Viðskiptaráð hefur skilað umsögn um áform um frumvarp til laga um innleiðingu á aðlögunarkerfi við landamæri vegna kolefnis (CBAM). Ráðið gagnrýnir kerfið og telur það vera viðbragð við samkeppnishalla sem ETS-kerfið hefur skapað evrópskum fyrirtækjum. Að mati ráðsins bætir CBAM við þegar flókið og íþyngjandi regluverk sem leysi ekki undirliggjandi vandamál og muni til lengri tíma leiða til hærra vöruverðs og lakari samkeppnishæfni. Ráðið hvetur stjórnvöld til þess að beita sér fyrir frekari einföldun og afregluvæðingu.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar áform um frumvarp til laga um aðlögunarkerfi við landamæri vegna kolefnis. Fyrirhugað frumvarp mun fela í sér innleiðingu reglugerðar (ESB) 2023/956 (e. Carbon Border Adjustment Mechanism, eða CBAM).
CBAM-reglugerðin er hluti af víðtækum aðgerðapakka framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um að lágmarki 55% fyrir árið 2030 (Fit for 55). Markmið reglugerðarinnar er að efla samkeppnishæfni fyrirtækja sem falla undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (e. Emissions Trading System, ETS) með því að koma tollum á innbyggt kolefni í vörum með stórt kolefnisfótspor (ál, stál og járn, vetni, rafmagn og áburð).
Tilgangur tollanna er að vinna gegn svokölluðum kolefnisleka, þ.e. að kolefnisfrekur iðnaður flytjist til annarra landa vegna hertrar loftslagsstefnu í Evrópu. Samhliða upptöku CBAM-kerfisins verður smám saman hætt að úthluta endurgjaldslausum losunarheimildum til iðnaðarstarfsemi sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir. Kerfið var innleitt í íslensk lög árið 2023 og tók gildi 1. janúar 2024, með stigvaxandi innleiðingu.
Mikilvægt er að við innleiðingu evrópskra reglna í íslenskan rétt sé þess gætt að ekki séu lagðar á íslensk fyrirtæki víðtækari eða meira íþyngjandi kvaðir en leiðir af skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum.
Að mati Viðskiptaráðs er CBAM að miklu leyti tilkomið sem viðbragð við þeim samkeppnishalla sem Evrópusambandið hefur skapað evrópskum fyrirtækjum í gegnum ETS-kerfið. Ráðið telur skynsamlegra að ráðast að rót vandans, sem er ETS-kerfið sjálft, og búa fyrirtækjum þannig alþjóðlega samkeppnishæft rekstrarumhverfi. Þótt CBAM geti til skemmri tíma litið mildað þann vanda, er um að ræða plástur á sjálfsprottið kerfislægt vandamál sem leiðir af skakkri stefnu. Til lengri tíma munu íbúar Evrópu bera kostnaðinn í formi hærra vöruverðs vegna hærri tolla.
CBAM-kerfið felur þannig í sér viðbótarregluverk sem bætist ofan á þegar flókið og íþyngjandi regluumhverfi evrópskra framleiðenda. Sú skekkja sem orðið hefur í samkeppnisumhverfi Evrópu gagnvart öðrum heimsálfum verður ekki leiðrétt með aukinni reglusetningu. Sú nálgun að ætla að mæla og verðleggja innbyggt kolefni í innfluttum vörum með tollum sem jafna eigi stöðu þeirra gagnvart framleiðendum innan ESB er að mati ráðsins verulega vandasöm í framkvæmd.
Í ljósi þessa er hæpið að ætla að leysa undirliggjandi vandamál ETS-kerfisins með frekari álögum á vörur í gegnum CBAM. Þvert á móti hefur þróun undanfarinna ára sýnt að sífellt flóknara regluverk dregur úr hagvexti og framleiðni á innri markaði ESB, sem hefur víða staðnað eða dregist saman á undanförnum árum. Til að styrkja samkeppnishæfni Evrópu til lengri tíma er brýnt að vinda ofan af þeirri þróun sem orðið hefur vegna þungs, ósamkeppnishæfs regluverks og horfa í auknum mæli til einföldunar og afregluvæðingar, fremur en að bæta ofan á þau kerfi sem fyrir eru.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.