Viðskiptaráð Íslands

Nauðsynlegt að breyta fyrirkomulagi kauprétta

Umsögn Viðskiptaráðs um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (mál nr. 432)

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Frumvarpið felur meðal annars í sér breytingu á reglum um kaup á hlutabréfum á grundvelli kaupréttarsamninga. Ráðið hefur lengi talað fyrir endurskoðun á kaupréttum og fagnar því að stjórnvöld ætli að taka skref í þá átt. Ráðið hefur þó nokkrar athugasemdir við útfærslu frumvarpsins.

Nauðsynlegt að breyta fyrirkomulagi kauprétta

Umgjörðin um kauprétti hérlendis er talsvert lakari en í nágrannalöndum okkar. Sökum smæðar og skorts á hæfu starfsfólki er nauðsynlegt að kerfi okkar sé ekki einungis samkeppnishæft, heldur betra en í nágrannalöndunum. Líkt og fjallað er um í greinargerð frumvarpsins hafa tekjur vegna kauprétta, sem starfsmanni eru veittar í tengslum við starf sitt, almennt verið skattlagðar sem hefðbundnar launatekjur en ekki eins og fjármagnstekjur. Þröng skilyrði eru fyrir undanþágu frá þeirri reglu og ná þau almennt ekki til nýsköpunarfyrirtækja. Fyrstu árin í starfsemi nýrra félaga, sér í lagi ef þau vinna að markaðssetningu nýrrar vöru, eru tekjur oft af skornum skammti. Eðli málsins samkvæmt hafa þau félög minna á milli handanna til að greiða út laun. Þá er almennt erfiðara fyrir íslensk félög að sækja erlenda sérfræðinga sem og að komast inn á erlenda markaði samanborið við félög erlendis. Viðskiptaráð fagnar því endurskoðun á þessu fyrirkomulagi þar sem það eykur líkurnar á að smærri félög geti laðað til sín hæft starfsfólk, sem er lykilatriði í því að auka samkeppnishæfni nýsköpunar á Íslandi. Auk þess minnkar þetta aðstöðumuninn milli fjárfesta og starfsfólks.

Skilyrði of þröng

Útfærsla frumvarpsins gerir það þó að verkum að breytingarnar munu ekki skila miklu fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Skilyrðin sem sett eru í frumvarpinu eru þröng og taka ekki mið af því umhverfi sem umræddir samningar eru gerðir í. Í 1. tl. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er sett fram skilyrði um að „sprotafyrirtæki hafi fengið staðfestingu Rannís, sbr. 5. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, nr. 152/2009, áður en kaupréttarsamningur var gerður og vinnuframlag þess sem fær kauprétt tengist eingöngu framkvæmd á hinu staðfesta verkefni“. Viðskiptaráð gerir athugasemd við það að tengja kaupréttarsamninginn við ákveðið verkefni. Í nýsköpunarfyrirtækjum starfa starfsmenn þétt að sama markmiði, um fáa starfsmenn er að ræða og raunar ólíklegt að einhverjir starfsmenn séu alfarið utan við ákvarðanatöku í einhverju verkefni. Ráðið sér ekki rök fyrir öðru enað heimila kaupréttarsamninga heilt yfir fyrirtækið, en með þessari útfærslu er annað hvort verið að mismuna starfsmönnum eða skapa óþarfa umstang hjá fyrirtækjum svo allir starfsmenn uppfylli viðkomandi skilyrði. Sömu reglur ættu að gilda um alla starfsmenn innan nýsköpunarfyrirtækja varðandi nýtingu kauprétta.

Líftími kaupréttarsamninga vinnur gegn markmiði

Þá felur 4. tl. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins í sér að samningur um kauprétti sé ekki framseljanlegur og nái ekki til lengri tíma en sex ára. Viðskiptaráð telur mikilvægt að þessum tímamörkum sé alfarið sleppt eða í öllu falli þau lengd verulega. Eigi samningurinn að ná því markmiði sínu að samtvinna hagsmuni starfsmanna og nýsköpunarfyrirtækja er vert að hafa það í huga að vöxtur nýsköpunarfyrirtækja er langt ferli og tekur mun lengri tíma ár fyrir slík félög að ná raunverulegum vexti. Afar litlar líkur eru því að á því tímabili aukist virði kauprétta og þar með hætt við að lítill tilgangur sé með þeim. Ráðið telur rétt að líta til framkvæmdar erlendis hvað þetta varðar, en umrætt ákvæði er á skjön við þær fyrirmyndir. Ráðið telur engin haldbær rök fyrir því að takmarka samningana með þessum hætti.

Festa þarf í sessi bráðabirgðaákvæði um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki

Þegar frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda fól 16. gr. í sér að bráðabirgðaákvæði laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki nr. 152/2009 var gert varanlegt. Frumvarpið hefur nú tekið breytingum á þá leið að bráðabirgðaákvæðið hefur einungis verið framlengt um tvö ár. Viðskiptaráð mótmælir þessari breytingu og telur mikilvægt að festa ákvæðið í sessi. Slík breyting yrði mikið framfaraskref og skapar nauðsynlegan fyrirsjáanleika fyrir nýsköpunarfyrirtæki og fjárfesta.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að mikilvægt sé að „stuðla að nýsköpun á Íslandi svo sem með rýmkun á reglum um kaup á hlutabréfum samkvæmt kauprétti og hvetja einstaklinga, þar á meðal starfsmenn, stjórnarmenn og sérhæfða ráðgjafa, til að taka þátt í uppbyggingu fyrirtækja sem stunda nýsköpun svo þau geti í ríkari mæli notið góðs af mikilvægri sérfræðiþekkingu og viðhaldið henni“. Í ljósi ofangreinds mun frumvarpið að óbreyttu ekki ná umræddu markmiði. Nauðsynlegt er að gera breytingar á því eigi að stuðla að samkeppnishæfari umgjörð um kauprétti í nýsköpunarfyrirtækjum.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið verði endurskoðað með tilliti til ofangreindra athugasemda og tekur jafnframt undir sjónarmið Framvís um málið.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024