Það er við hæfi á þessum degi, þegar við horfum spennt á stelpurnar okkar mæta Frakklandi á EM, að hverfa aftur til þess fótboltaævintýris, sem fyrir rúmu ári vakti heimsathygli. Víða mátti sjá umfjöllun um þetta magnaða smáríki Ísland sem var búið að skjóta sterkustu landsliðum heims ref fyrir rass. Nú eru stelpurnar mættar á völlinn – og þjóðin er einnig mætt til leiks, enn á ný sameinuð.
En hvað liggur að baki þessari velgengni fámennrar þjóðar? Markviss undirbúningur, þrotlausar æfingar og áratuga löng uppbygging fótboltagreinarinnar. Bætt æfingaaðstaða, tilkoma nýrra þjálfara, skipulag og aukinn stuðningur hefur vafalaust skipt sköpum, sem og einstök samheldni þjóðarinnar þegar á reynir og framsækið hugarfar um að Ísland geti náð árangri.
Það væri áhugavert að yfirfæra þessa nálgun á stjórnmálin og samfélagið í heild. Leiðtogar landsins, líkt og þjálfarar, hafa verið valdir til þess að bera ábyrgð á hagfelldri umgjörð atvinnulífs og samfélags. Þeir verða að taka áræðnar ákvarðanir, horfa til lengri tíma og setja skýr markmið um hvert skuli halda, fá þjóðina með og ná árangri.
Ef á Íslandi á að ríkja áframhaldandi hagvöxtur og kraftmikið atvinnulíf verðum við, líkt og í fótboltanum, að huga að markvissum undirbúningi og uppbyggingu. Alþjóðavæðing viðskipta krefst þess að Ísland sé klárt á heimsmeistaramótið og því hefur samkeppnishæfni landsins aldrei verið mikilvægari. Stafræn tæknivæðing og sjálfvæðing er hluti af hinni svokölluðu „fjórðu iðnbyltingu“ sem nú þegar er hafin. Tæknibylting sem sameinar hina efnislegu, stafrænu og líffræðilegu heima og hefur um leið áhrif þvert á allar fræðigreinar, hagkerfi og atvinnustarfsemi. Breytingarnar sem fjórðu iðnbyltingunni fylgja verða á mun meiri hraða en nokkur önnur þróun í sögu mannkyns.
Hvernig ætlum við á Íslandi að bregðast við þessum breytingum? Hugum við nægjanlega að undirbúningi fyrir störf framtíðarinnar? Eru fyrirtækin í stakk búin til að mæta aukinni samkeppni og breyttum vinnumarkaði þar sem m.a. aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast og umsvif erlendra samkeppnisaðila að aukast? Er hið opinbera tilbúið að innleiða nýjar lausnir og tækni til að auðvelda framþróun viðskipta og þjónustu?
Víkjum aftur að fótboltanum og höfum í huga þær framfarir sem orðið hafa í færni okkar og getu þar á undanförnum árum. Við hljótum að sækjast eftir samskonar framþróun í öllum okkar störfum og viðfangsefnum. Á sama hátt og við höfum staðið saman í fótboltanum þurfum við Íslendingar að setja okkur skýr markmið fyrir landið í heild og leggjast öll á eitt til að koma okkur þangað.
Umbyltingin á sér stað núna. Við þurfum að snúa vörn í sókn í meira mæli og halda ótrauð áfram í samkeppni á alþjóðavísu. Það eru gríðarleg tækifæri að finna í smæðinni, í hugvitssamri og duglegri þjóð, með allar þær auðlindir sem landinu eru gefnar. Við viljum ekki horfa til baka og hugsa að við vorum orðin „[…] eins og staðnaður vinaklúbbur - þar sem þetta snerist meira um að mæta og hittast heldur en að ná árangri. Að það hafi verið búið að afskrifa árangur því við erum svo lítil þjóð“, svo ég vitni í Kára Árnason, landsliðsmann, þegar hann fjallaði um stöðu landsliðsins fyrir ráðningu Lars Lagerbäck.
Við eigum frekar, sem fámenn þjóð á alheimsvísu, að fara að dæmi fyrirliða íslenska knattspyrnuliðsins, Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, þar sem hún segir í viðtali í Morgunblaðinu um s.l. helgi: „Ég veit að öll vinnan skilar sér. Maður verður að elska erfiðið og þegar maður uppsker er tilfinningin svo ótrúlega góð að ég er strax tilbúin að leggja það allt á mig aftur. Margar eru hæfileikaríkari en ég; betri tæknilega, gefa betri sendingar og eru fljótari, en ég er samt tekin fram fyrir þær vegna hugarfarsins.“
Tileinkum okkur hugarfar sigurvegarans. Setjum okkur skýr langtímamarkmið og leikplön til að tækla áskoranir framtíðarinnar. Þannig munum við uppskera stöðugan hagvöxt og farsælt samfélag þar sem allir standa saman og slá í takt - líkt og þjóðin mun gera í kvöld þegar við mætum Frökkum.
Heimurinn er að horfa. Áfram Ísland.
Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þriðjudaginn 18. júlí 2017.