Viðskiptaráð Íslands

FuelEU grafi undan samkeppnishæfni Íslands

Viðskiptaráð telur að innleiðing FuelEU Maritime reglugerðar ESB muni leggja ósanngjarna og kostnaðarsama byrði á Ísland sem eyríki. Reglugerðin muni veikja samkeppnishæfni landsins, hækka flutningskostnað og bitna á fyrirtækjum og neytendum, án nægilegs gagnsæis um hvernig gjöld eigi að nýtast til orkuskipta. Ráðið hvetur stjórnvöld til að nýta sveigjanleika í innleiðingu til að vernda hagsmuni Íslands.

Viðskiptaráð hefur tekið umsagnar áform um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að tryggja lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðar (ESB) 2023/1805 FuelEU.

FuelEU Maritime-reglugerðin er hluti af víðtækum aðgerðarpakka framkvæmda­stjórnar Evrópusambandsins (Fit for 55), sem miðar að því að draga úr losun á útblæstri um að lágmarki 55% fyrir árið 2030. Meginmarkmið reglugerðarinnar er að draga úr losun í siglingum í stigvaxandi skrefum með kröfum um notkun eldsneytis með lægri kolefnislosun.

Viðskiptaráð bendir á að reynsla íslensks atvinnulífs af innleiðingu sambærilegra kerfa sem einnig taka til skipaflutninga, s.s. ETS-kerfinu, sýnir að aðgerðir sem ekki taka nægilegt tillit til sérstöðu Íslands hafa þegar reynst íþyngjandi og munu fyrirsjáanlega hafa sérstaklega neikvæð áhrif á samkeppnishæfni landsins að óbreyttu. FuelEU Maritime felur í sér samskonar íþyngjandi kvaðir. Krafa um aukna notkun sjálfbærs eldsneytis, svo sem lífdísels, mun leiða til verulegs kostnaðar­auka, enda er slíkt eldsneyti í dag umtalsvert dýrara en hefðbundið jarðefna­eldsneyti. Um er að ræða einn af mörgum þáttum sem leggjast á skipaflutninga og hafa komið til á liðnum árum í gegnum regluverk Evrópusambandsins.

Með innleiðingu reglugerðarinnar teldist Ísland ekki lengur til þriðju ríkja samkvæmt reglugerðinni, en reglugerðin á 50% við í siglingum milli aðildarríkja og þriðju ríkja. Verði reglugerðin innleidd að fullu færist hlutfallið í 100%. Full innleiðing reglugerðarinnar kemur sérstaklega illa við eyríki sem reiðir sig að stærstum hluta á sjóflutninga fyrir inn- og útflutning á vörum.

Einnig telur Viðskiptaráð skorta á gagnsæi og eftirfylgni í tengslum við gjaldtöku samkvæmt reglugerðinni en líkt og í ETS kerfinu er innheimtum gjöldum sérstaklega ætlað að styðja við orkuskipti, uppbyggingu innviða eða þróun nýrra lausna. Þá bitnar hún sérstaklega á innlendum fyrirtækjum og neytendum. Slíkt dregur úr fjárfestingargetu fyrirtækja í nýjum tæknilausnum og geta þannig grafið undan markmiðum reglugerðarinnar til lengri tíma.

Að lokum vill Viðskiptaráð leggja ríka áherslu á sérstöðu Íslands. Ísland er eyríki, fámenn þjóð með langar flutningsleiðir til helstu markaða og er nær alfarið háð sjóflutningum um flutning vara til og frá landinu. Regluverk sem er hannað fyrir stóran meginlandsmarkað leggst því mun þyngra á Ísland en önnur ríki innan EES. Mikilvægt er að stjórnvöld nýti til fulls þann sveigjanleika sem heimilaður er við innleiðingu reglugerðarinnar og beiti sér fyrir lausnum sem tryggja jafnræði, samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og hagfelld lífskjör.


Tengt efni

Lagaumgjörð um lagareldi styðji við áframhaldandi vöxt

Viðskiptaráð fagnar endurskoðun laga um lagareldi. Skýr og fyrirsjáanleg löggjöf …
16. desember 2025

Fyrstu kaupendum beint í dýrara húsnæði

Viðskiptaráð geldur varhug við frumvarpi til breytinga á húsnæðislögum, sem …
15. desember 2025

Atvinnustefna á að vera almenn og skapa stöðugt rekstrarumhverfi

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að atvinnustefnu Íslands til 2035. …
8. desember 2025