Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna einföldunar og samræmingar leyfisferla á sviði umhverfis- og orkumála. Ráðið styður áherslur stjórnvalda um aukna skilvirkni og minna flækjustig, og leggur jafnframt til að farið verði enn lengra í að samþætta aðkomu stofnana og draga úr íþyngjandi regluverki. Frumvarpið markar mikilvægt framfaraskref, en hvetur til áframhaldandi umbóta, meðal annars með aukinni stafvæðingu og endurskoðun á ferli rammaáætlunar.
Viðskiptaráð þakkar fyrir tækifærið til að koma á framfæri athugasemdum um ofangreint frumvarp og er fylgjandi þeim skrefum sem eru boðuð í þá átt að auka skilvirkni í leyfisveitingaferli á sviði umhverfis- og orkumála. Vísað er til fyrri umsagna ráðsins um málið í samráðsgátt stjórnvalda sem og umsagna við vinnu verkefnateymis og áforma um lagasetningu. [1]
Viðskiptaráð fagnar vinnu stjórnvalda við að koma á skilvirkara leyfisveitingaferli í umhverfis- og orkumálum, en ráðið hefur lengi lagt áherslu á nauðsyn þess að draga úr flækjustigi í opinberri stjórnsýslu og lágmarka ónauðsynlegar tafir á framkvæmdum sem stuðla að aukinni orkuöflun. Þó vill Viðskiptaráð hvetja stjórnvöld til að ganga lengra og stíga stærri skref í þá átt að einfalda regluverk, auka skilvirkni, samþætta aðkomu stofnana og draga úr íþyngjandi kröfum.
Viðskiptaráð fagnar því að tekið hafi verið tillit til athugasemda í samráðsferli um breytingu 12. gr. a. raforkulaga og fallið hafi verið frá henni. Bent var á að lagaákvæði um innheimtu innmötunargjalds væri óljóst og að ákvæðið eins og það var lagt til í drögunum fæli í sérheimild til að mismuna viðskiptavinum eða þjónustuþegum innbyrðis.
Frumvarpið felur í sér jákvætt skref í þá átt að Umhverfis- og orkustofnun geti verið einn afgreiðslustaður fyrir leyfisveitingu. Skilvirkari stjórnsýsla, minni reglubyrði og einföldun leyfisferla í umhverfis- og orkumálum spilar lykilþátt í öruggri orkuöflun og stuðlar að auknum fyrirsjáanleika fyrir atvinnulíf. Þó þarf að gæta þess að auknar heimildir Umhverfis- og orkustofnunar leiði í reynd til skilvirkari og hraðari málsmeðferðar. Ráðið fagnar sérstaklega áherslu frumvarpsins um að auðvelda nýjum aðilum aðgang að raforkumarkaði og hvetur til þess að þeirri stefnu verði fylgt eftir í framkvæmd með markvissum hætti.
Þá hefur frumvarpið tekið jákvæðum breytingum frá því í samráðsgátt þar sem fallið hefur verið frá óljósri heimild til forgangsröðunar og flýtimeðferðar framkvæmda í þágu orkuskipta og kolefnishlutleysis. Að mati ráðsins hefði slík almenn tilvísun ekki uppfyllt skilyrði til að víkja frá jafnræðisreglu stjórnarskrár auk þess sem endurnýjanleg orka stuðlar í eðli sínu að orkuskiptum.
Frumvarpið er aðeins fyrsti áfangi nauðsynlegra lagabreytinga til einföldunar og samræmingar á leyfisveitingaferlum. Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að halda áfram á sömu braut og skoða frekari skref til einföldunar og samræmingar leyfisveitinga. Þar má meðal annars horfa til frekari samþættingar stofnana, aukinnar notkunar stafrænnar stjórnsýslu og skýrari tímamarka í öllum skrefum ferlisins.
Þá leggur Viðskiptaráð áherslu á að heildarendurskoðunar er þörf er varðar málsmeðferð rammaáætlunar, með það að markmiði að tryggja skilvirka og gagnsæja ákvarðanatöku í samræmi við brýna þörf fyrir aukna raforkuframleiðslu.
Umsögnina í heild sinni á lesa hér.
1 Sjá umsögn Viðskiptaráðs um drög að frumvarpi vegna einföldunar og samræmingar leyfisferla á sviði umhverfis- og orkumála (janúar 2025). Mál nr. S-232/2024 í Samráðsgátt. Slóð: https://vi.is/umsagnir/thorf-a-staerri-skrefum