Viðskiptaráð Íslands

Hagkvæmari reglur til bættra lífskjara

Viðskiptaráð telur að áður en ráðist er í lagasetningu sem hefur í för með sér talsverðan kostnað sé nauðsynlegt að framkvæmt sé fullnægjandi mat á áhrifum hennar. Nágrannalönd okkar hafa þróað kerfi í þessum efnum sem við mættum gjarnan hafa til fyrirmyndar hvað þetta varðar, en þar er efnahagslegt mat í aðdraganda lagasetningar ítarlegt og nauðsynlegur hluti hennar hverju sinni.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að frumvarpi um gagnsæi í rekstri stærri óskráðra félaga. Ráðið telur markmið frumvarpsins um að auka traust og gagnsæi vera gott og tekur undir mikilvægi þess. Þó er nauðsynlegt að hafa í huga það íþyngjandi regluverk sem er nú þegar til staðar á Íslandi. Ráðið gerir því nokkrar athugasemdir við frumvarpið.

Regluverk á Íslandi er of íþyngjandi

Mikilvægt er að stíga varlega til jarðar í reglusetningu enda geta of miklar skorður í þeim málum leitt til sóunar og í verstu tilfellum afturfarar. Of íþyngjandi reglur leiða til mikils kostnaðar fyrir fyrirtæki sem til að mynda hamlar samkeppni og skapar aðgangshindranir á markaði. Alþjóðlegur samanburður bendir til þess að regluverk á Íslandi sé meira íþyngjandi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við og samkvæmt úttekt IMD viðskiptaháskólans á samkeppnishæfni er Ísland ítrekað eftirbátur hinna Norðurlandanna þegar kemur að regluverki atvinnulífsins (Mynd 1). Í þessu samhengi er jafnframt mikilvægt að huga að því að í alþjóðlegri samkeppni eru öll íslensk fyrirtæki fremur smá og því mikilvægt að þau búi ekki við þyngra regluverk en nauðsyn krefur í samanburði við það sem gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Hagkvæmari reglur leiða aftur á móti til bættra lífskjara. Í ESB hefur m.a. verið áætlað að með því að létta reglubyrði um 25% hefði það í för með sér 1,7% hærri landsframleiðslu og 1,5% meiri framleiðni vinnuafls.1 Þá er talið að 20% lækkun kostnaðar við eftirfylgni (e. compliance cost) geti aukið verga landsframleiðslu um 1,3%.2 Íþyngjandi leikreglur leiða aftur á móti til lakari samkeppnishæfni og afturfarar og þar er Ísland ekki á góðri leið. Viðskiptaráð hvetur því til þess að stjórnvöld hafi stöðu Íslands í huga þegar kemur að íþyngjandi regluverki og samkeppnishæfni landsins og dragi frekar úr íþyngjandi reglubyrði í stað þess að bæta í.

Mati á áhrifum ábótavant

Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um mat á áhrifum frumvarpsins. Viðskiptaráð telur að því sé verulega ábótavant en í greinargerðinni segir: „verði frumvarpið að lögum kann það að hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir þá lögaðila sem falla undir hina nýju skilgreiningu á einingu tengdri almannahagsmunum.“ Ljóst er að frumvarpið „kann“ ekki aðeins að hafa í för með sér aukinn kostnað, heldur mun það tvímælalaust hafa umtalsverðan kostnað í för með sér fyrir þá aðila er falla undir lögin.

Viðskiptaráð telur að áður en ráðist er í lagasetningu sem hefur í för með sér talsverðan kostnað sé nauðsynlegt að framkvæmt sé fullnægjandi mat á áhrifum hennar. Nágrannalönd okkar hafa þróað kerfi í þessum efnum sem við mættum gjarnan hafa til fyrirmyndar hvað þetta varðar, en þar er efnahagslegt mat í aðdraganda lagasetningar ítarlegt og nauðsynlegur hluti hennar hverju sinni. Hér á landi virðist tíðkast að við mat á áhrifum lagasetningar sé einblínt á áhrif hennar á hið opinbera, en oft skortir umfjöllun um mat á efnahagslegum áhrifum. Þegar slík umfjöllun er til staðar, er hún oftar en ekki örstutt og jafnan kemur fram að lagasetningin „kunni“ að hafa áhrif á lögaðila og að „einhver“ kostnaður muni fylgja henni. Þetta er að mati Viðskiptaráðs langt frá því að teljast fullnægjandi mat á efnahagslegum áhrifum lagasetningar og telur ráðið brýnt að nágrannalönd okkar séu tekin til fyrirmyndar í þessum efnum og raunverulegt mat sé framkvæmt á áhrifum lagasetningar á atvinnulífið. Það myndi þá leiða til þess að Ísland færðist nær Norðurlöndunum þegar kæmi að íþyngjandi regluverki á atvinnulífið. Regluverk á Íslandi er mest íþyngjandi í samanborið við Norðurlöndin og er ekki að undra þegar lagasetningin inniheldur ekki raunverulegt mat á áhrifum á fólk og fyrirtæki í landinu.

Viðskiptaráð hvetur til þess að frumvarpið verði tekið til endurskoðunar með ofangreint í huga. Í öllu falli er nauðsynlegt að framkvæmt sé fullnægjandi mat á áhrifum og ávinningi umræddrar lagasetningar.

Undir umsögnina skrifar Agla Eir Vilhjálmsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024