skýrslunnar nam 21 milljón króna, sem verður að teljast óhóflegur kostnaður miðað við umfang og eðli verkefnisins. Skýrslan tafðist um nærri tvö ár, sem gefur tilefni til hugað sé alvarlega að verkstjórn, umfangi og tilgangi slíkra verkefna á vegum stjórnsýslunnar og eftirfylgni með framgangi þeirra.
Loks gerir Viðskiptaráð athugasemd við hæfi starfshópsins. Starfshópurinn var einvörðungu skipaður embættismönnum sjálfum, sem dregur úr hlutlægni gagnvart tillögum sem snerta stöðu þeirra sjálfra, starfsöryggi og starfsumhverfi. Eðlilegra væri að skýrslan væri unnin, að minnsta kosti að hluta til, af óháðum aðilum utan stjórnsýslunnar.
Í ljósi framangreinds telur Viðskiptaráð brýnt að umfjöllun um tillögur skýrslunnar sé gagnrýnin og vinna í framhaldi af henni byggi á sjónarmiðum um ábyrgð og sjálfstæði stjórnsýslunnar án þess að grafa undan lýðræðislegu umboði ráðherra.
Tillögur starfshópsins
Að lokum vill Viðskiptaráð leggja áherslu á að ákveði stjórnvöld að útfæra tillögur starfshópsins þurfi þær breiðari aðkomu þar sem tryggt sé að fleiri hagsmunaaðilar en embættismenn sjálfir komi að borðinu. Mikilvægt er að sjónarmið atvinnulífsins, sveitarfélaga, almennings, fræðasamfélags og annarra sem reiða sig á skilvirka og trausta stjórnsýslu fái raunverulegt vægi við mótun breytinga af þessu tagi.
Viðskiptaráð undirstrikar jafnframt að virða skuli meginreglur stjórnskipunar um pólitíska ábyrgð ráðherra, en þær kveða á um að ráðherrar fari með stjórnsýsluvaldið og beri ábyrgð gagnvart Alþingi. Þegar valdheimildir eru fluttar frá ráðherrum til sérstakra eininga innan stjórnsýslunnar án aðkomu þeirra skapast hætta á að grafið sé undan lýðræðislegu umboði og framsali valds til aðila sem ekki bera pólitíska ábyrgð. Því er brýnt að allar breytingar á embættismannakerfinu tryggi áframhaldandi skýra ábyrgð ráðherra og að vald þeirra sé ekki rýrt með aukinni miðstýringu eða valdframsali innan stjórnsýslunnar. Lýðræðið sjálft hvílir á þeirri grundvallarreglu að þeir sem fara með valdið hafi til þess skýrt umboð og beri ábyrgð gagnvart kjósendum. Því er mikilvægt að breytingar á stjórnsýslunni styrki þá grunnstoð en veiki hana ekki.
Viðskiptaráð telur einnig mikilvægt að minna á að á undanförnum árum hefur orðið sú þróun að ýmis konar stjórnsýslunefndir, hæfnisnefndir og ráðgjafarnefndir hafa fengið sífellt meira vægi við undirbúning og töku stjórnvaldsákvarðana. Þótt slíkar nefndir gegni mikilvægu hlutverki við að tryggja vandað og faglegt mat, er ljóst að of mikið vægi þeirra getur jafnframt takmarkað svigrúm ráðherra til að beita því pólitíska og stjórnskipulega mati sem þeir bera eftir sem áður fulla ábyrgð á gagnvart Alþingi.
Valdframsal frá Alþingi og ráðherrum til ókjörinna embættismanna getur haft víðtæk áhrif á fleiri svið stjórnsýslunnar og leitt til þess að meginreglur þingræðis, ráðherraábyrgðar og lýðræðislegrar stjórnsýslu veikist. Í ljósi þess er mikilvægt að allar breytingar á embættismannakerfinu, sérstaklega þær sem fela í sér aukið hlutverk nefnda eða miðlægra eininga, séu vandlega metnar með það fyrir augum að tryggja áfram stöðu ráðherra í lýðræðissamfélagi, skýra ábyrgð hans og að vald sé ekki fært til aðila sem ekki hafa til þess lýðræðislegt umboð.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.