26. mars 2015
Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um landmælingar og grunnkortagerð. Frumvarpið kveður á um að afnumið verði það lagaskilyrði að gerð og miðlun á stafrænum þekjum hjá Landmælingum Íslands verði í mælikvarðanum 1:50.000 eða minni kvarða. Frumvarpinu er einnig ætlað að afnema gjaldtökuheimild Landmælinga Íslands.
Í umsögninni kemur m.a. eftirfarandi fram:
- Það fyrirkomulag sem frumvarpið kveður á um er líklegt til þess að eyðileggja rekstrargrundvöll fyrirtækja sem starfa á þessum markaði.
- Það er ekkert í núgildandi regluverki sem kemur í veg fyrir það að stofnanir sameinist um útboð fyrir gögn af meiri nákvæmni en þau gögn sem Landmælingum Íslands hefur verið heimilt að birta. Það fyrirkomulag sem frumvarpið kveður á um gengur mun lengra en nauðsynlegt er til þess að koma í veg fyrir marginnkaup á gögnum.
- Ekki hefur verið gerð grein fyrir því hvaða kostnaður kunni að falla á hið opinbera vegna hins breytta fyrirkomulags. Viðskiptaráð telur þörf á að slík úttekt fari fram áður en frumvarpið verður tekið til annarrar umræðu á Alþingi.
- Ráðið leggur ríka áherslu á að lögfest verði að Landmælingar Íslands bjóði út til einkaaðila öll þau verk sem nauðsynleg eru til að viðhalda og miðla hinum nýja landupplýsingagrunni.
- Stefnt er að sameiningu þjóðskrár og Landmælinga Íslands og styður ráðið þær áætlanir. Skoða ætti breytingarnar sem frumvarpið kveður á um í samhengi við slíka sameiningu.
Umsögnina má í heild sinni nálgast hér