Viðskiptaráð Íslands

Erfið samkeppnisstaða einkarekinna fjölmiðla

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um ráðstöfun útvarpsgjalds (mál nr. 129)

Viðskiptaráð þakkar fyrir tækifærið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um ráðstöfun útvarpsgjalds. Ráðið hefur lengi látið rekstrarumhverfi fjölmiðla sig varða, en hérlendis setur mikið umfang Ríkisútvarpsins mark sitt á rekstrarumhverfi annarra fjölmiðla, bæði á auglýsingamarkaði og sem framleiðandi og kaupandi að efni. Samkeppnisstaða einkarekinna fjölmiðla gagnvart RÚV er erfið, en RÚV er að stærstum hluta fjármagnað af skattfé.

Áskrift að Ríkisútvarpinu er lögþvinguð á grundvelli útvarpsgjalds sem lagt er á samhliða álagningu opinberra gjalda, í samræmi við 14. gr. laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 og 93. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Upphæð gjaldsins í ár er 20.200 kr. og gjaldið greiða allir einstaklingar 16-69 ára auk allra fyrirtækja í landinu. Fimm manna fjölskylda með unglinga yfir 16 ára aldri greiðir þannig 101.000 kr. árlega til Ríkisútvarpsins, burtséð frá því í hvaða mæli heimilismenn nýta sér þjónustu þess. Tekjur af gjaldinu hafa hækkað mikið undanfarin ár eins og sjá má á grafinu hér að neðan. Ástæðuna má rekja til ákvarðana um hækkun gjaldsins sem og fjölgunar greiðenda. Á verðlagi ársins 2022 hækka tekjur af gjaldinu um rúm 44% miðað við árið 2017.

bb28be8b-5cc8-4d8f-a2a5-ab05802aa282

Takmarka þarf umsvif Ríkisútvarpsins

Lengi vel hefur verið rætt um nauðsyn þess að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði til að styrkja stöðu frjálsra fjölmiðla hérlendis. Þrátt fyrir háværa umræðu síðastliðin ár hefur enn ekki náðst pólitísk sátt um aðgerðir. Því er nú svo komið að samkeppnisstaða annarra fjölmiðla hefur versnað, og er að sjálfsögðu fleiri atriðum þar um að kenna svo sem ójafnri stöðu íslenskra og erlendra fjölmiðla hérlendis. Á þessu ber ríkið þó mikla ábyrgð, bæði með því að reka fjölmiðil í samkeppni við einkaaðila og með því að draga lappirnar í að jafna stöðu innlendra og erlendra fjölmiðla. Umfram allt er að mati Viðskiptaráðs ekki hægt að líta fram hjá því vandamáli sem umfang RÚV skapar, en það er ekki aðeins á auglýsingamarkaði sem samkeppnisstaða þess hefur áhrif, heldur keppir RÚV einnig við innlenda einkaaðila um dagskrárefni. Vinna þarf gegn þeirri röskun.

Viðskiptaráð tekur undir framlagða þingsályktunartillögu og telur fullt tilefni til að útfæra það nánar að landsmenn hafi valfrelsi um ráðstöfun hluta útvarpsgjaldsins. Slíkt fyrirkomulag þekkist nú þegar í lögum um sóknargjöld og ekki ætti að vera neitt til fyrirstöðu að útfæra útvarpsgjaldið á svipaðan hátt, þar sem almenningur gæti á einstaklingsgrundvelli ákveðið til hvaða fjölmiðils útvarpsgjaldið rennur. Við mat á hæfi til að þiggja útvarpsgjald mætti t.d. horfa til þeirra skilyrða sem þegar hafa verið sett um styrki til einkarekinna fjölmiðla. Ráðið telur jafnvel tilefni til að ganga lengra en fyrirliggjandi tillaga leggur til og að heimilt verði að ráðstafa allri upphæð útvarpsgjaldsins, en ekki einungis þriðjungi þess.

Aðrar leiðir eru færar

Að því sögðu telur Viðskiptaráð aðrar leiðir færar til að styrkja stöðu einkarekinna fjölmiðla og telur ráðið einsýnt að Ríkisútvarpið hverfi af auglýsingamarkaði. Mýksta leiðin væri að RÚV hætti virkri auglýsingasölu, en taki við auglýsingum til birtingar, en sú sem gengur lengst væri að taka RÚV alfarið af auglýsingamarkaði. Þannig þyrfti RÚV ekki lengur að haga dagskráráherslum þannig að þær löðuðu að sér auglýsingar og hefði þannig meira svigrúm til að sinna því menningarlega hlutverki sem því er ætlað að rækja um leið og breytingarnar hefðu afgerandi jákvæð áhrif á samkeppnisstöðu einkarekinna fjölmiðla. Þá telur Viðskiptaráð einnig að setja megi á fót samkeppnissjóð til þess að styðja við innlenda dagskrárgerð. Slíkir samkeppnissjóðir þekkjast á ýmsum málefnasviðum þar sem stjórnvöld telja samfélagsleg verðmæti að finna og er Kvikmyndasjóður Íslands dæmi um slíkt. Þannig myndi RÚV keppa um opinbert fjármagn í slíkri dagskrárgerð á jafnræðisgrundvelli við aðra fjölmiðla í landinu.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024