Viðskiptaráð Íslands

Lagaumgjörð um lagareldi styðji við áframhaldandi vöxt

Viðskiptaráð fagnar endurskoðun laga um lagareldi. Skýr og fyrirsjáanleg löggjöf er lykilforsenda áframhaldandi vaxtar greinarinnar, aukinnar samkeppnishæfni og stöðugs rekstrarumhverfis.

Viðskiptaráð hefur tekið ofangreind áform til umsagnar og telur tímabært að styrkja lagaumgjörð um fiskeldi. Þegar kemur að ört vaxandi atvinnugreinum er sérlega mikilvægt að lagaramminn styðji við áframhaldandi vöxt og að regluverkið sé einfalt, skilvirkt og fyrirsjáanlegt. Þá er jafnframt brýnt að stjórnvöld stuðli að hagfelldu og stöðugu rekstrarumhverfi fyrirtækja sem starfa í greininni.

Heildarframleiðsla fiskeldisafurða nam tæpum 54,8 þúsund tonnum á árinu 2024, sem jafngildir um 10% aukningu frá árinu 2023. Útflutningsverðmæti allra fiskeldisafurða jókst um 17% milli ára og nam alls 53,8 milljörðum króna árið 2024, þar af voru laxaafurðir um 47,7 milljarðar króna. Þessi þróun endurspeglar vaxandi mikilvægi greinarinnar fyrir íslenskt efnahagslíf og útflutning.

Ísland hefur alla burði til að sækja enn frekar fram á þessu sviði. Við fyrirhugaða lagasetningu er brýnt að áhersla verði lögð á að styðja við uppbyggingu greinarinnar með markvissum hætti. Mikilvægt er að styrkja samkeppnishæfni gagnvart erlendri samkeppni, meðal annars með auknum fyrirsjáanleika og sanngirni í skattheimtu, sem og með því að liðka fyrir erlendri fjárfestingu í greininni.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024